17.4.06

Paaaaaartýýýý!?

Nei... sannarlega er ég ekki partýgaurinn í kvöld. Tjah, ekki nema það að liggja í náttslopp, lesa og ofsækja fólk á msn, á milli þess að endurraða í fataskápinn sinn, teljist villt djamm. Hvað veit maður?

Ég er búin að lesa tvær bækur það sem af er frís, fyrir utan skólabækur. Fyrst las ég fimmtu bókina um Kvenspæjarastofu númer eitt. Skemmtilegar bækur með skemmtilegum stíl, ótrúlega auðlesnar og ekki verra að drekka rauðrunnate meðan maður les þær. Eiginlega alveg nauðsynlegt. Mér finnst samt bækurnar þynnast svakalega eftir sem þær verða fleiri, þá er ég að tala um söguþráðinn, ekki blaðsíðufjölda.

Svo var ég að enda við Draumalandið eftir Andra Snæ. Það er búið að dásama þá bók nógu mikið í fjölmiðlum og annars staðar, nenni ekki að tala um það. En mikið vona ég (og efast í leiðinni um) að fólk sem bókin á hvað mest erindi til lesi hana. Forsætisráðherra, iðnaðarráðherra, umhverfisráðherra, heilbrigðisráðherra, menntamálaráðherra... eða bara allir ráðamenn þjóðarinnar, hvar sem þeir standa í pólitík. Þetta er holl lesning og ég mæli með henni fyrir alla.

Þessi dagur byrjaði hræðilega, rifjum það ekkert meira upp, en var á annan hátt góður. Lunginn úr honum fór í át á ömmumat, hundaknús, krakkakram, singstarbattl og spjall. Það er sérlega gaman að spjalla við frændsystkini mín, þau eru að pæla í svo skemmtilegum hlutum.

Við lágum saman í klessu uppi í sófa og horfðum á Spiderman þegar allt í einu...

Þorri: (5 ára og alinn upp af trúlausum foreldrum) "Guð skapaði heiminn Kristín".

Þórdís: (11 ára og einstaklega kurteist, orðvart og gáfað barn, muldrar) "Helvítis kristinfræði..."

Kristín Helga: (18 ára og afar hissa á báðum frændsystkinum sínum, öðru fyrir óvænt innskot og hinu fyrir orðbragðið) "Nújá... og hvar heyrðirðu það Þorri?"

Sunna: (8 ára, smámælt og óðamála) "Hann Þorri fór sko í sunnudagaskólann í leikskólanum um daginn og nú trúir hann á Guð".

Þórdís: (Muldrar) Helvítis kristinfræði...

Sunna: (Enn æstari og hraðmæltari) Einusinni eyddi ég heilum degi í skólanum í að læra bara kristinfræði. Það var ekki sérlega skemmtilegt, pabbi fór bara að hlæja þegar ég sagði honum það samt... Pabbi var sko alltaf hræddur við englana þegar hann var lítill, amma fór nefnilega alltaf með bænirnar fyrir hann fyrir svefninn, þarna "...sitji Guðs englar, saman í hring, sænginni yfir minni..." og hann þorði aldrei að sofna því að hann var svo hræddur um að englarnir dyttu á hann um nóttina...

Þórdís: (Grípur fram í) "Trúir þú á Guð Kristín?"

Kristín: Nei, það geri ég ekki.

Sunna: (Verður pínu ráðvillt, hugsar sig svo um) "Sko... Þorri trúir á Guð, Þórdís trúir ekki á Guð og ég bara... ég veit ekki, æhj. (Andvarpar furðu jússulega, miðað við aldur) Þetta er svo erfitt! (Rosalega mikið miðjubarn).

Þorri: (Horfir upp í loftið og sönglar) Ó Jesú bróðir beeeesti...

Á þessum tímapunkti var ég orðin svo ráðvillt yfir þessum óvæntu pælingum og umræðum að ég stóð upp og fékk mér kaffi með fullorðna fólkinu. Það er minna krefjandi.

Ég vil í endann gefa íslensku skólakerfi sérstakt kredit fyrir að: Fara með leikskólabörn í sunnudagaskóla án þess að spyrja forráðamenn leyfis, kenna börnum upp úr norskum trúboðsbókum þar sem biblíusögur eru settar fram sem staðreyndir, ekki þjóðsögur, og Gyðingar eru vondu kallarnir, hafa það í námskránni að "börnum skuli innrætt _kristilegt_ siðgæði", leyfa kennurum að komast upp með að krefja 12 ára börn svara og útskýringa á því afhverju þau séu ekki trúuð, segja foreldrum að ná í börnin sín úr tíma og hafa ofan af fyrir þeim ef þau vilja ekki að þau sitji kristinfræðitímana og síðast en ekki síst, ráða kristinfræðikennara sem eru heittrúaðir ofsatrúamenn sem tryllast við börnin ef þau trúa ekki.

Þetta eru allt dæmi úr íslensku skólakerfi sem ég, bróðir minn eða frændsystkini mín þekkja af eigin raun. Til hamingju okkar trúfrjálsa land.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home