4.7.07

Ég lifi. Meira að segja bara ágætis lífi. Svona ef að einhverjir voru farnir að velta því fyrir sér!

Sautjándi júní rann upp, bjartur og fagur. Þessi dagur var frábær í alla staði. Ég held ég hafi brosað allan daginn. Ég flutti tvær ræður og fannst báðar ganga prýðilega. Það kom mér á óvart að ég var ekki stressuð yfir þeim heldur fannst einfaldlega ótrúlega skemmtilegt og mikill heiður að fá að flytja þær. Athöfnin sjálf var mjög fín, enda fannst mér flestar ræðurnar góðar, sérstaklega ávarp 60 ára stúdentsins. Ég fékk líka þrenn verðlaun, fyrir félagsstarf, framúrskarandi árangur í heimspeki og framúrskarandi árangur í félagsfræði, sem var að sjálfsögðu mjög gaman og kom skemmtilega á óvart. (Sérstalega félagsfræðin!) Veislan var alveg ótrúlega fjölmenn og fjörug, það komu rúmlega 100 manns hingað í Huldugilið og samt var aldrei troðið. Hoppukastalinn góði átti kannski þátt í því enda voru allir krakkarnir fastir í honum svo við vissum ekki af þessum 20 börnum undir 12 ára aldri sem voru hér. (Dóri og Gitta gátu líka fengið útrás í kastalanum svo við urðum ekki jafn vör við lætin í þeim). Nína og Skúli komu hingað og gistu og Nína tók myndir af mér og Ottó. Það var frábært að hafa þau hér, svo miklu betra að hafa einkaljósmyndara með sér allan daginn heldur en að fara í þvingað ljósmyndastúdíó! Fyrir utan hvað þau eru skemmtileg og hjálpsöm.

Það var ekki fyrr en um kvöldið, í hátíðarkvöldverðinum sem að nokkur tár brutust fram. Ég hringdi líka bjöllunni í allra seinasta skiptið... Auðvitað er skrýtið að þetta tímabil sé búið en nú taka nýir og góðir hlutir við. Ég er reyndar strax farin að hlakka til að hitta megnið af fólkinu að ári liðnu.

Ég byrjaði svo að vinna á elliheimilinu, mikið var það nú gott! Vinnan gengur eins og í sögu og ég er ánægð með að vera þar fram að áramótum. Vonandi næ ég að safna mér helling af aurum. Hef reyndar ekki miklar áhyggjur af öðru þar sem ég bý hér heima og tími ekki einusinni að kaupa mér maskara, svo nísk er ég!

Ragga býr hér heima og er nýja litla systir mín. Hvað er notalegra en að kúra hjá Röggu og horfa á So you think you can dance (meðan hún sefur reyndar, en jæja). Hún er á Hróarskeldu núna en Gitta reddaði þessu og gistir hér í staðinn. Kom kvöldið fyrir afmælið mitt, vei! Já, ég er líka búin að eiga tvítugsafmæli. Fyrri hluta dagsins eyddi ég í að skeina rassa, síðan tók ferð í ríkið við (klisja, en þetta varð mjög fyndin ferð!), pizzuveisla ala mamma og fótbolti með litlu frændum mínum. (Í fyrsta skipti sem ég sparka á milli örugglega, tilvalið að gera það á tvítugsafmælinu mínu). Síðan var villt mánudagspartý með tveimur vitlausum, sænskum vinnufélögum Gittu (stelpur sem hlusta bara á sænskt teknó), Dóra, hundinum hans Dóra, Gittu og Júlíusi (sem gaf mér frábæra og táknræna gjöf). Splendid alveg hreint.

Ég hef komið mjög vel undan seinustu misserum þar sem ég kafnaði næstum því í útskriftargjöfum og svo í tvítugsafmælisgjöfum. Ég fer alveg að verða tilbúin til að flytja að heiman. Svo ætla mamma og pabbi að bjóða mér á Friðrik V þegar hann opnar á nýja staðnum. Lúxuslíf. Það eina sem skyggir á gleðina er grasekkjulífið sem ég er sannast sagna ekkert alltof ánægð með. En Ottó græðir víst fullt af pening á sjónum svo að það þýðir ekkert nema að bíta á jaxlinn!

Ég fékk dálítið furðulegar fréttir á afmælisdaginn. Ég fór í blóðprufu í seinustu viku og bað um að járnmagn og b-vítamínmagn í blóðinu væri athugað. Ég er nefnilega eiginlega alltaf eins og drusla, þreytt og ómöguleg. Ég hringdi svo í lækninn sem sagði mér að það væri allt í góðu lagi með járnið og b-vítamínið og ég hélt að ég væri bara móðursjúk og löt. En svo bætti hann því við að ég væri með afar vanvirkan skjaldkirtil. Jahso... eitthvað sem hrjáir aðallega konur á sextugsaldrinum, en jæja, þetta er víst ættarfylgja. Þá er ekkert annað að gera en að fara á lyf það sem eftir er, sem sökkar. Hinsvegar er ótrúlega gott að þetta er loksins komið upp og ég hef einhverja útskýringu á letinni í mér. Líklega hefur þetta staðið yfir í einhvern tíma, nokkur ár? Skjaldkirtillinn framleiðir eiginlega bensínið, veitir drifkraftinn. Þeir sem eru með vanvirkan skjaldkirtil safna t.d. spiki því að brennslan er nánast engin, þeir eru sífellt þreyttir og orkulausir og svo eru ýmis önnur einkenni. Ég hlakka eiginlega til þegar að það er búið að stilla af lyfjagjöfina og vona að ég verði hressari áður en ég held til útlandsins!

Talandi um það, planið er að fara til Asíu eftir áramót og taka svo Síberíuhraðlestina til Rússlands. Nú er skipulagningin að byrja, þarf að panta bólusetningar og svona. Hlakka svo til!

Þetta er ágætis skammtur í bili, pant fá komment! Þá blogga ég kannski oftar og minna í einu :) Enda á mynd sem Nína tók 17. júní: