31.12.07

Ógod. Sit hér inni í herbergi, umkringd fatahrúgum og veit ekkert í minn haus. Hvernig pakkar maður niður fyrir hálfs árs ferðalag?

Annars vonast ég til að sjá sem flesta í kvöld og nótt, það er gaman að geta sagt bless. Ég lofa að fara ekki að grenja. Lofa allavega að gera mitt besta!

Þetta verður seinasta færslan á þessu bloggi í bili, nú er ég alfarið flutt á www.reisubok.blogg.is. Það væri gaman ef að þið skrifið athugasemdir þar næsta hálfa árið.

Gleðilegt ár!

24.12.07

Risavaxna, fjögurra metra háa furan skreytt, allt að verða hreint og fínt, búin að baka sex sortir, pakka inn öllum jólagjöfum og senda öll heimaföndruðu jólakortin! Svona jól, eða öllu heldur jólaundirbúning, mun ég örugglega ekki eiga lengi. Á næstu árum mun aðventan líklega fara að mestu leyti í prófaundirbúning en ekki jússuköst og jólalög.

Jólin mega sumsagt alveg koma. Reyndar ætlar pabbi að fresta þeim líkt og Castro gerði á Kúbu, forðum daga. Þar sem að fjölskyldan mín er krúttleg ætlar hún að bíða með að taka upp jólagjafirnar þar til ég kem heim af vakt - kl. 23. Þetta verða án efa sérstök jól, að vera með gamla fólkinu en iss þetta verður fínt!

Ég óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Takk fyrir liðið.

E.s. Móment kvöldsins: Pabbi skautaði inn í eldhús, tók létt balletspor, fraus í dramatískri stellingu og söng: „Það er byrjað að snjóóóa!“ Selurinn.

E.s. Mæli með www.reisubok.blogg.is

6.12.07

Hóhó.

Ég er á fullu að skipuleggja Amnesty bréfamaraþon sem haldið verður nk. laugardag. Það verður í Akureyrarakademíunni og fólki er frjálst að líta inn milli 13 og 17 og stoppa eins lengi og það vill. Bæði er hægt að kvitta á þartilgerð póstkort og senda bréf frá eigin brjósti. Það verða leiðbeiningar á staðnum fyrir bréfaskriftirnar, tilvalið að koma sér inn í starfið. Nýir Amnesty félagar eru velkomnir og jólaandi mun ríkja, kakó, kaffi, smákökur, jólatónlist og jólakort Amnesty til sölu. Það má endilega líta inn, þó það væri ekki nema til að kíkja á mitt fagra fés, fá sér smáköku og kvitta á tvö kort! Ókeypis jólaskemmtun og gott að gefa af sér fyrir hátíðarnar. Akureyrarakademían er gamli húsmæðraskólinn við Þórunnarstræti.

Í dag er eitt ár síðan við Ottó urðum kæróhommar og í tilefni þess er ég sprengsödd. Takk Greifinn.

Pabbi er hugsanlega besti og mest utanviðsig maður sem ég veit um. Seinast í gær kallaði hann Ottó „Anton“. Eitt ár sko... og hálft undir hans þaki. Dæs.

Stutt í þetta skiptið.