20.7.04

Útilegumenn
 
Fékk tveggja daga frí um daginn og ákvað að eyða því í útilegu.
Mamma og pabbi skutluðu mér og Helga því í Lundskóg þar sem pabbi blés vindsængina okkar upp með lungunum.
Við eigum rafmagnspumpu heima, pabba fannst þetta bara meiri "stemning".
Fórum í sund á Illugastöðum og gengum örugglega svona 7 km  í brjálaðri blíðu, mjög plebbalegt og sætt alltsaman.
 
Að vinna með mönnum
 
Mennirnir sem ég hef unnið hvað mest með í gegnum lífið eru pabbi minn og afi.
Það er ekki hægt að segja að þessir menn eigi mjög auðvelt með samskipti meðan á vinnunni stendur.
Sá fyrrnefndi kýs að segja sem minnst. Hummar í mesta lagi en verður svo argur ef maður skilur hann ekki.
Guð forði honum frá því að endurtaka skipanir heyri maður ekki í honum.
Sá síðarnefndi talar hins vegar meira. Venjulega er hann á dráttarvél, Landcruiser jeppa eða fjórhjóli, flautar og kallar svo háum rómi á mann:  "Rektu rollurnar suðurfyrir garðinn og farðu svo með þær norðurfyrir kelduna... "
Lesendur skilja vonandi að það getur verið mjög erfitt fyrir 9 ára barn sem kann ekki áttirnar að skilja slík fyrirmæli.
Í vinnu minni sem bílfreyja, þar sem ég þarf að starfa með ótal mismunandi bílstjórum, hefur mér skilist að fátt er ungri stúlku betra veganesti út á vinnumarkaðinn en að vinna með akkúrat svona mönnum.
Sú reynsla að vinna með pabba mínum hefur kennt mér að segja aldrei "ha" heldur hlusta vel og einnig hefur hún bætt innsæi mitt verulega. Ég bara horfi á og "veit" einhvern veginn hvað ég á að gera. Þetta líkar bílstjórum mjög vel. Að vinna með afa hefur kennt mér að skilja fáránlegustu og ótrúlegustu leiðbeiningar svo allt annað verður leikur einn. 
Mæli þessvegna með að allir vinni með afa Leifi og einu stykki Shiöthara í einhvern tíma, einhvern tíman á lífsleiðinni.
 
 
London beibí
 
Fallega borg. Ó hve lengi hef ég beðið...
Það er staðfest, ég er á leið til London. Farmiðar keyptir og hótel bókað...held ég?
Allavega, ég, Helgi, mamma, pabbi og Axel förum til London 8. september og verðum í fjórar nætur.
Hlakka svo til!
Verðum í hóteli rétt hjá Soho hverfinu, í göngufæri við The British Museum og Oxford Street...
Grrrr...
 

 


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home