22.8.04

Fóbía

Nú hefur fuglafóbía mín náð nýjum hæðum. Fóbía þessi, eða ofsahræðsla eins og hún myndi þýðast á okkar ástkæra ylhýra, hefur stigmagnast frá því að ég var barn.
Fyrsta atvikið sem ég man eftir, gerðist þegar ég var svona þriggja ára. Þá fór ég ásamt frænku minni í hæsnakofann í sveitinni til að ná í eggin og á meðan tættar hænurnar flögruðu yfir hausunum á okkur goggaði ein illgjörn púta í puttann á mér. Áfallið var svo mikið að mig dreymdi hænugogga lengi á eftir. Allar götur síðan hef ég svo þurft að fara inn í þennan illþefjandi og þrönga kofa til þess að fæða óvini mína, taka frá þeim eggin og endrum og eins; bera þær dauðar út.
Mávar og sjófuglar hafa alltaf vakið mér óhug, sérstaklega fýlarnir þegar maður fer á sjó. Þá sveima þeir friðlausir yfir manni þar til pabbi er búinn að slægja og fleygir þorskinnyflum í þá.
Einhverju sinni sýndi RUV Hitchcock-myndina The birds. Ég hafði ekkert að gera þetta kvöld og ákvað því að poppa og horfa á ræmuna enda þótt ég sé lítið fyrir hrollvekjur. Ég ákvað að þessi væri svo gömul að hún gæti ekki verið hryllileg; Ég svaf ekki þessa nótt og held mig núna inni í bátnum þegar pabbi verkar fiskinn.
Í starfi mínu kemur það alloft fyrir að rútan keyri á fugla. Það sem er verst er að ég vorkenni þeiom ekki fyrst í stað, ég byrja alltaf á að ímynda mér að þeir fljúgi í gegnum rúðuna og ráðist á mig... Svo finn ég til með þeim...
Það er ótrúlega mikið af útflöttum og sundurtættum fuglum á þjóðveginum. Oft sér maður gráa máfaklessu á veginum þar sem einn vængur stendur uppúr, um daginn sá ég gæs í þremur hlutum og svo eru óteljandi leifar af því sem áður voru smáfuglar.
Ástandið var í lagi áður en martraðirnar byrjuðu. Martraðirnar já, mig byrjaði að dreyma að allir dauðu fuglarnir á þjóðveginum risu upp frá dauðum. Fuglazombíar eltu mig á röndum og ég var gerð ábyrg fyrir dauða þeirra allra.
Núna hefur mig dreymt þennan draum 5 sinnum og það væri gott að geta losnað við hann.
Dáleiðsla? Einhver ráð? ...Geðrannsókn..?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home