2.1.06

Nú árið er liðið í aldanna skaut, og aldrei það kemur til baka... Jájá. Það var gaman á gamlárskvöld, við eyddum fyrri hluta þess hjá Góu frænku og hennar fjölskyldu. Fjölskyldan hennar inniheldur tvo stráka, annan þriggja ára og hinn fimm. Þeim þótti að sjálfsögðu mjög gaman að öllum sprengjunum. Ég fékk hjartaáfall þegar að ég sá þá hlaupa um með stærstu flugelda sem ég hef séð, öskrandi "sjáðu hvað ég fann!". Æ, samt krútt. Bara hættuleg krútt.

Síðan lá leið okkar Dagnýjar, Olgu, Helgu frönsku og Ingu Völu til Bjarkar þar sem var glatt á hjalla. Við sátum inni í stofunni og töluðum, hver ofan í aðra og hlógum. Það var mjög gaman og góð byrjun á góðu ári. (Vonandi).

Næst var það Sjallinn, held að hálfur bærinn hafi verið þar. Ótrúlega gaman að hitta allt þetta fólk og knúsa það. Palli var að sjálfsögðu hress, sérstaklega þegar hann skipaði fólkinu að hoppa upp í loft. Júlíus tók skipunum hans mjög alvarlega og byrjaði að stökkva. Þessi flugferð hans endaði á fætinum á mér, núna er litla táin fjórföld og ég er stokkbólgin á fætinum. Flott hjá Júlíusi, fyrst að marið á hendinni eftir hann var horfið ákvað hann að finna nýjan höggstað á mér. Haha. Æ ég nenni ekki að segja meira frá kvöldinu, þetta var bara frábært og fólk er frábært.

Gærdagurinn fór svo í svefn, át og ógleði. Í þessari röð.

Seinasta ár hefur einkennst af meira álagi en áður hefur verið, en einnig meiri skemmtun. Miklar sviptingar og breytingar og stjórnarstúss og glimmerdjömm og stelpukvöld og allskyns sem var ekki partur af minu lífi fyrr árið 2005. Uppgjör:

Erfiðast ársins: Árshátíðin. Tók á.

Mest gefandi ársins: Árshátíðin. Svo ótrúlegt eftir á séð.

Ferðalag ársins: Ferðin til Tallinn með mömmu, pabba og Axel. Tallinn er frábær borg, þau eru frábært fólk.

Sjokk ársins: Þegar ég vaknaði við að læðan min var að gjóta í fangið á mér.

Gleði ársins: Að eiga kettlinga.

Söknuður ársins: Allir kettlingarnir.

Dagar ársins: Þeir dagar þegar Dagur frændi var í pössun hjá okkur í sumar.

Leiðinlegast ársins: Þessar tvær vikur sem ég eyddi í einangrun í kofa í Mývatnssveit við að þrífa Spánverjaælu og hland. Oj, svo leiðinlegur tími!

Móment ársins: Þegar pabbi birtist með bátinn okkar í eftirdragi einn dag eftir vinnu í Mývatnssveit. Hann ákvað að létta mér lífið og við fórum í frábæru veðri út á Mývatn. Það var ótrúlegt, hann tók með ferðagrill og við fórum upp í eina eyjuna og ætluðum að borða. Við ákváðum þó að flýja áður en mýið át okkur og enduðum á því að grilla í bátnum, úti á miðju vatni. Þar tróð pabbi í mig pylsum og hrefnukjöti, hráu jafnt sem steiktu. Namm. Himbriminn fylgdist með okkur allan tímann.

Fyndnast ársins: Þverslaufu-ævintýrið hennar Gittu.

Tónleikar ársins: Sigur Rós, bersýnilega.

Afrek ársins: Að lifa tvo mánuði af án þess að borða nokkurn sykur, ger eða hveiti.

Klúður ársins: Að fá 6,5+ á munnlegu þýskuprófi. Djöfull.

Sigur ársins: Þegar ég, Siggi Óli, Jón Steinn, Hólmar og Jón Björn unnum í jólaþýskuverkefninu. Humm... kannski frekar að vinna stjórnarkosningarnar? Veit ekki.

Sveittasta djamm ársins: Trabant.

Fag ársins: Íslenska, ótrúlegt en satt.

Skelfing ársins: Þegar ég svaf heila nótt með þröst inni í herberginu mínu og vaknaði við að hann flaug eins og þyrla yfir höfðinu á mér. Andlegt atgervi mitt bíður þess ekki bætur.

Samstaða ársins: Vel heppnaður fundur um samræmd próf og frábær þátttaka Menntskælinga i mótmælunum.

Boð ársins: Teboðið góða og víðfræga.

Undur ársins: Bjartsýnislampinn sem ég sit í akkúrat núna.

Nú dettur mér hreinlega ekkert meira í hug. það eru ótal menn og konur ársins í mínu lífi, mér finnst ekki ástæða til að telja ykkur upp. Þið vitið vonandi hver þið eruð.

Vill einhver koma með mér í bíó á Narniu í kvöld? Ég kláraði bókina í gær.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home