27.6.06

Helga hýsti mig á Njálsgötunni um helgina. Það var ótrúlega kósý og kann ég henni bestu þakkir fyrir.

Ég fór sumsagt suður til að vera á alþjóðlegri ráðstefnu um trúleysi, og hún var mögnuð. Ég er eiginlega bara í skýjunum ennþá. Fyrir utan hvað fyrirlestrarnir voru fjölbreyttir, áhugaverðir og áhrifamiklir, var andrúmsloftið frábært. Það var gaman að vera í sal með 130 öðrum trúleysingjum sem voru klárir og málefnalegir, en höfðu líka mikinn húmor fyrir sjálfum sér sem og trúuðum. Það var afskaplega mikið hlegið á ráðstefnunni. Þrátt fyrir hláturinn og góða andann sem ríkti þessa tvo daga komst ég ekki hjá því að fyllast hörmungarhyggju. Sérstaklega þegar að bandarísku fyrirlesararnir greindu frá ástandinu þar og þegar rætt var um hvað trúarofstæki er að gera heiminum. Fáfræðin er líka ótrúleg. 47% Bandaríkjamanna trúa því að Guð hafi skapað heiminn fyrir 10.000 árum. Tæpur helmingur. Æ...

Þó að trú hafi ekki jafn mikil áhrif á stjórnvöld á Íslandi og raunin er í Bandaríkjunum, er fólki mismunað eftir lífsskoðunum sínum hér. Ríki og kirkja eru ekki aðskilin, og Þjóðkirkjan fær greiðslur frá ríkinu, aukalega við önnur trúfélög. Auk þess fá þeir sem eru skráðir í Siðmennt (lífsskoðanafélag) ekki að láta sóknargjöld sín renna til félagsins. Nei, samanlagt borga trúleysingjar 50 milljónir á ári til Háskóla Íslands, ef mig misminnir ekki. Fyrir utan þetta eru fleiri pottar brotnir og víðar. Á Íslandi eru lög um guðlast í gildi (sem stangast klárlega á við lög um tjáningarfrelsið), grafreitamál eru ekki í nógu góðu standi og kennt er upp úr norskum kristinboðsritum í grunnskólum í stað þess að börnum sé kennd hlutlaus, almenn trúarbragðafræði. Svo ég taki nokkur dæmi, þau eru fleiri.

Eins og ég sagði áður voru fyrirlestrarnir margir og góðir. Það sem stendur kannski helst uppúr hjá mér eru þó Dawkins, Sweeney og Barker. Annie Laurie Gaylor var líka með merkilegt erindi um stöðu kvenna þegar kemur að trúarbrögðum.

Fyrir þá sem ekki vita, er Richard Dawkins sá sem kom fram í Kastljósinu um daginn. Hann er líffræðingur og prófessor við Oxford og líklega einn sá allra klárasti maður sem ég hef hitt. Hann hefur skrifað fjölda bóka og gerði þætti fyrir BBC sem nefnast The Root of all Evil? sem vonandi verða sýndir á RÚV. Auk þess sem Dawkins er ofsalega klár, er hann rosalega skemmtilegur maður. Það sannaðist best fyrir mér þegar hann fékk sér sæti á borðinu sem ég sat við í hádegishléinu á laugardaginn. Hann spjallaði allan tímann við okkur sem sátum þar og var afar kammó. Ég var reyndar eins og auli allan tímann, ógeðslega feimin, enda nýbúin að hlusta á hann flytja magnaðan fyrirlestur. Ég keypti svo áritaða bók eftir hann, The Blind Watchmaker, sem ég er rétt byrjuð á. Hún lofar góðu.

Julia Sweeney er leikkona og ein af höfundum Desperate Houswifes þáttanna. Eins og gefur að skilja er hún því ótrúlega fyndin kona, og mjög klár líka. Hún flutti einleik á laugardagskvöldið sem fjallaði um það hvernig hún missti trúna, eftir að hafa verið alin upp í kaþólskum sið og síðan fikrað sig áfram í leit sinni að Guði. Leikritið var bæði mjög tilfinningaríkt og alveg hrikalega fyndið.

Dan Barker er fyrrverandi sanntrúaður predikari, sem missti trúna. Hann lýsti því hvernig hann upplifði trúna, og það að trúa sé sönn upplifun. Það var merkilegt að heyra það, sérstaklega þar sem ég hef aldrei upplifað sanna og efalausa trú. Hann lagði einmitt áherslu á það að þeir sem trúa _trúi_ í alvörunni. Hann líkti því við það þegar hann fékk martröð eina nótt og vaknaði í svitabaði og öskrandi þvi hann dreymdi að innbrotsþjófar væru að brjótast inn um gluggann til hans. Sú upplifun er sönn, en það þýðir ekki að innbrotsþjófarnir séu annarsstaðar en í höfðinu á honum. Það var afar skemmtilegt að hlusta á hann.

Æi já, það voru margir gullmolar sem féllu á þessari ráðstefnu.

Þegar ég var ekki á ráðstefnunni héldu Helga og Stefán Þór mér í hlutverki reiða, meðvitaða unglingsins. Stefán Þór benti okkur Helgu á heimasíðuna knowmore.org og ég er búin að hanga á henni síðan til að athuga hvernig fyrirtæki koma fram og vinna. Ég mæli með að þið prófið að slá inn orð eins og Coke, Nestlé og Chiquita. Ágætis dægradvöl og betra fyrir heilann en bubbles. Síðan horfði ég á Loose Change með Helgu, mynd sem fjallar um 9/11 og nú veit ég ekkert hverju ég á að trúa og hausinn á mér hringsnýst.

Að lokum vil ég óska samkynhneigðum, og þjóðinni allri, til hamingju með nýja lagasetningu um jöfn réttindi samkynhneigðra á við gagnkynhneigða.

6 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Oj þú hefur aldeilis fokkað upp síðunni þinni.
En já, þú horfðir á ranga mynd um 9/11.
Flight 93 er myndin fyrir þig! Tjekk it out. Made me cry og allt.
http://imdb.com/title/tt0481522/

en djók, þetta er versta mynd sem ég hef séð.

2:04 e.h.  
Blogger elfa said...

ohh þú ert svo klár..

9:24 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Sæl og blessuð. Ég tek að mörgu leyti undir orð þín um Dawkins sem er snillingur í fremstu röð á sínu sviði (þó ég hafi kannske ekki allar forsendur til að meta það sjálfur). Sumt af því sem hann segir um trúarbrögðin stenst þó ekki alveg að mínu mati. Hérnabregst ég við einhverju af því sem hann hefur haldið fram. Segðu endilega skoðun þín á því.

10:04 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

En þú mátt greinilega ekki svara lengur, þú hafðir bara klukkutíma til stefnu áður en að Skúli lokaði fyrir athugasemdir án ástæðu...

11:28 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Nei, þetta voru bara tæknileg vandræði ekki trúarleg! Allt opið núna.

12:44 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

þu reyndir samt pottþétt við Dawkins. ég veit ekki hvað skal segja..líf mitt snýst í hringi þegar talað er um trú?hvað geri ég nú?

edda

9:24 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home