20.10.07

Föstudagskvöld, heitt bað, Haukur Morthens, kakó og norðurljós. Ekki Airwaves og ekki djamm nei. Enda vinnandi kona með flensu. Eða svona leifar af flensu...

Allavega. Lífið er ljúft þessa dagana, kannski einum of ljúft. Aldrei getur maður verið sáttur. Neigrín, ég er sátt. Það er skrýtið að vera í svona millibilsástandi, að vera ekki að „gera neitt“ nema að vinna í x-langan tíma. Ég veit ekki hversu vel það á við mig, ég fæ alltof mikinn tíma aflögu til að hugsa um alltof margt. Framtíðina, nám, ákvarðanir... Stundum er óhollt að hugsa of mikið, allavega fyrir stressaðar „melódramatískar hormónasprengjur“ eins og mig. (Ásgeir Berg hannaði þetta skemmtilega hugtak til að lýsa mér. Kann ég honum bestu þakkir fyrir).

Eins og margir vita er ástæðan fyrir þessu millibilsástandi sem nú ríkir fyrirhuguð utanferð okkar Ottós. Nú skeinum við rassa, hvort á sínum stað, til að safna fyrir ferð til Indlands, Nepal, Tíbet, Kína, Mongólíu, Rússlands, Finnlands og loks Svíþjóðar. (Kannski Tælands, planið er alltaf að breytast). Auðvitað mjög gott fyrir mig að hafa eitthvað að stefna að og skipuleggja og ég ligg núna í Lonely planet bókunum. Þetta verður veisla, vítamín og fjör. Við erum búin að kaupa flug til London fjórða janúar og frá London til Mumbai áttunda janúar. Líka búin að panta Síberíuhraðlestarferðina, fara í bólusetningar og fá vegabréfsáritanir. Þetta verður raunverulegra með hverjum deginum, að við séum virkilega að fara að láta verða af þessu. Ég vorkenni samt Ottó sem þarf að vera með mér í miðri Mumbai þegar ég átta mig á því hvað við erum að fara að gera næsta hálfa árið. Ég er viss um að það kikkar ekki almennilega inn fyrr en þá.

Seinustu helgi ákváðum við að gera okkur dagamun, enda hef ég varla týmt að kaupa brynjuís (hvað þá annað) í allt sumar. Við fórum suður til að skóa okkur upp fyrir ferðina og fara í kínverska sendiráðið, ásamt skemmtilegri hlutum. Þetta var frábært langt helgarfrí; ættingjar stjönuðu við okkur og buðu okkur í mat, við áttum met í að hitta margt fólk á stuttum tíma, fórum á langþráðan stjórnarhitting og sáum Megas og senuþjófana í Laugardalshöll. Takk fyrir samveruna allir. Kringlan á þynnkulaugardegi er samt helvíti og mælist ég til þess að slíkar ferðir séu ekki farnar nema brýna nauðsyn krefji.

Nóg í bili!It will be fun...

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Nei sko hvað er að ske. Ég var að blogga smá um stjórnarkvöldið góða, setti þessa fínu mynd af okkur gellunum. Oh það var svo gaman að hitta ykkur. Ég kem líka norður um næstu helgi. Ertu til í Brynju rúnt? ég skal meira að segja splæsa:)

9:31 e.h.  
Blogger Nína said...

Þú ert svo dugleg, duglillingurinn minn. Myndir á leiðinni von bráðar. Knús og koss.

ps. Ég er voða ánægð með að þú sért farin að blogga aftur.

11:58 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home