4.1.06

Í þessu jólafríi hefur mér, með mikilli einurð, dugnaði og elju, tekist að safna meira spiki en áður hefur gerst. Vil ég óska sjálfri mér til hamingju með það. Nú er ég að hugsa um hvaða verðlaun hæfi þessum frábæra árangri, kannski ætti ég að taka sykur/ger/hveiti kúrinn skemmtilega upp aftur? Tjah, maður skyldi þó aldrei gera það. Hreyfing? Einhver með tillögur?

Lýsing á ástandi mínu seinustu daga (og líklega næstu, allavega í próftíðinni):

Fatnaður: Samanstendur af ömmunærbuxum (eða því sem næst), náttbuxum, þunnum sokkum, þykkum ullarsokkum utanyfir, íþróttatopp, slitnum afa-langermabol og flíspeysu ef mér er kalt. Sumsagt; mikið lagt upp úr að fötin undirstriki kynþokka minn og bara yndisþokka yfir höfuð.

Annað sem viðkemur útliti: Úfið hár (þó alltaf hreint), sem gjarnan er klesst upp í kamb. Skjannahvítur húðlitur. Fölari en áður hefur sést. Andlitsfarði kemur helst ekki nálægt fésinu á mér.

Staða: Liggjandi uppi í rúmi undir þykkri sæng með hrúgu af koddum undir hausnum og einn undir vinstri fætinum.

Aktiviteter: Lesa bækur. Ágætlega mikið af bókum, fjórarkommasex bækur. En alls ekki námsbækur, þær hafa ekki verið snertar. Í lestrarhléum; fara á netið, horfa á bíómyndir, borða, sofa.

Ó ljúfa líf, eins og Ellý og Villi sungu forðum. Held að þetta ástand muni haldast næsta hálfa mánuðinn eða svo, nema að ég verð að finna það í mér að taka upp námsbækurnar. Annað gengur ekki. Þangað til að prófunum er lokið munu því allar skáldsögur faldar á heimilinu. Held að mamma sé nú þegar að gera ráðstafanir, hún sér yfirleitt um svoleiðislagað.

Ég var að koma af King Kong, fór með Röggu og Arnari. Arnar hló að okkur Röggu því við lágum í sætunum og ég grúfði hausinn á mér ofan í úlpuna mína í nokkrum (mörgum) atriðum. Kristín Ljónshjarta.
Mér líkaði myndin, ég elska Peter Jackson. Ég elska hvað hann hefur gaman af því að ganga alltaf lengra með atriðin og tæknibrellurnar, það sést í myndunum hans. Ég elska ást hans á ógeðslegum verum, þrátt fyrir að ég geti ekki alltaf horft á þær. Mér finnst skrýtið hvað mér finnst mikið til hans koma, myndirnar hans falla ekki að afgangnum af kvikmyndasmekk mínum. Kannski afþví ég verð alltaf eins og spenntur, skefldur og glaður krakki þegar ég horfi á þær. Nú er ég farin að svefnröfla, afsakið.

Foreldrarnir, iðjuþjálfinn og dýralæknirinn, kváðu upp dóm sinn í kvöld. Annaðhvort illa marin á beinhimnunni eða með brákaða rist. Heppin. Þetta jafnar sig samt fljótt, gerði það allavega seinast. Þá steig fimmhundruð kílóa belja ofan á mig af öllum kröftum og stappaði. Kósý.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home