1.8.07

Náttborðið segir meira um manninn en margur heldur. Eða eitthvað.

Á náttborðinu mínu hvílir leslampi, bunki af Time blöðum, baukur skreyttur Múmínálfunum sem geymir drasl og neyðarbirgðir af súkkulaði, sería af Family guy, innrömmuð árshátíðar-gimpa-mynd af okkur Ottó, lítil stílabók, fátæklegur launaseðill frá Akureyrarbæ, bólusetningaskírteini. Haugur af bókum - dönsk ferðabók um Indland, Lonely planet bók um Síberíuhraðlestina, Sál og mál eftir Þorstein Gylfason, The problems of Philosophy eftir Bertrand Russell, Ilmurinn eftir Patrick Suskind og Stríð og friður eftir Leo Tolstoj. Pakki af snýtiklútum, nefsprey, íbúfen, frunsukrem, vatnsglas og hálsbólgutöflur. Að ógleymdu tuskudýrinu mínu sem er líka spiladós; uppstoppaður kóalabjörn.

Það er örugglega hægt að lesa ýmislegt úr þessari upptalningu.

Mikið er ömurlegt að vera lasinn. Auðvitað er vont að vera með hita og beinverki og hlustaverk og hausverk og kvef og hósta og hálsbólgu - vissulega. En verst þykir mér hversu ofsalega geðvond og viðþolslaus ég verð í svona veikindum. Ég nenni þessu ekki, síst að sumri til.

Ég kíkti aðeins niður í bæ seinasta laugardagskvöld. Það var mjög gaman, enda hitti ég fullt af skemmtilegu fólki. Hinsvegar var það líka dálítið vandræðalegt því að flestir sem ég hitti voru steinhissa að sjá mig þar sem þeir héldu að ég væri farin til Asíu eða byggi einhversstaðar úti á landi í sumar. Afhverju hélt fólk það? Jú, það er ekki búið að sjá mig í allt sumar. Kannski eitthvað til í því. Ég hlakka til næstu helgar, þá verð ég í fríi og krefst þess að hafa gaman og hitta fólk!

Ætla að laga til á náttborðinu mínu.