28.7.04

Gribba

Í gær ældi ég áður en ég gekk til vinnu. Það var ljúft. Vegna þess hvað æluaðfarir mínar tóku langan tíma þurfti ég að hlaupa við fót til að ná rútunni. Uppfull af ógleði og ofreynslu rukkaði ég fólkið sem var svo ólánsamt að vera viðskiptavinir SBA-Norðurleiðar þennan morguninn.
Á leiðinni í Borgarnes ágerðist ógleðin, ég gat rétt spýtt því útúr mér í mígrafóninn hve lengi við myndum stoppa áður en ég hljóp inná Hyrnu klósett og ældi... meira. Botninum var náð þegar þýskar kellingar buðu mér aðstoð sína.
Eftir að hafa hlaupið út með kassa á Bifröst og gegnblotnað ákvað ég að dagurinn yrði ekki verri og svaf af mér Holtavörðuheiðina.
Þegar við komum að Brú hrökk ég upp við öskur og óhljóð. Fjórir krakkar á aldrinum 10-12 ára sátu aftarlega í rútunni og létu eins og áðurnefndar þýskar konur væru að sýna þeim handakrikahár sín.

Myrk í framan gekk ég aftur í rútuna og spurði alvarleg: "Krakkar eruð þið með þessi læti?"
Þegar þau fóru að benda hvort á annað og klaga fyrir hárreitingar og bolabrögð hvarf þolinmæði mín, sem var þó lítil fyrir, og ég gargaði á mettíma: "Mér er nákvæmlega sama hver hárreitti hvern eða hver gerði hvað! Þið eruð orðin nógu gömul til að geta tekið ábyrgð á hegðun ykkar og þetta er ekki ásættanleg hegðun! Þið hafið engan rétt á að trufla aðra farþega en ég hef fullan rétt á að henda ykkur út ef þið hagið ykkur ekki! Er það skilið?" Að lokum bætti ég ísmeygilega við: "Eða viljiði kannski verða eftir í Staðarskála?"

Það þarf vart að taka fram að andlitin flugu af börnunum og ekki heyrðist í þeim það sem eftir var ferðar. Eftir að hafa fengið útrás á ormunum hvarf ógleðin eins og dögg fyrir sólu. Tenging þarna á milli...?


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home