26.9.04

Helgin

Það er svo margt búið að gerast þessa helgi að ég veit ekki hvar ég á að byrja að blaðra. Því hef ég ákveðið að skrifa ógeðslega dagbókarfærslu. Gjörið svo vel.

Fimmtudagur;
hitti Helgu á Mokka um leið og flugvélin lenti. Bergþóra var hjá henni en var skipt úr fyrir Auði Ástráðs í hálfleik. Tíminn fram að tónleikum var drepinn með kaffidrykkju, ópaláti og slúðri.
Helga: takk fyrir skemmtunina og kaffið sem ég lét þig óvart borga.

Kl. hálfátta var haldið í röð á Nasa. Stundin var að renna upp, ég myndi sjá manninn sem ég hafði hlustað á daglega seinasta hálfa árið...
Fyrst neyddumst við þó til að hlusta á *unga og upprennandi söngkonu*, Láru. Meðan blessunin hún Lára gaulaði fjórða lagið sitt, sem var nákvæmlega eins og þrjú fyrri, fórum við Bergþóra á klósettið. Verður að segjast að þetta sé besta klósettferð mín frá upphafi því á leiðinni kom Bergþóra hin glögga auga á sjálft goðið í áhorfendakösinni!

Leikþáttur:

B: Hann er þarna!
K: Hver, hvar?
B: Beint við hliðina á þér!
K: *Tekur eftir lágvöxnum manni með ullarhúfu sem stendur þétt upp við hana.
Hún trúir ekki sínum eigin augum þegar hún áttar sig á því að þarna er Damien nokkur á ferð og brosir aulalega. Roðnar þegar meistarinn brosir til baka*.

Þarna stóð hann semsagt og naut þess að það tæki varla nokkur eftir honum. Bergþóra gerðist þó djarfari en ég og sagði eitthvað við hann.

Illmögulegt er að lýsa tónleikunum með orðum en það skal þó reynt;
Að fara á tónleika með Damien er allt önnur upplifun heldur að hlusta á diskinn. Þó sömu lögin séu spiluð er aðferðin og áhrifin svo allt önnur. Það er yndislegt að heyra lögin af disknum flutt af honum sjálfum og Lisu en svo rennur lagið út í magnað hljóð þangað til maður heyrir vart tóna skil en þú fyllist. Nasavængirnir titra af hávaða, hjartað er í hálsinum, tárin frussast úr augunum og gæsahúðin dreifir sér um allan líkamann. þú rígheldur þér í barborðið því þú efast um að hnén haldi þér mikið lengur, svo mikið skjálfa þau.
Í lögum eins og Delicate, Amie og Cannonball, svo nokkur séu nefnd, geturðu fátt gert nema leggjast fram á borðið, hlustað og grátið. Svo fallegt sko.

Eftir tónleikana héldum við Helgi, Bergþóra og Emmi til Hjalta Jakobs. Það var kósí.
Síðan beið okkar Helga öndvegis svefnsófi hjá Emma. Auk svefnsófans prýðir íbúð þessa afar langur og varasamur gangur en ekki verður farið nánar út í það að þessu sinni.

Föstudagur;

Deginum var eytt í bæjarráp, kebab, að reyna að redda sér í Skagafjörðinn, að keyra þangað, að fara á hestasýningu, að skutlast um allar jarðir og að sofa.

Laugardagur;

Dagur réttarinnar. Rigning og rok, fullt fólk og hross. Ágætt þar til við vorum að fara en þá varð ég fyrir líkamsárás. Var að labba framhjá bíl einum og þegar ég gekk fyrir hann fékk ég risa-trjádrumb í síðuna. Missti andann og hneig niður en mátti forða mér áður en ég fékk næsta í mig. Bölvað, fulla fífl. Óttast að ég sé rifbeinsbrotin/brákuð/marin.

Svo var ballið. Það var svipað, ágætt að mörgu leyti en ég veit ekki. Var illt í beininu, fékk bjór yfir mig alla og svo var ég næstum lamin af öðrum fullum kalli.

Sunnudagur;

þreyta og ýlda. Komin heim og verð að fara að læra. Nenni því ekki.



0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home