19.11.07

Nú er ég alveg að verða búin að fá nóg af vinnunni minni. Ekki af vinnunni sjálfri heldur lágum launum, miklu álagi, undirmönnun og því að fá ekki vinnuskýrslu með almennilegum fyrirvara. Eins og staðan er í dag veit ég ekkert hvernig ég er að vinna eftir fyrsta desember og hef ekki hugmynd um hvernig ég á að vinna um jólin. Einhver sagði mér að skv. lögum ættu vinnuskýrslur að liggja fyrir með sex vikna fyrirvara en það er piffað á það eins og ekkert sé.

Á undanförnum kvöldvöktum höfum við verið fjórar að vinna á ganginum, auk þeirrar sem er á lyfjavakt (sér um lyfjagjöf og er yfir vaktinni = hefur ekki mikinn tíma til að sinna ummönnun). Fjórar manneskjur að sjá um 30 manns, sjö og hálfur vistmaður á hvern starfsmann. Heimilisfólkið á deildinni minni er missjálfbjarga, sumir (fæstir)sjá nánast að öllu leyti um sig sjálfir en aðrir þurfa alla aðstoð við sínar daglegu athafnir og sumir þurfa tvo starfsmenn til að aðstoða sig. Starfsmenn hafa þurft að hafa sig alla við til að sinna fólkinu almennilega. Ég hef verið svo þreytt eftir vaktir undanfarið að ég hef varla orku í að gera annað en að vinna og sofa.

Þetta er náttúrulega ömurlegt. Að bjóða fólki upp á svona, bæði heimilismönnum og starfsmönnum. (Það hlýtur að vera heimilisfólki í hag að nægt starfsfólk sé til að sinna því). Ef maður krefur yfirmenn útskýringa á ástandinu fær maður fljótlega á tilfinninguna að maður eigi ekki að skipta sér af þessu og vera með vesen. Þrátt fyrir að maður viti að á hinum deildunum sjái hver starfsmaður um 4-5 heimilismenn. Það væri líklega hlegið að mér ef ég ætlaðist til þess að fá greitt álag þegar ekki næst að manna vaktirnar. Auðvitað tóm frekja; „þið reddið þessu elskurnar... Það bara vantar fólk til að vinna.“ Ég held að seinast hafi verið auglýst eftir starfsfólki í Dagskránni í vor.

Nú tel ég dagana þar til ég hætti að vinna og fer út. Það versta er að ég kann vel við að vinna við aðhlynningu og held að mér farist það ágætlega úr hendi. Ég hef metnað fyrir vinnunni en það er ömurlegt þegar að troðið er svona á öldruðum og fólki (konum) í ummönnunarstörfum. Femínistinn í mér heldur því fram að karlar myndu ekki segja já og amen við þessu öllusaman.

Ummönnunarstörf þarf að hefja upp til vegs og virðingar. Ég er í annarri stöðu heldur en konurnar sem hafa unnið á öldrunarheimilum til margra áratuga. Núna vinn ég þarna í hálft ár og í sumarafleysingum en ætla ekki að leggja þetta fyrir mig. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem gera það að ævistarfi sínu að sinna fólki í vaktavinnu, vinna um kvöld, helgar og á hátíðum í slítandi vinnu. Þetta er ekki sjálfsagt og fátt þoli ég verr en þegar reynt er að réttlæta léleg laun umönnunaraðila með því að segja að þetta sé svo gefandi vinna. Það kemur málinu ekki við, þetta er ekki sjálfboðavinna heldur starf, fólk hefur lífsviðurværi sitt af þessari vinnu.

Úff, ég gæti haldið lengur áfram en ég læt staðar numið. Mér finnst líklegt að ég vinni aftur á Hlíð næsta sumar, (nema að yfirmenn lesi þessa færslu og móðgist) aðallega útaf því að ég byrja ekki að vinna fyrr en um miðjan júní og hætti áður en ég fer í háskólann. Þar sem ég hef svona stuttan tíma er gott að geta gengið að vísu starfi og þurfa ekki að byrja í starfsþjálfun. Hálfgerð hræsni að segjast ætla að vinna þarna aftur eftir þessa ræðu...

Annars er það að frétta af mér að ég er komin í jólaskap. Við Ottó bökuðum fjórfalda uppskrift af smákökunum „Hermanns“ áðan, tæplega níu plötur. Frekar gaman að vera með jólabaksturinn í ofninum í svuntu og hlusta á jólalög. Jebbs, við erum jólahommar en ég hef ekki komist í jólaskap svona snemma síðan ég var í grunnskóla. Stórfínt að byrja á þessu núna þegar það er tími, maður veit jú aldrei hvernig maður er að vinna um jólin...

6 Comments:

Blogger Unknown said...

Já mamma er alltaf að kvarta yfir því hvað það sé undirmannað á dvalarheimilinu heima, hún er alltaf að drepast úr þreytu, ég skil ekki af hverju það er alltaf svona undirmanna alls staðar. En takk enn og aftur fyrir matinn á fimmtudaginn, hafið það sem best :D

10:02 e.h.  
Blogger Sólveig Edda said...

ohh ég vildi ad ég vaeri hjá ykkur ottó núna ad hlusta a Ellý og Vilhjálm og borda smakokur! heyrdi fyrsta jolalagid í útvarpinu hérna í dag, thad var hid sívinsaela "Last Christmas" med George Michael...thad er EKKERT jolalegt vid thad!
og va hvad eg skil thig thegar thu talar um undirmannada vinnustadi, eg hef unnid a einu, slíkum í 4 sumur og thad er ekkert grín!

9:22 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er nú ekki svona á aldraðraheimilinu á Grafarbakka!

1:25 f.h.  
Blogger RaggaÝr said...

ég hlakka til að hitta þig á föstudag í næstu viku:D

ertu að spá! vúbídúbídú:)

4:28 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég vinn á dvalarheimilinu á Vopnafirði á sumrin og ótrúlegt en satt þá er ekki undirmannað þar. Hins vegar eru launin ekkert frábær, þ. e. fyrir sjúkraliðana. Þau eru ágæt fyrir menntaskólanema sem vinnur á sumrin en því miður eru laun faglærða fólksins ekki mikið hærri.

Mér finnst bara að það eigi að borga fólki almennilega fyrir að vinna þessi störf svo að einhverjir fáist til að vinna þau.

11:10 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Es. Raunin er bara sú að peningurinn fer í að borga hjúkrunarfræðingum offjár bara fyrir það að vera á bakvakt. Þeir fá auk þess sérstaklega borgað fyrir að sinna útköllum.

11:12 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home