31.1.06

Mamma á afmæli. Klukkan er örugglega að verða fjögur að morgni, og ég áttaði mig á því að ég átti eftir að pakka geisladisknum hennar inn. Gjafapappírinn er geymdur niðri í svefnherbergi hjá mömmu og pabba. Í stað þess að vekja þau til að ná í pappír brá ég á það ráð að búa hann til sjálf, eins og ég gerði stundum þegar ég var lítil. Ég tók smjörpappír og þrjá sanseraða tréliti. Með þeim litaði ég misstóra fleti með gylltum, fjólubláum og grænum. Pakkinn varð fallegur, þrátt fyrir að ég hafi ekki fundið límband. Ég litaði eins og barn, hratt, fast, ójafnt og útfyrir. Ég fékk nostalgíukast og það rifjuðust upp fyrir mér furðulegir hlutir sem tengdust öllum þeim litum sem ég hef átt um ævina. Hvernig ég merkti þá í skólanum, hvernig ég safnaði vaxlitum í gamlan Mackintosh dunk, hvað það var pirrandi þegar blýið brotnaði í yddaranum, hvaða pennaveski ég notaði undir þá.
Ég fékk tár í augun og fór að kjökra. Ég vil ekki fullorðnast. Ég hræðist það. Þegar Dagný talar um hvað hún eigi að velja handa Olgu í tvítugsafmælisgjöf svitna ég á hryggnum og fæ klígjutilfinningu. Pant aldrei að þurfa að taka ábyrgð á meiru en ketti.

Ég skynja sterka niðursveiflu á leiðinni. Eins gott að eyða dágóðri stund í bjartsýnisófreskjulampanum á morgun.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að ég tek frekar mark á því sem manneskja sem ég virði ekki fyrir fimmaur segir slæma hluti um mig, við mig, heldur en þegar fólk sem ég elska, virði og treysti segir fallega hluti um mig, við mig? Það er eitt það heimskulegasta sem ég veit. Hvernig stendur á því að það situr það í mér þegar manneskja sem er á fáan hátt virðingarverð segir að ég sé fráhrindandi og nastý tussa, en þegar vinur minn segir eitthvað fallegt við mig hristi ég hrósyrðin af mér eins og gæs vatni? Það er ekki heil brú í þessu. Þar sem mér finnst farsælast að byggja líf mitt á því sem er rökrétt, hef ég ákveðið að breyta um stefnu í þessum efnum. Þegar einhver segir slæma hluti um mig eða við mig ætla ég að taka það til greina og vega og meta hvort eitthvað sé til í því. Það er hverjum manni hollt að endurskoða sjálfan sig og sína hegðun. Hinsvegar ætla ég að byrja að taka a.m.k. fjörtíu prósent af hrósyrðum til mín. Segja takk og meina það.

Þá er það ákveðið.

Ég keypti þrjá geisladiska handa sjálfri mér á útsölu í dag. Meðal þeirra var diskurinn Extraordinary Machine með Fionu Apple. Þetta er frábær diskur, falleg rödd, góð tónlist, ótrúlegir textar. Hún syngur um líf mitt, það er ég viss um.
Veruleikafirrta Kristín, nýbúin að tala um hversu rökréttu lífi hún vill lifa.

Everything good, I deem to be too good to be true.
Everything else is just a bore.
Everything I have to look forward to
has a pretty painful and very imposing before.

Eru tilfinningar til annars en að bera þær á borð?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home