9.1.06

Hah, það er best að finna lélegar afsakanir til að læra ekki. Líka lélega hluti til að stytta sér stundir. Ekki er svo verra þegar maður nær að sameina þetta tvennt. Samansafn af svoleiðis:

- Að blogga og lesa annarra manna blogg. Því finnst mér það vera samfélagsleg skylda menntskælinga, og annarra, að blogga mjög mikið á meðan prófum stendur. Takk.

- Að verðlauna sjálfa mig með skáldsögulestri. Dæmi: "Ég las eina bls. í þýsku og get því lesið einn kafla í Stormi eftir Einar Kárason." Góð röksemdafærsla, góð bók.

- Að horfa á hvað sem er á RÚV. Til dæmis heimildamynd um stóra málverkafölsunarmálið. Mæli þó sérstaklega og eindregið með Vestfjarðavíkingnum. En fyndið og vonlaust sjónvarpsefni!
Samúel þarna að blaðra: "Hann heldur áfram, þrátt fyrir að slái í harðbakkann. Enda ekki að ástæðulausu sem maðurinn er kallaður "Trukkurinn". Þvílík seigla... Nei heyrðu, þarna hleypur hann skyndilega í burtu, fer út í vegkant og kastar upp." Frábært. Svo eru alltaf viðtöl við gæjana tveimur sekúndum eftir að þeir klára einhverja þraut og því eru þeir alltaf másandi og blásandi þegar þeir segja hrottabrandarana sína. Hrehrehre. (Hápunktinum var þó náð þegar þeir kepptu í sundlaug og sigurvegarinn fór upp á bakka í minnstu Speedo sundskýlu sem ég hef séð. 200 kg. gripurinn. Grrr.)

- Fara í bað. Ég er hreinasta kona á Íslandi, það bara hlýtur að vera. Sérstaklega mæli ég með svona "allsherjar böðum." Jafnvel um miðjar nætur. "Allsherjar böð" fela yfirleitt í sér að nuddið sé sett á, búbblur ofan í baðið og máske kertaljós. Síðan má draga með sér alla þá skrúbba, þvottapoka, andlitsmaska, sjampó, kornakrem, sápur, hárnæringar, djúpnæringar, og bara hvað það sem hugurinn girnist, ofan í baðið. Sérstaklega er gott að enda seremóníuna á að smyrja á sig kremi, wagoon-pakka sér svo í bómullarnáttföt og fara undir sæng. (Tek ég þá að sjálfsögðu til við próflestur!)

- Skoða hinn lífsnauðsynlega tölvupóst reglulega og tala við fólk á MSN. Bara svona rétt til að bera saman námsefnið sem maður er að fara yfir...

- Fara á rúntinn. Já, ég hef gert meira að því seinustu daga en allt seinasta ár, svei mér. Fór í ansi góða ferð með Arnari, Ásgeiri og Dagnýju í gær. Strákarnir voru hrottar og við Dagný sykurpíur, vorum með gloss og sungum með effemm. Reyndar villtist Ásgeti eitthvað í hlutverkinu sínu þegar ég setti á hann gloss. Arnar gat ekki lengur tekið hann alvarlega og þeir hættu að "bonda". Sjitt.
Mamma spurði mig áður en ég fór út hvað ég væri að fara að gera, með hverjum og hvað ég yrði lengi. Ég svaraði því til að ég væri að fara að keyra með krökkunum. Ekki var hún allskostar sátt við það og sagði mér að koma ekki seint heim "því próftíðin væri að hefjast, unga dama!" Ég sagði henni þá að ég væri að fara með Arnari og Ásgeiri og við ætluðum að læra í sögu. Kom þá annað hljóð í mína, kemur sér aldeilis vel að eiga vin í Gettu betur!
Rúnturinn varð þó afar fróðlegur, sérstaklega þar sem nú vitum við hvar allt skyldfólk Arnars á heima (eða bara allir þeir sem hann hefur nokkurntíman hitt), að faðir Karlamagnúsar hét Pípínn litli (haha!) og að Íslendingar drekktu biskupi einum, eins og kettlingi í poka, alls fyrir löngu.

Jæja, ætla að lesa eina bls. í þýsku svo ég komist nú eitthvað áfram í Stormi.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home