19.2.06

Jæja jæja. Helgin að renna skeið sitt á enda og allt í volli... Eða svona.

Ég eyddi megninu af deginum í að skipuleggja mótmæli, semja ræðu, ályktun og skrifa fjölmiðlum með Ottó. Töff? Ég veit. Það verða sumsagt brjáluð mótmæli á miðvikudaginn þar sem nemendur MA munu leggja niður nám í einn dag, það eru 20% af skólavikunni, en menntamálaráðherra hyggst skera svo stóran hluta af námstíma til stúdentprófs. Skiljiði?

Ég þoli hinsvegar ekki að vera svona málefnaleg í þetta langan tíma, heilinn á mér steikist og ég er allt í einu eins og sprungin blaðra. Nenni ekkert að læra, hver hefur líka tíma fyrir þannig?

Það var brjálað stjórnarfjör í gær, við hittumst heima hjá Eddu og horfðum á Silvíu Nótt með fríðum hópi fólks. Eftir að Silvía hvarf af skjánum tók við myndasýning í boði frú Eddu. Það var frábært, ég var alltaf eins og þrolli, myndast svona sérlega illa. Skemmtilegt partýtrikk að súma inn á mig í gríð og erg, það vakti lukku. Hinar sígildu brjóstaumræður komu upp, það eru eintómir perrar í þessari stjórn, það er bersýnilegt. Krútt samt, perrakrútt.

Allt í einu nennti ég ekki að hugsa um og reyna að skilja hvernig mannskepnan hugsar og hagar sér og ákvað þá að skella mér loksins á mörgæsamyndina. Olga og Dagný féllust á að fara með mér og hvílík skemmtun. Ótrúleg mynd, gott að kúpla sig úr öllu í einn og hálfan tíma og lifa sig inn í líf þessara ótrúlegu vera. Ég held að það sé afar langt síðan ég skældi yfir bíómynd en það gerðist í kvöld. Mörgæsir og menn hafa sömu frumhvatir og líka tilfinningar. Æhj nóg um þessa mynd, farið þið á hana, þið hafið gott af því.

Nú er ég búin að innbyrða óleyfilega mikið magn af súkkulaði, ég kenni konudeginum alfarið um það. Það var samt kósý að vakna við pabba þegar hann kom inn með vönd af fallegustu, appelsínugulustu túlípönum í heimi og súkkulaði. Konudagurinn fellur betur í kramið hjá mér en valentínusardagurinn, það eitt er víst.

Jæja nóg af röfli. Látið í ykkur heyra, bæði á mótmælunum og í kommentakerfinu!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home