5.11.06

Menntamál eru mér hugleikin þessa dagana. Ef að lífið væri Disney-mynd, fengi ég brjálaðan vísindamann (leikinn af Robin Williams) til að koma mér tímabundið fyrir í líkama Þorgerðar Katrínar. Ég ætla að gefa sjálfri mér, sem menntamálaráðherra, hálfan mánuð til að toga í nógu marga spotta til að breytingar verði á. Þetta myndi ég vilja gera á fjórtán dögum:

-Ákvæði um að “börnum skuli inrætt kristilegt siðgæði” yrði fellt úr námsskrá á fyrsta degi.

-Ég myndi taka fyrir öll afskipti þjóðkirkjunnar af skólunum, á öllum stigum. Þetta hefði það í för með sér að hvorki leikskólabörn né grunnskólabörn færu í messur á skólatíma. Það myndi ekki líðast að börn væru látin fara með morgunbænir eða að þau þurfi að standa fyrir framan bekk og kennara og verja trú sína, eða trúleysi. Fráleitt yrði að fermingarfræðsla væri sett inn í stundartöflu barna og prestar kæmu inn í skóla til að kynna fermingarfræðsluna. “Vinaleiðin” væri sömuleiðis úr sögunni – prestar og djáknar væru ekki gjaldgengir starfsmenn í skólum, eða fengju leyfi til að hafa aðstöðu innan veggja þeirra. Djáknar mættu ekki ganga inn í tíma og kalla nemendur í viðtal til sín án vitundar foreldra.

-Trúabragðafræðsla yrði aukin til muna, sérstaklega með tilliti til þess fjölmenningasamfélags sem Ísland er orðið. Lögð er áhersla á að kennsla og námsefni sé hlutlaus, og að trúarlegt uppeldi liggi alltaf á herðum foreldra. Skólinn á ekki að sjá um trúarlega innrætingu.

-Samræmd próf í grunnskólum yrðu endurskoðuð alvarlega. Málið sett í nefnd!

-Starfsnámi yrði gert hærra undir höfði. Stefna yrði sett um að hætta eigi að beina öllum beint í bóknámsskólana, frekar á að horfa til þarfa hvers og eins. Mín skoðun er sú að brottfall úr framhaldsskólum megi að stórum hluta skýra með því hversu margir eru sendir í bóknám, án þess að hafa forsendur til að læra það, eða hafa áhuga á því. Hætt væri við að loka öllum starfsnámsdeildum sem væru með færri en 18 nemendur. Þetta væri gert bæði með landsbyggðarstefnu og atvinnulífið í huga. Það er óásættanlegt að flestar starfsnámsdeildir verði einungis á höfuðborgarsvæðinu og það vantar gott iðnaðarfólk á Íslandi!

-Tafarlaust væri fallið frá áformum um styttingu náms til stúdentprófs. Hætt væri við skerðingu á námi og einhliða styttingaráformum, þar sem ekki er horft til þarfa einstaklinga. Þess í stað yrði litið til nýrrar starfsnámsskýrslu og stefnt að því að tillögur sem þar koma fram nái fram að ganga. Þetta hefði það í för með sér að hver og einn getur fengið nám við sitt hæfi og valið þá áfanga sem nýtast honum best í áframhaldandi námi. Meiri ábyrgð og frelsi yrði sett á herðar skólameistara, og það er skólanna sjálfra að búa til námsframboð fyrir nemendur. Tengsl milli atvinnulífs, háskóla og framhaldsskóla munu aukast. Hver nemandi fengi meiri og markvissari námsráðgjöf en áður og getur lokið stúdentsprófi á tveimur, þremur, fjórum eða fimm árum - allt eftir því hvað hann vill mennta sig mikið og á hve löngum tíma. Þetta myndi líka gera iðnnámsnemum auðveldara fyrir að útskrifast með stúdentspróf.

-Það eru ótal ástæður fyrir því að styttingin er verri heldur en nýja skýrslan og ætla ég að hætta að telja þær upp.

-Ég myndi fá Robin Williams til að breyta Hildigunni Þórs í fjármálaráðherra. Þegar það væri búið og gert, semdi ég við hana um að auka fé til menntamála verulega. Horft væri til Norðurlandanna, nemendur myndu hætta að þurfa að kaupa bækur úr eigin vasa og fengju styrki. Ég tel nefnilega að það sé önnur ástæða fyrir því að brottfall sé mikið á Íslandi en sú að nám til stúdentprófs sé langt. Fjárhagur ungmenna spilar þar stóra rullu að mínu mati. Lagt yrði beint fé í menntun og það væri tekið upp styrkjakerfi áþekkt því sem er í Danmörku.

Ef að öll þessi mál kæmust í réttan farveg á fjórtán dögum held ég að ég mætti vel við una. Ljúft er að láta sig dreyma...

14 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég mundi alveg mjög gjarnan vilja ala upp mín börn í landi þar sem þú værir menntamálaráðherra! Gæti ekki verið meira sammála þér, og þá sérstaklega þáttunum sem snúa að kristnivæðingu í grunnskólum og svo að styðja við bakið á iðnnámi. Það er ekki til sú heiðarleg starfsgrein sem verðskuldar ekki að vera unnin af dugnaði og virðingu, svo viðhorfinu "þú munt aldrei verða neitt ef þú kannt ekki stærðfræði o.s.frv" mætti gjarnan verða útrýmt sem fyrst.

12:03 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Djöfull var þetta gott blogg.

Kristínu Helgu á þing!

6:08 e.h.  
Blogger Stefanía said...

Sounds very good to me.

Ég held satt að segja að Steinunn hafi hitt naglann á höfuðið.
Ég kýs þig í 1. sæti á prófkjöri þegar þú býður þig fram Kristín Helga.

11:47 f.h.  
Blogger elfa said...

pant kjósa þig!

12:33 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Nú er ég sko ánægð með þig :)

2:11 e.h.  
Blogger Erla Elíasdóttir said...

Jamm, sammála þér, og hinum.

5:29 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég verð stundum orðlaus eftir að hafa lesið bloggið þitt.

8:21 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Haha, takk fyrir traustið stelpur. (Ætli engir kallar séu sammála mér... hmm). Eins og ég hef samt margoft sagt fer ég aldrei á þing. (Fyrir hvaða flokk líka?) Hehe Erla (litla): Ástæðan fyrir því að þú verður stundum orðlaus er sú að ég tala svo óóóógeðslega mikið!

10:53 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Þarft ekki að fara á þing en hljómar Stúdentaráð ekki vel eftir rúmt ár?

12:14 f.h.  
Blogger Nína said...

þú veist hvað mér finnst :)

12:34 f.h.  
Blogger Nína said...

Hey,
mig langar að koma að því sama og þú skrifaðir um mig á mitt blogg.

Hvaða lag minnir á þig?
Mörg Sigurrósarlög, örugglega Sæglópur fyrst og fremst.
Hvaða bók minnir á þig?
Góði dátinn sömuleiðis :D
Hvaða matur minnir á þig?
Súkkulaðikaka Conans :)
Hvað vantar þig mest í heiminum?
Völd!!

8:43 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ansi massað blogg. Þurfti að lesa það tvisvar. Kærar þakkir fyrir að vera svona klár. Veit samt ekki alllveg hvort ég myndi meika það í fjármálaráðuneytinu, spurning um að útnefna einhvern með snefil af peningaviti. :) Knús.

11:21 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Æ, ekki plata mig í stúdentaráð Óli. Ég ætla ekkert að gera nema læra, sofa og borða næsta vetur! (Spurning hvort það gangi...)

Já Nína, ég veit hvað þér finnst :) Krútt.

Takk Hilda. Kommon, þú gætir alveg verið fjármálaráðherra í tvær vikur, örugglega ekkert mál. Haha.

12:23 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ef ég væri þú myndi ég kynna mér málin áður en þú gasprar um þau í fáfræði

3:33 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home