28.8.06

Afi var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri í gærmorgun. Hann hafði verið í fullu fjöri í sveitinni, en hneig skyndilega niður og lamaðist hægra megin. Það var talið að hann væri með blóðtappa í heila. Þegar þetta gerðist var ég að leggja af stað suður með Kristjáni. Þar sem við vonuðum að tappinn væri ekki mjög alvarlegur ákvað ég að halda mínu striki, stefndi á gleðskap í Borgarnesi og Búlgaríuferð. Eftir sneiðmyndatöku kom fljótt í ljós að afi ætti ekki langt eftir, hann var með heilablæðingu og þá stærstu sem læknirinn hafði séð á mynd. Systur mömmu lögðu strax af stað norður, ég fór út í Bifröst og til baka með frænkunum. Húnavatnssýslurnar hafa aldrei verið verið svona langar. Þrátt fyrir það komumst við seint og um síðir á sjúkrahúsið, í tæka tíð til að kveðja. Afi var þá meðvitundarlaus, og smátt og smátt dró af honum. Það var gott að vera saman og vera hjá honum þegar hann fór, en erfitt. Það var kannski erfiðast að Axel gat ekki verið hjá okkur, hann kemur heim á miðvikudaginn.

Ég var í Keldudal á hverju sumri frá fimm ára til sextán ára aldurs. Ég ólst því að miklu leyti hjá afa og ömmu, og það er fjársjóður sem ekki verður tekinn frá mér. Það er ótrúlega erfitt að ímynda sér Keldudal án afa. Höfuð fjölskyldunnar er farið, hver á að skipuleggja allar veislurnar og benda á rollurnar í réttunum? Æ svo margar minningar, ég er skrýtin í höfðinu. Við Axel standandi á pallinum á fjórhjólinu, hoppandi af til að færa fyrir eða opna hlið. Afi að gera grín að mér í verstu gelgjuköstunum og segja mér að ég fengi ekki háan dóm fyrir geðslag, væri ég hryssa á kynbótasýningu. Þrátt fyrir gelgjuna var ég samt alltaf glöð þegar hann bauð mér á sveitaböllin, og svindlaði mér jafnvel inn. "Hún er með mér" rumdi í honum þegar hann bauð mér á Laufskálaréttarballið og ég var spurð um skilríki. Það voru fáir sem þorðu að andmæla afa, svo inn fór ég og dansaði nokkra dansa við gamla.

Kistulagningin verður á föstudaginn og útförin á laugardaginn. Ég vil ekki missa af henni og verð því bara aðra vikuna úti í Búlgaríu. Nú er ég orðin dauðþreytt og veit ekki sérlega margt, ætla að leggja mig.

5 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Samhryggist þér Kristín mín.

3:13 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

elsku kristín, ég samhryggist.

5:10 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég samhryggist þér innilega, Kristín Helga.

9:49 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Elsku kerlingin mín, samúðarkveðjur og tuttugu faðmlög úr útlandinu.

1:13 f.h.  
Blogger kristin said...

Takk stelpur.

2:06 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home