27.10.06

Ég ætlaði að skrifa um eitthvað málefnalegt, eins og um gagnrýna og hlutlausa umfjöllun í fjölmiðlum eða hvalveiðarnar. Öll mín aukaorka þessa dagana fer hinsvegar í "égeraðverðatuttuguára-hvaðáégaðgeraviðlífmitt" tilvistarkreppuna sem ég er föst í. Auk þess að vinna úr því sem ég sjálf vil, þarf ég að takast á við (oft og tíðum óraunhæfar, óþarfar og kjánalegar) kröfur annarra. Það er einhvern veginn meira en ég þoli akkúrat núna.

Staðreyndin er sú að ég er ótrúlega viðkvæm fyrir gagnrýni og hef alltaf verið. (Einn af mínum stærri göllum. Eða persónueinkennum, eftir því hvernig maður lítur á málið). Þegar ég fæ á mig gagnrýni, sérstaklega frá fólki sem ég virði og elska, þá fer hún beint í hjartað. Ég verð alltaf eins og snúið roð í lengri tíma á meðan hjartað vinnur úr aðfinnslunum. Það líður líka oftast langur tími þar til þær komast upp í heilann, og geta hugsanlega umbreyst í eitthvað gagnlegt. Þangað til eru þær algjörlega tilgangslausar og liggja eins og mara á brjóstinu á mér.

Sumir myndu kalla þá gagnrýni, sem ég er að vísa í, umhyggjusemi. Það er hinsvegar ekki alltaf gott að segja hvar umhyggjan endar og afskiptasemin byrjar.

Púff.

Ég held að núna þurfi ég að skríða ofan í holu í dálitla stund og meta hlutina fyrir sjálfa mig. Það er engin þörf á umhyggjusömum/afskiptasömum vinum/ættingjum sem ætla að "beina mér á réttari braut" eða benda mér á ótal "betri" leiðir til að lifa lífinu. Ósanngjarnar væntingar frá öðru fólki eru vinsamlegast afþakkaðar. Ég vænti alveg nógu mikils af sjálfri mér, þó að aðrir fari ekki að krukka í höfðinu á mér.

Annars held ég að ég hafi það bara fínt, svona að mestu leyti. Fyrir utan pirringinn og einbeitingarleysið og ruglinginn og sárindin. Næst á listanum er að læra að brynja mig betur og loka eyrunum þegar það á við.

Ég efast um að nokkur maður hafi fundið samhengi eða lesið eitthvað af viti úr þessari færslu. Mér er eiginlega alveg sama. Ég vil þó taka fram að með þessu er ég ekki að halda því fram að ég sé hafin yfir alla gagnrýni. Ætli gagnkvæm virðing sé ekki lykillinn, og að þekkja sín mörk?

Æi, takið þessu eins og þið viljið - góða nótt eða eitthvað...

2 Comments:

Blogger Hildigunnur said...

Bið að heilsa í heimspekideildina, stattu á þínu svo lengi sem þú veist af hverju það er þitt. Knús.

12:11 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

mér þykir það skemmtilega leiðinlegt að vita hvað þú ert að tala um.

12:56 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home