15.6.04

Are you going to Varmahlíð?

Jæja, ég er vinnandi manneskja,laus úr viðjum skólastarfs.

Starf: Bílfreyja.
Starfslýsing: Stúlka sem sér um að taka við miðum og peningum rútufarþega og sjá til þess að enginn verði eftir á stoppistöðvum.
Starfið felur í sér eftirfarandi: Steikjandi hita, bílþreytu, misfyndna bílstjóra, misringluð gamalmenni, misskelkuð börn og mishrokafulla miðaldra. Það má svo auðvitað ekki gleyma mismiklu skipulagi, misgóðum mat í Staðarskála og mispirrandi flugum í hári og rúðum.

Þrátt fyrir þessa misgáfulegu upptalningu er þetta ótrúlega skemmtileg vinna og þenkjandi. Þenkjandi segi ég, því sjaldan hef ég skrifað jafn margar smásögur, lesið jafn margar bækur og séð jafn ólíkar persónur á jafn stuttum tíma. Maður verður jú að hafa eitthvað að gera á milli þess sem maður brosir, telur fólk og tekur við gjaldmiðli.
Ég gleymdi reyndar manneskju í Borgarnesi í dag. Það var svekkelsi en reddaðist.


Stoppað í Staðarskála

Ég horfi á:

Svefndrukkið par kyssast í brekkunni.

Lítinn strák sem rígheldur í stóra bróður og biður mann hikandi að gleyma sér ekki.

Gamlan mann sem kaupir sér ástarpung og nýmjólk í lítilli fernu sér til hressingar.

Þýska bræður sem neyða mann til að tala þeirra göfuga tungumál og þykjast skilja mann af góðmennsku einni.

Sjóndöpur hjón sem rífast um stund um merkin á hurðunum.
Hann endar inni á konuklósettinu og hún á karla.

Finnska stelpu sem ætlar sér að vinna í sveit, fulla af eftirvæntingu og ranghugmyndum um skemmtanalíf í Þingeyjarsýslu. Ég hef ekki hjarta í mér til að leiðrétta hana.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home