30.11.06

Í allan gærdag velti ég því fyrir mér hvað færi úrskeiðis. Það gekk hreinlega bara of vel. Skreytingarnar tilbúnar, og aldrei verið jafn flottar eða umfangsmiklar. Allt virtist vera í lagi með hljómsveitir, skemmtiatriði, matinn, borðaplanið til, fullt af góðu fólki búið að bjóða fram aðstoð sína, búið að skipta bekkjum niður á tíma í Höllinni og bara... Það hlaut eitthvað að klikka.

Það klikkaði náttúrulega ekkert nema ég sjálf. Tímasetningin var frábær, ég stóð uppi á stól í fínu fjöri og límdi akrýldúk á súlu. Allt í einu fæ ég gamalkunnan sting hægra megin í kviðarholið, leggst niður og bamm. Sprenging upp í maga og niður í fætur. Nei ónei, þetta átti að vera búið eftir að botnlanginn var tekinn úr mér í kviðarholsspegluninni í haust. Það er sumsagt greinilegt að þessi veikindi eru ekki horfin og eftir að ég var búin að grenja doldið, fá aðeins óráð og kúra í sófa, æla smá og átta mig á því að ég væri engum til gagns fór ég heim, tók verkjalyf og lagðist upp í rúm.

Arg! Hvurslags tímasetning er þetta? Hvurslags læknadruslur að finna ekki út hvað er að mér?

Mér líður skár núna, ætla í sturtu og taka meiri verkjalyf og fara upp í Höll. Krakkarnir eru reyndar að standa sig eins og hetjur og það er allt á áætlun en oj hvað það er óþægilegt að liggja heima þegar allt er á fullu. Vona að þetta versni ekki úr þessu, mig langar að njóta kvöldsins.

29.11.06

Ég hafði hugsað mér að skrifa langan pistil um keppnina á föstudaginn. Ég er hinsvegar að reyna að kúpla mig út úr þessu og einbeita mér að komandi árshátíð. Það eina sem ég vil segja er að ég er stolt af menntskælingum og framkoma Verzlinga á föstudaginn var í stíl við samskiptahætti þeirra fram að keppninni.

Við fáum Höllina í kvöld og núna er lognið á undan storminum. Við í stjórninni erum að brasa við að undirbúa allt sem best, svo að þetta gangi nú smurt næstu tvo daga. Ég sé ekki að það sé ástæða til annars, við erum á ótrúlega góðu róli og ég er að vinna með snillingum. Ég hlakka svo til á föstudaginn!

Ég ætla að fara að vinna, enda á mynd af uppáhalds fólkinu mínu.

24.11.06

Morfís keppnin milli MA og VÍ fer fram í Kvosinni í kvöld. Mikið hlakka ég til að sjá krakkana mæla gegn Satan uppi á sviði og láta Verzlinga finna fyrir því.

Vinnubrögð Verzlinga hefði ég aldrei getað ímyndað mér áður en undirbúningurinn hófst. Hótanir, frekja, malarhroki, klíkuskapur og fleiri verri hlutir sem óþarft er að telja upp á opinberri síðu sem þessari.

Menntskælingar hafa þó staðið keikir og ekki látið kúga sig. Við höfum reynt að leysa málin skynsamlega og af sanngirni, annað en borgarbörnin. Ég er búin að fá alveg nóg af þessum samskiptum sem hafa einkennst af blekkingum, hótunum, leynifundum, leiðinlegum símtölum og gervihaglabyssum. Það verður gott að fá ráðrúm til að undirbúa árshátíðina um helgina þegar keppninni er lokið.

Hasta La Victoria MA!

15.11.06

Við búum á jaðri þess óbyggilega.

Frost og snjór og blautar tær og næðingur í hálsakot gerir lífið afar erfitt núna. Mig langar mest að skæla eins og lítið barn, kúra uppi í rúmi og leggjast í hlýjan og notalegan dvala. Ah... sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur? Norðangarrinn næðir á gluggunum, en það skiptir engu því að hnausþykk sængin í brakandi hreinu rúmfötunum hylur ykkur. Að hjúfra sig saman í ullarsokkum með góða bók. Dæs.

Þessi lýsing samræmist minni tilveru ekkert sérlega vel. Djíslúís, allt í einu er hálfur mánuður í árshátíð. Ha? Hvenær gerist það. Það er samt alveg svakalega gaman, sérstaklega vegna þess að það er allt á blússandi siglingu og þó að það sé í mörg horn að líta gengur allt glimrandi vel. Alþjóðlegur dagur nemenda er á föstudaginn, og þá munu nemendur MA, HA og VMA vekja athygli á stöðu nemenda í íslensku samfélagi. Það er spennandi og vissulega nauðsynlegt að vekja athygli á þessum málaflokki. Þing um lýðræði í skólastarfi á laugardaginn, sem er einnig spennandi. Sufjan Stevens sama kvöld, ji ég hlakka til. Rúsínan í pylsuendanum - mamma var að bjóða mér á Sykurmolana! What the hell? Snilld, hver er með?

Haha það óvæntasta og skemmtilegasta sem gerðist í dag var samt þegar að Halldór Áskell tæklaði mig uppi á sviði, í miðri tilkynningu í frímínútum í dag. Ha?! Haha, þetta er í fyrsta skiptið sem ég hef verið tækluð, á ævi minni. Pínu fyndið, nei... hellings fyndið.

Arg, ég þarf að gera svo margt og ég er svona semí-manísk. Kemur í staðinn fyrir amfetamínsterana svo það er í lagi.

11.11.06

Síminn fundinn.

Hvað get ég sagt?

Jú eitt:
Ég fékk níu fyrir Hemúls-verkefnið í sálfræði. Ha? Náttúrulega mesta bullverkefni sem ég hef skrifað, fyrir utan að ég gerði það á 20 mínútum og vissi ekki á nokkrum tímapunkti út á hvað það gekk. Ástæður fyrir einkunninni eru hugsanlega gúdvill frá kennaranum, eða einhver leyndur hæfileiki minn til að láta eins og ég viti meira en ég veit. Sama hver ástæðan er þá á ég kannski séns í þessum áfanga.

Svo held ég að það eina rétta í stöðunni sé að vitna í Belle and Sebastian:
"Get me away from here I´m dying, play me a song to set me free..."

10.11.06

Mér líður illa.

Síminn minn týndist í gær, og jeminn það er allt að fara fjandans til. Nennir plís einhver að finna hann fyrir mig? Argh.

5.11.06

Menntamál eru mér hugleikin þessa dagana. Ef að lífið væri Disney-mynd, fengi ég brjálaðan vísindamann (leikinn af Robin Williams) til að koma mér tímabundið fyrir í líkama Þorgerðar Katrínar. Ég ætla að gefa sjálfri mér, sem menntamálaráðherra, hálfan mánuð til að toga í nógu marga spotta til að breytingar verði á. Þetta myndi ég vilja gera á fjórtán dögum:

-Ákvæði um að “börnum skuli inrætt kristilegt siðgæði” yrði fellt úr námsskrá á fyrsta degi.

-Ég myndi taka fyrir öll afskipti þjóðkirkjunnar af skólunum, á öllum stigum. Þetta hefði það í för með sér að hvorki leikskólabörn né grunnskólabörn færu í messur á skólatíma. Það myndi ekki líðast að börn væru látin fara með morgunbænir eða að þau þurfi að standa fyrir framan bekk og kennara og verja trú sína, eða trúleysi. Fráleitt yrði að fermingarfræðsla væri sett inn í stundartöflu barna og prestar kæmu inn í skóla til að kynna fermingarfræðsluna. “Vinaleiðin” væri sömuleiðis úr sögunni – prestar og djáknar væru ekki gjaldgengir starfsmenn í skólum, eða fengju leyfi til að hafa aðstöðu innan veggja þeirra. Djáknar mættu ekki ganga inn í tíma og kalla nemendur í viðtal til sín án vitundar foreldra.

-Trúabragðafræðsla yrði aukin til muna, sérstaklega með tilliti til þess fjölmenningasamfélags sem Ísland er orðið. Lögð er áhersla á að kennsla og námsefni sé hlutlaus, og að trúarlegt uppeldi liggi alltaf á herðum foreldra. Skólinn á ekki að sjá um trúarlega innrætingu.

-Samræmd próf í grunnskólum yrðu endurskoðuð alvarlega. Málið sett í nefnd!

-Starfsnámi yrði gert hærra undir höfði. Stefna yrði sett um að hætta eigi að beina öllum beint í bóknámsskólana, frekar á að horfa til þarfa hvers og eins. Mín skoðun er sú að brottfall úr framhaldsskólum megi að stórum hluta skýra með því hversu margir eru sendir í bóknám, án þess að hafa forsendur til að læra það, eða hafa áhuga á því. Hætt væri við að loka öllum starfsnámsdeildum sem væru með færri en 18 nemendur. Þetta væri gert bæði með landsbyggðarstefnu og atvinnulífið í huga. Það er óásættanlegt að flestar starfsnámsdeildir verði einungis á höfuðborgarsvæðinu og það vantar gott iðnaðarfólk á Íslandi!

-Tafarlaust væri fallið frá áformum um styttingu náms til stúdentprófs. Hætt væri við skerðingu á námi og einhliða styttingaráformum, þar sem ekki er horft til þarfa einstaklinga. Þess í stað yrði litið til nýrrar starfsnámsskýrslu og stefnt að því að tillögur sem þar koma fram nái fram að ganga. Þetta hefði það í för með sér að hver og einn getur fengið nám við sitt hæfi og valið þá áfanga sem nýtast honum best í áframhaldandi námi. Meiri ábyrgð og frelsi yrði sett á herðar skólameistara, og það er skólanna sjálfra að búa til námsframboð fyrir nemendur. Tengsl milli atvinnulífs, háskóla og framhaldsskóla munu aukast. Hver nemandi fengi meiri og markvissari námsráðgjöf en áður og getur lokið stúdentsprófi á tveimur, þremur, fjórum eða fimm árum - allt eftir því hvað hann vill mennta sig mikið og á hve löngum tíma. Þetta myndi líka gera iðnnámsnemum auðveldara fyrir að útskrifast með stúdentspróf.

-Það eru ótal ástæður fyrir því að styttingin er verri heldur en nýja skýrslan og ætla ég að hætta að telja þær upp.

-Ég myndi fá Robin Williams til að breyta Hildigunni Þórs í fjármálaráðherra. Þegar það væri búið og gert, semdi ég við hana um að auka fé til menntamála verulega. Horft væri til Norðurlandanna, nemendur myndu hætta að þurfa að kaupa bækur úr eigin vasa og fengju styrki. Ég tel nefnilega að það sé önnur ástæða fyrir því að brottfall sé mikið á Íslandi en sú að nám til stúdentprófs sé langt. Fjárhagur ungmenna spilar þar stóra rullu að mínu mati. Lagt yrði beint fé í menntun og það væri tekið upp styrkjakerfi áþekkt því sem er í Danmörku.

Ef að öll þessi mál kæmust í réttan farveg á fjórtán dögum held ég að ég mætti vel við una. Ljúft er að láta sig dreyma...

2.11.06"Í bókunum eftir Tove Janson um múmínálfana gætir margra kynlegra kvista. Í Múmíndal er lífið yfirleitt frekar einfalt, þó að ýmislegt óvænt geti komið upp á. Bækurnar og þættirnir snúast um Múmínsnáðann, fjölskyldu hans, vini og stundum skuggalegri persónur. Einn karakterinn er einskonar gamall frændi, og heitir Hemúllinn. Ef að ég væri sálfræðingur í Múmíndal þá a) liti ég líklega út eins og Fillifjónkan og b) tæki ég því fagnandi ef að Hemúllinn vildi leggjast á bekkinn hjá mér. Eftir að hafa spjallað við Hemúlinn myndi ég líklega greina hann með ofsóknarkennd. Ég held að það væri heldur ekki galin hugmynd að greina hann með ofuruppburðarleysi og auk þess er hann, að mínu mati, með snertu af áráttu- og þráhyggjuhegðun".

Röð óskiljanlegra atburða varð til þess að ofanritaður texti er byrjunin á 10% sálfræðiverkefni. Ha? Ég skil náttúrulega ekkert þessa stundina. Það er þó alltaf gaman að grufla í múmínálfakarakterum, og ég er að hugsa um að kryfja Hemúlinn í kjölinn í nótt.

Það er ekki laust við að árshátíðarstress sé að magnast upp. Allt heila klabbið var upplýst í dag, og var það vel. Jagúar mun spila fyrir dansi, Þuríður og hásetarnir grípa svo að sjálfsögðu í nikkurnar í hléi. Uppi verða DJ Gísli Galdur og DJ B-Ruff. Heiðursgestur er Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Fer suður á morgun með Gittu. Þar er ætlunin að slaka á í Borgarnesi og gista eina nótt, og halda svo í borgina. Bíða mín þar þrír fundir, menntamálaráðuneytið, HÍF og svo MR-MA fundur. Sófinn í Njálsgötunni fær nú líklega að finna fyrir því. Ef ykkur langar að hitta mig meðan ég er í borginni skuluð þið hringja, fyrir alla muni. Ég sný heim á leið á laugardeginum einhvern tíman.

Tilhlökkun, spenningur, ógleði, svitaköst, svefnleysi, samviskubit yfir að vera að blogga, þreyta eftir næstum sex tíma fundarhöld í dag, leiði á íslensku samfélagi... Það gengur margt á í litlu höfði. Samt alveg ótrúlega gaman að vera til. Sérstaklega þegar maður er að gera eitthvað jafngáfulegt og að sálgreina Hemúlinn.