17.7.06

Sjallallallala ævintýrin enn gerast...

Ég fór í enn eina Reykjavíkurferðina á fimmtudaginn. Skellti mér á HÍF fund sem gekk ofsalega vel. Hagsmunaráðið sendi frá sér fjölmiðlatilkynningu eftir fundinn, þar sem kom fram að framhaldsskólanemendur eru ánægðir með þann árangur sem mótmælin hafa skilað og að menntamálaráðherra virðist vera að færa sig frá áformum sínum um skerðingu náms til stúdentsprófs. Engu að síður viljum við fá nákvæmari útlistun á því hvernig nýja kerfið á að virka og við krefjumst þess einnig að vera þátttakendur í þróun kerfisins. Næsti fundur verður svo í næstu viku, þetta er fróðlegt allt saman.

Ég og Nína vorum búnar að ákveða að gista saman, en vissum ekkert endilega alveg hvar. Nína lofaði mér ævintýrum, sem ég fékk. Kvöldið var skemmtilegt, byrjaði á Njálsgötunni og þaðan fórum við Nína, Ari, Arnar Ari og Erla á Barinn. Þegar tók að líða á nóttina var stefnan tekin heim til Ara. Áður en þangað kom lentum við samt kannski í eina alvöru ævintýri þessa kvölds. Það var magnað og ég er enn bólgin og marin á fótunum eftir það og skórnir mínir allir út í for. Nóttinni eyddum við svo fjögur saman í ekki svo stóru rúmi. Kósý. Því oftar sem ég fer suður, því betur líkar mér að vera í borginni. Ég hlakka eiginlega mjög til að búa þar, einhvern tíman í náinni framtíð.

Talandi um nána framtíð, þá spáði vinnufélagi minn fyrir mér í kvöld. Hún las í spil og sá í þeim óvænta peninga, heppni, góðan starfsferil að loknum skóla, sjálfstæði, forystuhæfileika, gáfur, mann sem er ör og á erfitt með að klára hluti sem hann byrjar á, hjónaband/sambúð og ofsalega mikla ást. Það vantaði ekkert nema ferðalög og þá hefði formúlan verið fullkomin, haha. Örlög smjörsög.

Annars er ég búin að vera með skrýtinn fiðring í maganum seinustu misseri. Það er eins og ég sé alltaf ástfangin, en þó ekki af neinum sérstökum. Það er bara yfirleitt allt einhvern veginn svo stórmerkilegt og ótrúlegt og skærlitað og frábært. Lífið. Eða eitthvað... æ emo Kristín. En alveg eins og ég get verið ástfangin af einhverju sem ég get ekki sett fingur á, get ég líka farið í ástarsorg. Það gerðist í gær, ekki hef ég hugmynd um afhverju. En þá dugði ekkert annað en nammi uppúr brúnum bréfpoka og Jerry Maguire uppí rúmi. Þessi athöfn varð reyndar bara til að staðfesta hvað mér finnst Tom Cruise pirrandi og eiginlega bara pínu glataður gaur, og að hlaup með chilli bragði er ekki góð nýsköpun á sælgætismarkaðnum.

Æi blö, það er langt liðið á nótt. Ég held það sé ráð fyrir mig að hætta að skrifa og fara frekar að hressa upp á ljóðakunnáttu mína. Vinkona mín á tíræðisaldrinum í vinnunni er nefnilega mjög sátt við mig þessa dagana, þegar ég þyl upp allt sem ég kann eftir Davíð Stefánsson, Tómas Guðmundsson og Jónas Hallgrímsson. Á móti kennir hún mér vísur eftir Ólöfu á Hlöðum. (Gæti ég elskað elló meira?) Nú er hún þess fullviss að ég eigi eftir að eignast góðan mann sem vill mig skilyrðislaust. Auðvitað efast ég ekkert um það, ekki ljúga spilin...

8 Comments:

Blogger elfa said...

já reykjavík kemur vel fram við mann, alltafm jafnvel þó það rigni

9:45 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Elló er staðurinn til að lifa! haha!
Ætti ég að sleppa danmörku og veðja á reykjavík!?
Ef við förum ekki að hittast bráðum gleymi ég hvernig hárið á þér er á litinn!

10:18 f.h.  
Blogger Erla Elíasdóttir said...

rispur og marblettir og hæðarvíma og sinadráttur... aftur?

2:59 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ohh ohh... Mig skortir orð.

11:05 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

kannski ertu bara orðin svona grunnþarfamanneskja eins og ég:) ekki? nei? ok!

4:19 e.h.  
Blogger Ari said...

Eiginlega er ég það besta sem hefur komið fyrir þig.

5:24 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

ég hata tomm krús og ég elska nammi í brúnum bréfpoka! lífið.

10:43 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Við erum greinilega borgardætur í hjartanu Elfa.

Úff Olga, DK vs RKV (svöl). Það er spurning! Hárið á mér fer að gleyma hvernig þú ert á litinn... eða eitthvað, hittumst.

Haha ég var búin að gleyma sinadrættinum! Já, ég er til hvenær sem er.

Hví skortir þig orð Erla mín?

Haha Ragga mín! Kannski.

Alltaf hittir þú naglann á höfuðið Ari.

Ó lífið Dagný, lífið.

2:12 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home