8.8.06

Verslunarmannahelgin rann sitt skeið á enda, eins og helgar vilja oft gera, svona almennt. Á sunnudaginn ætlaði ég aldeilis að láta undan fordómum mínum og fór sko niður í bæ og stefndi í Sjallann. Ætli það hafi ekki einhver forsjón stýrt því að uppselt var í sjálfstæðishúsið (eða þá bara mannfjöldinn) og því lá leið mín á Karó. Það var gott að vera í öruggu umhverfi og hanga með skemmtilegu fólki í hæfilega litlum troðningi. Ævintýragjarna Kristín.

Lágpunktur helgarinnar var hvorki ælupestin sem hrjáði mig, né morgunvaktirnar. Ónei, hann var þegar ég þurfti að taka strætó heim eftir vinnu. Ég hoppaði bara upp í næsta vagn, enda hef ég aldrei nennt að lesa leiðarkerfi strætós á Akureyri. Þeir fara hvorteðer allir uppi í Giljahverfi á endanum. Ég heyrði vagnsstjórann reyndar tala um að hann færi fyrst einhvern hring á brekkuna, en ég taldi mig vel brynjaða ipodnum mínum og var með Þórberg að lesa svo ég var ekkert að bíða eftir næsta. Þegar bílstjórinn var um það bil að leggja af stað streymdu inn nokkrir unglingar.

(Nú legg ég sömu merkingu í orðið "unglingar" og ég gerði þegar ég var 7 ára og las Fúsa Froskagleypi. "Unglingar" eru stórhættuleg fyrirbæri og ég hef alltaf verið smeyk við þá eftir afgerandi persónusköpun Ole Lund Kirkegaard).

Þessir unglingar voru á að giska 14 vetra, illa lyktandi og stelpurnar stífmálaðar í kringum augun. Þeir voru sex talsins og kynjahlutfallið var jafnt. Settust þeir beint fyrir aftan mig, og ég bjóst til að teygja mig í headphonin mín um leið og bílsstjórinn gaf í. Komst ég þá, mér til mikillar skelfingar, í raun um að ég hafði gleymt heyrnartólunum heima. Ég tók til við að fletta Ofvitanum, en hávært spjall krakkanna hindraði alla einbeitingu. Þá var fátt annað að gera en að hlusta á þá.

Á þessum 20 mínútum sem ég sat i strætónum ásamt ungmennunum, varð ég margs vísari um hvernig helgin þeirra hefði verið. Þau rifjuðu upp gærkvöldið hvort fyrir annað, sitt á hvað, þar til heildræn mynd fékkst á það. Þetta voru tappar, og voru enn ímyndunarfull kl. hálffimm um daginn. Þessvegna tók púsluspil minninganna dágóðan tíma og krafðist mikilla endurtekninga. Hresst hresst. Þegar ein pirruð Kelga steig út úr strætónum í Huldugilinu var hún alveg með á hreinu hvar Gunni hafði brotið símann sinn, hvort það var áður eða eftir að Stebbi reið Lísu sem að Óli, Geir og Aldís drápust undir kirkjutröppunum og að lyktin af Tobbu væri sko landalykt, ekki vodkalykt.

Ekki misskilja mig samt, ég var í raun ekki pirruð yfir dvínandi möguleikum æsku landsins eða afskiptaleysi foreldra, eins og svo margt fólk er. (Gjarnan komið yfir miðjan aldur). Ónei, bjánahrollurinn sem fyllti mig fór meira í taugarnar á mér heldur en brostnar hugmyndir mínar um fjölskyldulíf fermingarbarna. Það sem olli hrollinum var þessi yfirgnæfandi fullvissa unglinganna um að þau væru svöl. Að svona væri ógeðslega flott að vera og hver sem héldi öðru fram væri annaðhvort gamall eða fáviti. Þessi uppreisnarandi sem reynir að gægjast fram úr gelgjubólunum og óörygginu, oj þetta verður svo ógeðslegur kokteill.

Ég held að í raun hafi ég að mestu fengið bjánahroll yfir sjálfri mér. Ég gerði mér nefnilega grein fyrir, að þó ég hefði ekki verið "svona" unglingur og hefði t.d. aldrei verið hleypt á útihátíðir, að þá var ég kannski litlu skárri. (Jú, kannski smá skárri, en samt). Altsvo, þegar kom að stælum, tappalátum og einhverri breiðslu yfir óöryggið. Gelgjutímabilið er versta tímabil í ævi minni, so far, og ég vil aldrei vera minnt á það hvernig þessi ár voru.

(Þó að Davíð Stefánsson sé einn af mínum uppáhalds mönnum og að Yngismey sé fallegt ljóð, þá er ljóst að hann hefur aldrei verið fjórtán ára stelpa. Þetta setti ég í sviga því að ég held að fáir átti sig á þessari tengingu nema elliheimilisvinir mínir).

Úff púff, ég er búin að sitja við skrifborðið í 5 tíma. Ég ætlaði í upphafi að undirbúa smá stjórnarfund sem verður annað kvöld. Þessi undirbúningur endaði með nákvæmri fjárhagsáætlun fyrir árshátíðina (það eru jú bara 4 mánuðir í hana), nokkuð nákvæmri atburðadagskrá fyrir haustönn 2006 og grófri fjárhagsáætlun fyrir allt stjórnarárið. Nú er ég grafin undir reiknivélum, stílabókum, möppum, dagbókum og dagatölum. Ef þið viljið vita hvenær líklegt getur talist að söngsalurinn í nóvember verði, þá bjallið þið bara. Ég gat varla slitið mig frá þessu svo ég ákvað að skrifa hér nokkrar línur. Nú get ég ekki hætt því, en ætla að neyða mig í sturtu. Morgunvakt á morgun, vei!
Manísk Kristín kveður.

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

engin stjórn er betri en einræðisstjórn herra Shröder;)

10:47 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hættu að vera svona snobbuð maður...landi er góður.
Ég fór óvart að horfa á Mr.Bean í pilsi í sjónvarpinu þannig að ég man ekki hvað ég ætlaði að segja meir.

8:08 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hahaha! Blessað ungviðið, þetta er framtíðin. Hlakka mikið til að fara á Karó avec toi, sjúgar. Mundu eftir varalitnum. Bjóddu vinum þínum (ekki vinum þínum úr strætó samt).

11:24 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

ég var ein af strætógenginu.

7:53 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home