29.11.07

...þrek er gull en gull eru líka tárin, guðleg svölun hverri þreyttri sál...

Já Þrek og tár eru málið. Uppáhalds lagið mitt frá því ég man eftir mér, lærði allan textann þegar ég var í sveitinni og söng það fyrir Fressó. Fressó var hugsanlega skemmtilegasti karakter sem ég hef kynnst, 10 kílóa köttur sem amma átti. Ofboðslega geðvondur og alltaf skítugur og með hárlos. Hann var algjörlega sinn eigin herra og það þýddi ekkert að dröslast með hann. Stundum rakst ég á hann dálítið langt frá húsinu hennar ömmu og þá röltum við oft heim saman og ég söng fyrir hann. Ég trúði því að honum þætti það gaman, annars hefði hann líklega ekki nennt að vera með mér.

Allavega, útúrdúr. Ég hafði ekki hlustað á Þrek og tár í nokkur ár fyrr en ég fór á tónleikana hans Megasar á dögunum. Lagið var spilað þegar að fólkið týndist úr Laugardalshöllinni og það greip mig nostalgía. Síðan þá hef ég spilað lagið oft og iðulega, enda er ég jússa og sökker fyrir Hauki Morthens, Ellý Vilhjálms og fleiri góðum.

Æi já, á að vera að læra en held mér ekki ekki við efnið. Próf á mánudag og miðvikudag í alþjóðafræðum. Ég fæ að taka prófin í MA, það verður allavega notalegt. Gat ég ekki bara notið þess að vera ekki í skóla eitt misseri? Greinilega ekki...

Árshátíð MA er á morgun og ég er meira en lítið spennt fyrir að mæta, hitta megnið af gömlu stjórninni, borða góðan mat, horfa á skemmtiatriðin og njóta þess að bera enga ábyrgð á neinu! Jey.

Haha amma Helga er krúttleg, var að hringja og vildi að við myndum mæla okkur mót fyrir smákökubakstur. Hún bakar nefnilega alltaf eina þýska smákökutegund og ætlar núna að kenna mér að baka hana, kunnáttan má ekki glatast! Enda vil ég ekki að hún glatist, þetta er uppáhalds smákökutegundin mín.

Já sundurlaus færsla, bara til að gera eitthvað annað en að lesa um undirstofnanir EFTA...

22.11.07

Já, ef að það hefur ekki komið fram hér þá elska ég vinnuna mína. Er að vinna á aðfangadagskvöld og jóladag. Vei!

19.11.07

Nú er ég alveg að verða búin að fá nóg af vinnunni minni. Ekki af vinnunni sjálfri heldur lágum launum, miklu álagi, undirmönnun og því að fá ekki vinnuskýrslu með almennilegum fyrirvara. Eins og staðan er í dag veit ég ekkert hvernig ég er að vinna eftir fyrsta desember og hef ekki hugmynd um hvernig ég á að vinna um jólin. Einhver sagði mér að skv. lögum ættu vinnuskýrslur að liggja fyrir með sex vikna fyrirvara en það er piffað á það eins og ekkert sé.

Á undanförnum kvöldvöktum höfum við verið fjórar að vinna á ganginum, auk þeirrar sem er á lyfjavakt (sér um lyfjagjöf og er yfir vaktinni = hefur ekki mikinn tíma til að sinna ummönnun). Fjórar manneskjur að sjá um 30 manns, sjö og hálfur vistmaður á hvern starfsmann. Heimilisfólkið á deildinni minni er missjálfbjarga, sumir (fæstir)sjá nánast að öllu leyti um sig sjálfir en aðrir þurfa alla aðstoð við sínar daglegu athafnir og sumir þurfa tvo starfsmenn til að aðstoða sig. Starfsmenn hafa þurft að hafa sig alla við til að sinna fólkinu almennilega. Ég hef verið svo þreytt eftir vaktir undanfarið að ég hef varla orku í að gera annað en að vinna og sofa.

Þetta er náttúrulega ömurlegt. Að bjóða fólki upp á svona, bæði heimilismönnum og starfsmönnum. (Það hlýtur að vera heimilisfólki í hag að nægt starfsfólk sé til að sinna því). Ef maður krefur yfirmenn útskýringa á ástandinu fær maður fljótlega á tilfinninguna að maður eigi ekki að skipta sér af þessu og vera með vesen. Þrátt fyrir að maður viti að á hinum deildunum sjái hver starfsmaður um 4-5 heimilismenn. Það væri líklega hlegið að mér ef ég ætlaðist til þess að fá greitt álag þegar ekki næst að manna vaktirnar. Auðvitað tóm frekja; „þið reddið þessu elskurnar... Það bara vantar fólk til að vinna.“ Ég held að seinast hafi verið auglýst eftir starfsfólki í Dagskránni í vor.

Nú tel ég dagana þar til ég hætti að vinna og fer út. Það versta er að ég kann vel við að vinna við aðhlynningu og held að mér farist það ágætlega úr hendi. Ég hef metnað fyrir vinnunni en það er ömurlegt þegar að troðið er svona á öldruðum og fólki (konum) í ummönnunarstörfum. Femínistinn í mér heldur því fram að karlar myndu ekki segja já og amen við þessu öllusaman.

Ummönnunarstörf þarf að hefja upp til vegs og virðingar. Ég er í annarri stöðu heldur en konurnar sem hafa unnið á öldrunarheimilum til margra áratuga. Núna vinn ég þarna í hálft ár og í sumarafleysingum en ætla ekki að leggja þetta fyrir mig. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem gera það að ævistarfi sínu að sinna fólki í vaktavinnu, vinna um kvöld, helgar og á hátíðum í slítandi vinnu. Þetta er ekki sjálfsagt og fátt þoli ég verr en þegar reynt er að réttlæta léleg laun umönnunaraðila með því að segja að þetta sé svo gefandi vinna. Það kemur málinu ekki við, þetta er ekki sjálfboðavinna heldur starf, fólk hefur lífsviðurværi sitt af þessari vinnu.

Úff, ég gæti haldið lengur áfram en ég læt staðar numið. Mér finnst líklegt að ég vinni aftur á Hlíð næsta sumar, (nema að yfirmenn lesi þessa færslu og móðgist) aðallega útaf því að ég byrja ekki að vinna fyrr en um miðjan júní og hætti áður en ég fer í háskólann. Þar sem ég hef svona stuttan tíma er gott að geta gengið að vísu starfi og þurfa ekki að byrja í starfsþjálfun. Hálfgerð hræsni að segjast ætla að vinna þarna aftur eftir þessa ræðu...

Annars er það að frétta af mér að ég er komin í jólaskap. Við Ottó bökuðum fjórfalda uppskrift af smákökunum „Hermanns“ áðan, tæplega níu plötur. Frekar gaman að vera með jólabaksturinn í ofninum í svuntu og hlusta á jólalög. Jebbs, við erum jólahommar en ég hef ekki komist í jólaskap svona snemma síðan ég var í grunnskóla. Stórfínt að byrja á þessu núna þegar það er tími, maður veit jú aldrei hvernig maður er að vinna um jólin...

11.11.07

Á föstudagskvöldið, eftir vinnu, hringdi ég í bróður minn og bað hann að ná í mig. Mig langaði að fara og fá mér eitthvað að éta. Hann var hinsvegar niðri í kompu að fagna sigri MA í Morfís. Til hamingju MA! Ég fékk að boðflennast og fékk meira að segja pizzu. Takk fyrir mig.

Með þessum formála vil ég koma því að að ég hef ekki tuggið neitt (nema eina brjóstsviðatöflu) síðan ég lagði mér pizzuna til munns. Í fyrrakvöld.

Jebbs - besta helgi lífs míns, fljótandi fæði og skemmtilegheit. Nú er ég svöng og pirruð og máttlaus og óglatt og kalt. Á morgun fer ég í ógeðisspeglun og fæ kæruleysissprautu. Ég kvíði fyrir.

Held ég hafi ekki lyst á neinu næsta sólahringinn, að minnsta kosti. Þvílík synd.


Vælupistill vikunnar kominn á blað, samúð væri vel þegin.

2.11.07

Ah ég er svo södd. Svona þægilega södd samt, var nefnilega að koma af Friðriki V. Mamma og pabbi buðu út að borða í tilefni af tvítugsafmæli mínu. Glöggir lesendur átta sig kannski á því að ég á afmæli 2. júlí, en þetta fórst einhvern veginn alltaf fyrir. Þetta var líka mjög kósý því að nú gátu bæði Ottó og Axel komið með og það er líka gaman að láta skála fyrir sér fjórum mánuðum eftir afmælið manns, kemst nálægt því að eiga afmæli tvisvar á árinu.

Þvílík sæla. Forrétturinn minn samanstóð af ýmsu eyfirsku góðgæti; grafin gæsabringa, reikt bleykja, tættur gæsavöðvi, hráskinka, salami, hreindýrapaté á rúgbrauði, reykt gæsabringa og mysuostur - rússíbani fyrir bragðlaukana. Eftir hressandi ávaxtasorbe (til að hreinsa bragðlaukana þið skiljið) tók við léttsteiktur hreindýravöðvi með súkkulaðisósu og geggjuðu meðlæti. Þvínæst var það latté og konfekt og að lokum súkkulaðieftirréttur; súkkulaðifrauð, súkkulaðimús, súkkulaðite og súkkulaðiís með jarðaberjum. Maður gæti vanist þessu.

Það var eitthvað jólalegt við að sitja inni í þessu fallega húsi í sparifötunum, með góða matinn og horfa á snjókomuna í Gilinu. Annars er ég búin að vera í jólastuði undanfarna daga, gerði meira að segja eitt jólakort í dag!

Jæja, sælan er búin í bili. Ætla að laga til fyrir svefninn, vona að þið hafið notið þessa áhugaverða montpistils. „Ég fékk gott í matinn, nanananana...“