25.1.05

Jússustælar hafa verið áberandi það sem af er frís.
Við mamma tókum gott kvöld þar sem gamla dró fram safn Davíðs frá Fagraskógi í tilefni afmæli hans. Á meðan við lásum ljóðin hlustuðum við á karlakórinn Heimi sem mamma telur skara fram úr öðrum karlakórum í söng og gjörvuleik. Já og þvílíkur andans snillingur var Davíð, eins og afi segir oft. Sérstaklega er gaman að lesa ljóðin sem beinast gegn kirkju og biskupavaldinu, við mamma erum hvorugar sérlega hrifnar af þannig apparötum svo við hlógum og skríktum yfir þessu öllusaman með hlýrann útá hlið. Ji minn. Svo hellti mamma upp á eitthvað jurtate sem heitir "Góða nótt" en ætti frekar að bera nafnið "Svefngalsi" því það leið ekki á löngu þar til ég var farin að stjórna ímynduðum karlakórum út og suður og fannst ég standa mig vel. Eftir aðeins tvo bolla af teinu fannst mér ég svo vera rússnesk ballettdrottning og stökk um allt stofugólf með miklum tilþrifum. Ég var mjög ánægð með mig, bæði afþví mér fannst ég hafa afar tignarlegar hreyfingar og þetta var mesta líkamsrækt sem ég hef stundað lengi. Draumurinn sprakk þegar mamma bað mig um að hætta þessum brussulátum, hún væri nefnilega að reyna að hlusta á kórinn.
Annars hefur fríið farið í svefn, lestur á jólabókunum og eplaköku- og brownies bakstur. Fer svo suður á morgun þar sem ætlunin er að skoða tvo tiltölulega nýja frændur, jáh, það bætist enn í barnaskarann svei mér þá! Jæja, jússan kveður.

22.1.05

Það er í tísku að blogga draumana sína svo ég ætla að vera hipp og kúl og gera það líka. Hell je!
Nóttina fyrir söguprófið dreymdi mig sumsagt að ég væri stödd í gétuttuguogtveimur þar sem ég sat í öftustu röð og rembdist við að taka söguprófið. Skyndilega lít ég upp og sé þá að meistari Sigurður Ólafsson horfir á mig grimmum augum og gengur hægum skrefum í átt að mér.
Stofan lengist og ég horfi á hann ganga nær mér og óskaplega tekur það langan tíma. Þegar hann loksins kemur að borðinu mínu er ég löðrandi í svita og skelf. Þá tekur Sigurður blaðið upp, les og fer að skellihlæja. Svona holum, dimmum hlátri; hohohoho!
Já, það var óneitanlega gaman að vakna eftir fjögurra tíma svefn og skella sér í prófið eftir þennan draum! En eins og Gitta útskýrði fyrir mér er alltaf betra að dreyma illa því þá gerist eitthvað gott. Veit ekki hvort ég trúi því en söguprófið gekk vonum framar, allavega þar til ég fæ einkunnina.
Búin að fá allar aðrar einkunnir og er sátt. Ein sexa reyndar en það var stærðfræðin svo ég get ekki kvartað. Svo var það bara sjö-átta-níu. Ahh, ég tek mætingareinkunnina reyndar ekki með, hún er það mesta rugl sem ég veit! Einkunn fyrir hversu frískur maður er og hversu lítinn þátt maður tekur í félagslífi. Rugl segi ég.
Frí í viku sagði maðurinn, í hvað á maður að eyða því eiginlega?

11.1.05

Prófin byrjuð...

með tilheyrandi náttfatastrippli, stressdrullu og íspinnum. Fór í stærðfræðiprófið í gær og gekk furðu vel, miðað við að Helgi kenndi mér áfangann um helgina, guði sé lof fyrir hann.
Mér finnst próftíðin vera meiri uppgjörstími en áramótin. Það er fyrst núna sem maður spyr sjálfa sig hvað í fjandanum maður var að gera seinasta ár og afhverju í ósköpunum maður drullaðist ekki til að taka upp bækur. Jæja, reyni að gera gott úr hlutunum og kaupa mér glósur hingað og þangað. Frábært.
Nennir einhver að segja mér að drullast til að læra?