15.12.05

Gubbupest er sennilega það versta. Búin að liggja í fletinu í allan dag, horfði á Lolitu og ældi inn á milli. Djamm.
Síðan ákvað ég að hugsa smá. Þungur pistill í vændum.

Ég ákvað að skoða síðurnar www.tru.is og www.vantru.is eftir að auglýsingar frá báðum síðum höfðu verið hengdar upp í skólanum. Mér líkaði hvorug.

Ég er ekki trúuð og er utan trúfélaga. Mér finnst þó gaman að velta fyrir mér trúmálum og sérstaklega þegar kemur að misjöfnum réttindum trúfélaga á Íslandi. Fátt fer meira í taugarnar á mér en átroðningur trúfélaga, trúboð, hræsni, yfirgangur, öfgar og misrétti. (Ég er ekki að segja að þessi atriði séu til staðar í öllum trúfélögum, þó er misjafn sauður í mörgu fé). Mér þykir ekki gaman að reyna að afsanna tilvist Guðs eða annarra guða, það get ég heldur ekki gert.

Trú.is finnst mér vera örvæntingarfull tilraun þjóðkirkjunnar til að ná til safnaðar síns. Ég held að fólk sem er skráð í þjóðkirkjuna mæti fæst til kirkju nema við athafnir; skírnir, giftingar, fermingar og svo í jólamessu. Nú hefur kirkjan netvæðst (væntanlega á kostnað skattgreiðenda) til að færa boðskap sinn í mynd sem hæfir hinu hraða samfélagi, samfélaginu sem kirkjan er stöðugt að vara við. En allt í lagi, sumum líkar þetta.

Á vantrú.is koma fram athyglisverðar pælingar, mörgum þeirra er ég sammála. Sumt sem er hægt að lesa á síðunni er nauðsynleg áminning um að gleypa ekki við hverju sem er. Hins vegar eru staðhæfingar um kristna trú yfirleitt settar fram á særandi og hrokafullan hátt. Mér finnst pistlaskrifarar á vantrú hálfpartinn vera að berjast við loftið, til hvers að afsanna tilvist Guðs? Afhverju má ekki leyfa fólki sem finnur fróun í því að trúa, að trúa áfram? Trú skiptir fólk mismiklu máli, sumum hefur hún hjálpað mikið. (Jájá, kannski finnst einhverjum hjálpin þá vera blekking, en ef það virkar...) Allavega, mér finnst ekkert skárra þegar trúleysingjar ráðast á kristið fólk með skrifum sínum en þegar kristnir menn dæma t.d. trú múslima.

Það eru örugglega margir ósammála mér en þannig á það líka að vera. Við í stjórninni tókum þá ákvörðun á fundi að taka allar auglýsingar sem tengjast trúmálum niður. Ekki hefur verið beðið um leyfi til að hengja þessar auglýsingar upp og við höfum rétt til að taka allt slíkt niður. Auk þess, og aðallega, þykir okkur skólinn ekki vera vettvangur fyrir trúaráróður. Hann á heima annarsstaðar, helst samt hvergi.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home