28.8.06

Afi var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri í gærmorgun. Hann hafði verið í fullu fjöri í sveitinni, en hneig skyndilega niður og lamaðist hægra megin. Það var talið að hann væri með blóðtappa í heila. Þegar þetta gerðist var ég að leggja af stað suður með Kristjáni. Þar sem við vonuðum að tappinn væri ekki mjög alvarlegur ákvað ég að halda mínu striki, stefndi á gleðskap í Borgarnesi og Búlgaríuferð. Eftir sneiðmyndatöku kom fljótt í ljós að afi ætti ekki langt eftir, hann var með heilablæðingu og þá stærstu sem læknirinn hafði séð á mynd. Systur mömmu lögðu strax af stað norður, ég fór út í Bifröst og til baka með frænkunum. Húnavatnssýslurnar hafa aldrei verið verið svona langar. Þrátt fyrir það komumst við seint og um síðir á sjúkrahúsið, í tæka tíð til að kveðja. Afi var þá meðvitundarlaus, og smátt og smátt dró af honum. Það var gott að vera saman og vera hjá honum þegar hann fór, en erfitt. Það var kannski erfiðast að Axel gat ekki verið hjá okkur, hann kemur heim á miðvikudaginn.

Ég var í Keldudal á hverju sumri frá fimm ára til sextán ára aldurs. Ég ólst því að miklu leyti hjá afa og ömmu, og það er fjársjóður sem ekki verður tekinn frá mér. Það er ótrúlega erfitt að ímynda sér Keldudal án afa. Höfuð fjölskyldunnar er farið, hver á að skipuleggja allar veislurnar og benda á rollurnar í réttunum? Æ svo margar minningar, ég er skrýtin í höfðinu. Við Axel standandi á pallinum á fjórhjólinu, hoppandi af til að færa fyrir eða opna hlið. Afi að gera grín að mér í verstu gelgjuköstunum og segja mér að ég fengi ekki háan dóm fyrir geðslag, væri ég hryssa á kynbótasýningu. Þrátt fyrir gelgjuna var ég samt alltaf glöð þegar hann bauð mér á sveitaböllin, og svindlaði mér jafnvel inn. "Hún er með mér" rumdi í honum þegar hann bauð mér á Laufskálaréttarballið og ég var spurð um skilríki. Það voru fáir sem þorðu að andmæla afa, svo inn fór ég og dansaði nokkra dansa við gamla.

Kistulagningin verður á föstudaginn og útförin á laugardaginn. Ég vil ekki missa af henni og verð því bara aðra vikuna úti í Búlgaríu. Nú er ég orðin dauðþreytt og veit ekki sérlega margt, ætla að leggja mig.

20.8.06

Seinustu nótt eyddi ég á elló í hámenningunni, með Þórbergi Þórðar, Húbbabúbba og krossgátubókinni Ban. Menningarnótt í Reykjavík hvað... Jæja, allt í lagi. Ég viðurkenni að mig dauðlangaði suður, en ég var sett á næturvaktir alla helgina. Ekki minn tebolli svosem, ég verð ringluð í hausnum af þessu. Fer á seinustu næturvaktina í kvöld sem er ánægjuefni. Raunar á ég bara fimm vaktir eftir. Ó, það er svo margt að hlakka til. Freyjulundur á föstudaginn, Borgarnes á sunnudaginn og svo bara Búlgaría skömmu eftir. Allt að skella á.

Eftir fullt af "vökvaðu blómin, gefðu kettinum, mundu að læsa og slökkva ljósin" lögðu mamma og pabbi af stað til Danaveldis á fimmtudaginn. Þar spássera þau með einkasyninum og tengdadótturinni og finna sér líkast til margt til skemmtunar. Mamma heldur svo áfram til Finnlands á miðvikudaginn, þar sem hún ætlar að fara á ráðstefnu. Kannski verða Múmínsnáðinn og draumaprinsinn minn á vegi hennar, hver veit?Ó Snúður... Hah.

Já, meðan ég man. Ég er að pikka þessa færslu í nýju fínu tölvuna mína! Já, Elfa vildi vera hip og kúl og fá sér Macbook, pff, hver vill svoleiðis. Jæja, mig langar reyndar dálítið í þannig, en þar sem ég er of nísk var eins árs gamli iBookinn hennar Antonsdóttur ákjósanlegur kostur í stöðunni. Nú á ég tvo iBook-a, einn sex ára gamlan, hægan, 12" með skrýtinni lykt og 14" glansandi fína og hraðvirka með engri lykt. Vei! Samt á sú litla alltaf eftir að eiga stað í hjarta mér, þrátt fyrir lyktina, hægvirknina, skítuga lyklaborðið og rispurnar.

Oh, kannski ég fari að vökva þessi 500 blóm eftir þeim nákvæmu leiðbeiningum sem ég fékk við brottför foreldranna. Ég sver að þegar ég flyt í eigin húsnæði mun ég eiga eina orkídeu og ekki eina plöntu til viðbótar!

14.8.06

Nei, ég skæli bara. Ástæðurnar fyrir því eru held ég "of mikil" samfélagsvitund, erfiður vinnudagur og þessitímimánaðarins. Reyndar finnst mér seinasta ástæðan afar leiðinleg og klisjukennd, en af einhverju hljóta þessi ósköp að stafa.

Ég er líklega búin að lesa nægilega mikið um Ísraels-málið eins og það leggur sig og íslenska öfgatrúarmenn í dag. Þessi skammtur ætti að duga mér í einhvern tíma. Ætla allavega að melta hann áður en ég frussa út úr mér alltof miklu í einhverri geðshræringu. Já, það gengur mikið á eins og þið sjáið! Kristín - unga reiða konan.

Tónlistin hans Sufjan Stevens gerir heiminn þó aðeins fallegri að mínu mati. Það er ástæða til að gleðjast yfir því, og enn ríkari ástæða fyrir óstjórnlegri kæti eru þeir tveir miðar sem mamma reddaði fyrir mig og Dagnýju á Sufjan. Vei!

Og svo slíta sig frá fréttavefjum og fara að sofa!
Bless.

8.8.06

Verslunarmannahelgin rann sitt skeið á enda, eins og helgar vilja oft gera, svona almennt. Á sunnudaginn ætlaði ég aldeilis að láta undan fordómum mínum og fór sko niður í bæ og stefndi í Sjallann. Ætli það hafi ekki einhver forsjón stýrt því að uppselt var í sjálfstæðishúsið (eða þá bara mannfjöldinn) og því lá leið mín á Karó. Það var gott að vera í öruggu umhverfi og hanga með skemmtilegu fólki í hæfilega litlum troðningi. Ævintýragjarna Kristín.

Lágpunktur helgarinnar var hvorki ælupestin sem hrjáði mig, né morgunvaktirnar. Ónei, hann var þegar ég þurfti að taka strætó heim eftir vinnu. Ég hoppaði bara upp í næsta vagn, enda hef ég aldrei nennt að lesa leiðarkerfi strætós á Akureyri. Þeir fara hvorteðer allir uppi í Giljahverfi á endanum. Ég heyrði vagnsstjórann reyndar tala um að hann færi fyrst einhvern hring á brekkuna, en ég taldi mig vel brynjaða ipodnum mínum og var með Þórberg að lesa svo ég var ekkert að bíða eftir næsta. Þegar bílstjórinn var um það bil að leggja af stað streymdu inn nokkrir unglingar.

(Nú legg ég sömu merkingu í orðið "unglingar" og ég gerði þegar ég var 7 ára og las Fúsa Froskagleypi. "Unglingar" eru stórhættuleg fyrirbæri og ég hef alltaf verið smeyk við þá eftir afgerandi persónusköpun Ole Lund Kirkegaard).

Þessir unglingar voru á að giska 14 vetra, illa lyktandi og stelpurnar stífmálaðar í kringum augun. Þeir voru sex talsins og kynjahlutfallið var jafnt. Settust þeir beint fyrir aftan mig, og ég bjóst til að teygja mig í headphonin mín um leið og bílsstjórinn gaf í. Komst ég þá, mér til mikillar skelfingar, í raun um að ég hafði gleymt heyrnartólunum heima. Ég tók til við að fletta Ofvitanum, en hávært spjall krakkanna hindraði alla einbeitingu. Þá var fátt annað að gera en að hlusta á þá.

Á þessum 20 mínútum sem ég sat i strætónum ásamt ungmennunum, varð ég margs vísari um hvernig helgin þeirra hefði verið. Þau rifjuðu upp gærkvöldið hvort fyrir annað, sitt á hvað, þar til heildræn mynd fékkst á það. Þetta voru tappar, og voru enn ímyndunarfull kl. hálffimm um daginn. Þessvegna tók púsluspil minninganna dágóðan tíma og krafðist mikilla endurtekninga. Hresst hresst. Þegar ein pirruð Kelga steig út úr strætónum í Huldugilinu var hún alveg með á hreinu hvar Gunni hafði brotið símann sinn, hvort það var áður eða eftir að Stebbi reið Lísu sem að Óli, Geir og Aldís drápust undir kirkjutröppunum og að lyktin af Tobbu væri sko landalykt, ekki vodkalykt.

Ekki misskilja mig samt, ég var í raun ekki pirruð yfir dvínandi möguleikum æsku landsins eða afskiptaleysi foreldra, eins og svo margt fólk er. (Gjarnan komið yfir miðjan aldur). Ónei, bjánahrollurinn sem fyllti mig fór meira í taugarnar á mér heldur en brostnar hugmyndir mínar um fjölskyldulíf fermingarbarna. Það sem olli hrollinum var þessi yfirgnæfandi fullvissa unglinganna um að þau væru svöl. Að svona væri ógeðslega flott að vera og hver sem héldi öðru fram væri annaðhvort gamall eða fáviti. Þessi uppreisnarandi sem reynir að gægjast fram úr gelgjubólunum og óörygginu, oj þetta verður svo ógeðslegur kokteill.

Ég held að í raun hafi ég að mestu fengið bjánahroll yfir sjálfri mér. Ég gerði mér nefnilega grein fyrir, að þó ég hefði ekki verið "svona" unglingur og hefði t.d. aldrei verið hleypt á útihátíðir, að þá var ég kannski litlu skárri. (Jú, kannski smá skárri, en samt). Altsvo, þegar kom að stælum, tappalátum og einhverri breiðslu yfir óöryggið. Gelgjutímabilið er versta tímabil í ævi minni, so far, og ég vil aldrei vera minnt á það hvernig þessi ár voru.

(Þó að Davíð Stefánsson sé einn af mínum uppáhalds mönnum og að Yngismey sé fallegt ljóð, þá er ljóst að hann hefur aldrei verið fjórtán ára stelpa. Þetta setti ég í sviga því að ég held að fáir átti sig á þessari tengingu nema elliheimilisvinir mínir).

Úff púff, ég er búin að sitja við skrifborðið í 5 tíma. Ég ætlaði í upphafi að undirbúa smá stjórnarfund sem verður annað kvöld. Þessi undirbúningur endaði með nákvæmri fjárhagsáætlun fyrir árshátíðina (það eru jú bara 4 mánuðir í hana), nokkuð nákvæmri atburðadagskrá fyrir haustönn 2006 og grófri fjárhagsáætlun fyrir allt stjórnarárið. Nú er ég grafin undir reiknivélum, stílabókum, möppum, dagbókum og dagatölum. Ef þið viljið vita hvenær líklegt getur talist að söngsalurinn í nóvember verði, þá bjallið þið bara. Ég gat varla slitið mig frá þessu svo ég ákvað að skrifa hér nokkrar línur. Nú get ég ekki hætt því, en ætla að neyða mig í sturtu. Morgunvakt á morgun, vei!
Manísk Kristín kveður.

3.8.06

Verslunarmannahelgin er ekki uppáhalds tími ársins hjá mér. Ég er á morgunvöktum alla helgina og syrgi það satt best að segja ekki mikið. Ég hefði reyndar verið meira en til í að skreppa í Ásbyrgi, en Sjalladjamm í bænum heillar mig ekki. Oh, ekki heldur fullt af krökkum með loðna, skærlita hatta og sjálflýsandi armbönd, snuð og hálsmen. Pleh.

Seinasta helgi var æði. Byrjaði í Öxnadal í pikknikk stemningu og Sigurrósartónleikum, ótrúlega kósý og gaman. Morguninn eftir tók ferðalagið austur við. Mamma og pabbi lóðsuðu mig til Egilsstaða þar sem Ragga Ýr tók við mér og saman héldum við til Borgarfjarðar. Borgarfjörður Eystri er fallegur og furðulegur staður. Það var gaman að rölta þar um og éta hundasúrur. Ég mæli líka með því að ganga austast í bæinn, finna litla, krúttlega, gula húsið og fylgjast með gamla kallinum kasta netakúlu fyrir terrier hundinn. Pínu eins og hundakeila.

Tónleikarnir voru hreint út sagt frábærir, ég var eiginlega bara í eigin heimi. Sem betur fer, því þegar ég rankaði við mér varð ég vör við ótrúlega mikið skvaldur, ef skvaldur skyldi kalla. Fólk var eiginlega bara í hrókasamræðum svona hér og þar. Þetta var nú reyndar meira áberandi meðan Emiliana var að spila, enda hennar tónlist lágstemmdari. Það hlýtur að teljast sérstakt þegar performerinn á tónleikum þarf að biðja fólk um að þegja. Vei þeim sem að komu í Bræðsluna með því hugarfari að þetta væri ball á útihátíð Austfirðinga! Eftir ofsalega skrýtna samkomu í félagsheimili Borgfirðinga, þar sem trúbadorar byrjuðu að spila lög á við "Rangur maður" (svo tók DJ við), svaf ég sætt í tjaldinu hennar Röggu. Við vorum agalega hressar þegar við vöknuðum eldsnemma morguninn eftir.

Eftir hressandi kókópöffsskammt í Breiðavaði og sturtu fór ég með foreldrum mínum í Végarð, félagsheimilið í Fljótsdal sem Landsvirkjun er með í leigu. Þar fræddist ég um Kárahnjúkavirkjun, stíflustærð, borgerðir og afföll. Hresst. Eftir fróðleikinn var kominn tími til að sjá landið sjálft, enda ekki seinna vænna. Það var þungskýjað og grátt veður þegar við keyrðum upp fjallveginn og þegar ég steig út úr bílnum og stóð fyrir framan stífluna fór ég að raula LOTR tónlistina og leið eins og ég væri komin til Mordor. Hah, þetta er svo ótrúlega rugl stórt! Við keyrðum aðeins um svæðið og skoðuðum m.a. Jökusá á Brú, en hún mun minnka um 75% við framkvæmdina, það verður bara einhver spræna eftir. Synd, synd og skammsýni.

Annars er nóg að gera, elló smelló, samningarnir eru allir að koma og þarf að skrifa skýrslur um hitt og þetta. Ég er líka að hafa samband við mögulega heiðursgesti, hljómsveit og DJ fyrir árshátíðina. Spennandi, ójá.