14.4.06

Ræræræ... Frí og fjör. Mér leeeeiðist.

Alveg stórmerkilegt, ég er búin að skrifa heillangan appelsínugulan þarfaðgeraípáskafríinu-lista, nenni því miður ekki að gera margt á honum. Læt mér leiðast í staðinn, en óskynsamlegt.

Við Kristján Einarsson snerum samt vörn í sókn í gær. Við höfðum verið að spjalla saman og áttuðum okkur á að það væri ekkert sniðugt að láta sér leiðast í fríum. Hann vakti mig þessvegna kl. 10 í gærmorgun, kom hingað kl. 11 og við byrjuðum að plotta (svikula rotta?). Við ákváðum að eyða deginum í bakstur, sérdeilis ágæt dægradvöl það. Ekki skemmdi svo fyrir að við sáum fram á að geta mútað fólki til að hitta okkur með bakstrinum. Við skelltum sumsagt í þrjú form og úr því kom: Tilraunasúkkulaðikaka, ættuð frá Austfjörðum og Lundúnum, karamelluhringur og frönsk súkkulaðikaka með jarðaberjum og brómberjum. Auk þess skrapp mamma í bakaríið og keypti nokkur brauð. Síðan hringdi Kristján í skemmtilegt fólk, ekki komust allir en margir þó. Úr þessu varð heljarinnar kaffiboð. Mikið er gaman að þekkja svona margt skemmtilegt fólk, svei mér þá. Olga, Dagný, Ari, Arnar, Júlíus og Magga, takk fyrir komuna. Kristján fær spes þakkir fyrir allan daginn.

Æhj skelfing langar mig í Brynjuís. Allar "cravings" (hef ekki enn fundið fullnægjandi orð fyrir þetta á íslensku, tillögur óskast) magnast upp þegar þær eru ófáanlegar. Nú er ég svo sannarlega bitur trúleysingi, fúl yfir því að sektarkennd heils samfélags yfir þjóðsögu valdi því að búðir séu lokaðar á föstudaginn langa. Nei svona svona, ætli ég jafni mig ekki.

Jæja, engin ástæða til að láta sér leiðast eða hvað? Farin að hitta Olgu og Dagnýju.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home