9.6.06

Máttleysi um allan líkamann, velgja og verkur í augnlokum og gagnaugum. Er samt svo létt, seinasta andvökunóttin yfir bókum liðin. Ég er með svo hræðilega hræðilega óheilnæma námstækni. Geri allt þvert á það sem Johny Moe og Silla stuð ráðleggja í upphafi hverrar próftíðar. Nei, ég vakna ekki snemma og læri á morgnana, nei ég hreyfi mig ekki, nei, ég get ekki sagt að ég borði eitthvað svakalega hollt. Þvert á móti vafra ég um allan daginn og bíð þar til að prófskapið kikkar inn, það gerist yfirleitt um 10-leytið á kvöldin. Þá taka við nokkrir klukkutímar sem fara í að læra heilan áfanga frá grunni. Flott Kristín, gott þetta, og endilega ekki læra af mistökunum. Neinei, gerðu þetta bara alltaf svona, eins til þriggja tími svefn fyrir próf er meira en nóg.

Þrátt fyrir þessar vafasömu aðferðafræði og hræðilega ástundun í vetur komu prófin furðuvel út. Íþróttir eru ekki fag, svo það skiptir engu máli hvað maður fær í einkunn þar. Skólasókn fellur undir sama hatt. Mín venjulega átta í ensku og næstumþvíhefðbundna sjöa í þýsku komu, það var bara eins og við var að búast. Átta í tjáningu, hresst, hress áfangi. 9 í fjölmiðlafræði, heimspeki og íslensku. Eiginlega stoltust af tveimur síðastnefndu fögunum, enda ekki léttustu próf sem ég hef farið í. Síðan var seinasta einkunnin að síga inn, 8 í sálfræði sem ég svaf ekki dúr fyrir í nótt. Jess!

Í ljósi þess að próftíðinni er formlega lokið hjá mér held ég að það sé við hæfi að leggja land undir fót og hrista hversdagsleikann upp. Þegar ég er búin að laga til, fara í sturtu og pakka mun ég halda til höfuðborgarinnar með Ottó, bróður hans og föður. Þar er m.a. planað að knúsa litla frændur í Hafnarfirði, finna kjól fyrir útskriftina og fara á Roger Waters í lok ferðarinnar. Já, lífið er svo sannarlega ljúft.

Þakkir fyrir próftíðina fær Gitta fyrir að vera sérlegur allnighter félagi.