20.12.05

Það sem ég er búin að hafa gaman af þessum ótrúlega hallærislega kommentaleik. Stundum þarf maður að vera smá gelgja, ég vil endilega að fleiri kommenti!

Mikið ósköp er ég þreytt, hélt að það væri mitt síðasta að vakna í morgun eftir tveggja tíma svefn. Sálfræðirannsóknarskýrsla og fleira skemmtilegt til kl. 5 í nótt. Held að hún hafi tekist vel, örugglega eitthvað um svefngalsasetningar í henni samt. Það er alveg merkilegt hvað mér tekst að draga allt fram á allra seinustu stundu.

Seinustu fjóra daga hef ég slegið met í yfirborðsmennsku. Og það á launum. Er að kynna hluti eins og Baci, Machintosh og kaffi á stöðum eins og Nettó og Hagkaupum. Og brosi allan tíman og er sykursæt. Gubba innan í mér en er góð í þessu engu að síður!

Hlæ að ógeðslega lélegum bröndurum:

Kristín: Má bjóða þér að smakka Baci, ítalskt konfekt?
Maður: Nei ég er á bíl. Ahahaha.. gengur í burtu að kafna úr eigin fyndni.

(Klassískir)

Kristín: Má bjóða þér Machintosh?
Maður: Já eeeendilega, ég hef nefnilega aldrei smakkað þannig áður. (Ok, kannski satt, en ég þarf að hlæja að því þegar fólk gerir þetta einusinni á hverjum fimm mínútum.)

Kristín: Má bjóða þér Machintosh?
Maður: Tekur einn mola uppúr, réttir mér hann og tekur dósina. Hlær svo dátt og ég kreisti upp úr mér hlátur. Þetta gerist einusinni á hverjum 20 mínútum.

Æj, þetta er samt alveg gaman. Sannaði sig í gær þegar ég fékk marga góða gesti í smakk, m.a. Gittu, Arnar, Júlíus, Möggu og seinast Þorlák. Það toppaði daginn.

Svo er ég góð í að halda í mér andanum og brosa samt þegar illa lyktandi gamlir kallar koma alveg ofan í mig til að tala um að sérvöldu baunirnar frá Kólumbíu séu ekkert þaðan, þetta sé allt eitt stórt samsæri. Svo líta þeir til himna og tauta: "Samsæri...". Allavega einn.

Jólafrí og jólaskap? Ég er hálgerður jólaauli, finnst ekkert sérlega spes að stússast í þessum jólagjöfum. Ég er ekkert spennt fyrir pökkunum í ár, hef ekki reynt að þukla eða kíkja inn í neina. Það eina sem ég vil er að fá svona 5 bækur, liggja svo uppí rúmi með þær, köttinn og laufabrauð í jólarúmfötunum í jólanáttfötunum. Og svo auðvitað vera með fjölskyldunni. Það eru mín jól.

Jólalög sem ég mæli ekki með:

- Lög með Ríó Tríó
- Lög með Mariu Carey
- Lög með Helgu Möller

Jólalög sem ég mæli eindregið með:

- Baggalútslögin
- Lögin með Ellý og Villa Vill
- Nýi diskurinn þeirra Ellenar og KK

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home