21.12.06

Kósýheit...

Jólafríið byrjar vel, fyrir utan kvef og hálsbólgu. Það tekur því þó ekki að væla um svoleiðis lagað. Sit við eldhúsborðið, nýbúin að klára fimm diska safn jólalaga Sufjan Stevens. Rótsterkt kaffi með jólasmákökum fór vel með tónlistinni. Á milli þess sem ég les mér til um Ísrael-Palestínu og skoða fréttir af aurskriðum, flóðum og láti Túrkmenbashi (ég er sjokkeruð yfir þeim fregnum) haka ég við einstaklinga í exel skjali og fletti einum og einum upp í símaskrá. Ætli Ottó sé ekki eini 18 ára drengurinn sem að sendir 45 jólakort, setur viðtakendur upp í lista í exel skjali (litskreyttu) og semur frumsamda vísu í kortin? Sjálf sendi ég engin jólakort... Leti.

Æi það er samt gott að vera aðeins löt. Jólafríið verður nýtt í að hlaða batteríin umfram annað. Ég geri ekki miklar væntingar til afkasta í námi, betra að vera raunsæ. Það er þó full þörf á því að glugga í bækur í einhverjum fögum og ætli ég reyni ekki að vinna í blessaðri ritgerðinni í fríinu. Fór á fyrsta fund með Sigurði Ólafssyni á þriðjudaginn og honum leist svona ansi vel á þetta hjá mér, það fyllti mig a.m.k. vinnugleði.

Oh mig langar að stinga negulnöglum í appelsínur. Held ég geri það í kvöld.

Þar sem ég sendi engin jólakort vil ég óska öllum ættingjum, vinum og kunningjum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Takk fyrir samverustundir á árinu sem er að líða.

Kristín Helga.

12.12.06

Ég er pínulítið tvískiptur persónuleiki í dag.

Fór til læknis áðan og það fyrsta sem hann spurði mig að var: „Ertu nokkuð barnshafandi?“ „NEI!“ (Fráleit hugmynd að öllu leyti).

Þegar ég kom heim biðu mín þau mestu kósýheit sem ég hefði getað ímyndað mér. Elsku amma með akrakossa, rúsínukökur, kaffi og nýjasta frænda minn, átta vikna gamlan. Leifur Hlér og ég smullum samstundis saman og þar sem hann kúrði eins og grjónapúði í fanginu á mér og slefaði á peysuna mína heyrðist hringlið. Haha, óttist þó eigi - þrátt fyrir skyndilegan eggjastokkasöng held ég að barneignir megi bíða í svona 8-10 ár enn.

Núna sit ég í Kvosinni og hlæ að tjah... ekki vitlausum kannski, en mistækum exurum sem reiknuðu eitthvað skakkt út og gerðu of stóran jólapóstkassa í ár. Greyin. Ég verð bara meiri jólagaur með hverju snjókorni sem fellur og hverjum deginum sem líður að fríi. Fékk líka að vita í dag að þær í Isabellu vilja fá mig og ég hlakka til að leiðbeina ráðvilltum kærustum og eiginmönnum í nærfataleit ásamt Þórnýju.

Kannski ég sletti málningu á pappakassa...? Nei, ég hlæ frekar meira að exurunum. Það er skemmtilegra.

10.12.06

Ég skal líka taka það fram, hélt Kleanþes áfram, að trúarlega röksemdin styrkist fremur en veikist af efahyggjunni, sem þú hefur svo miklar mætur á, og verður fastari í sessi og óumdeildari. Að girða fyrir röksemdir eða rökleiðslu að öllu tæi er annaðhvort látalæti eða vitfirring. Yfirlýst hlutverk allra skynsamra efamanna er einungis að vísa á bug torráðnum, langsóttum og hárfínum rökfærslum; að halda fast við hyggjuvit og umbúðalausar eðlishvatir, en veita samþykki sitt, hvar sem rök reynast svo máttug, að þeir geta ekki vikizt undan þeim nema með því að ganga fram af sér. Nú eru rökin fyrir náttúrlegum trúarbrögðum greinilega af þessu tæi, og ekkert getur vísað þeim á bug nema rangsnúnasta og þverúðarfyllsta frumspeki.

Hume á hug minn allan þessa dagana. Enda kominn tími til.

5.12.06

Það er stutt umfjöllun og viðtal við mig um árshátíðina í Morgunblaðinu í dag. Hún er á Akureyrarsíðunni og fréttinni fylgir mynd af gullfallegu bekkjarsystrum mínum, Anítu og Röggu Sigurðar. Vei!

Ég held hreinlega að ég verði að panta tíma hjá lækni einu sinni enn. Þetta er algjörlega óskiljanlegt og hundleiðinlegt. En ég er að komast í jólaskap sem er bæði sérstakt og skemmtileg. Undanfarin ár hef ég verið hálfgerður jólatrölli, allavega ekkert jólabarn. Núna langar mig helst að setja upp seríur, skreyta piparkökur og gera laufabrauð. Merkilegt.

Í tilefni af jólaskapinu gerði ég jólagjafalista:

-Búsáhöld. Jebb, þið lásuð rétt. Ég hef hugsað mér að flytja að heiman næsta haust og þá er líklega gott að eiga eitthvað annað til búsins en fondue-pott, kökuföt, hnífapör og nokkrar Múmínálfakönnur. Ég verð mjög glöð ef að í pökkunum leynast falleg glös, teflon panna, pottur, sleifar, diskar, skálar eða eitthvað annað praktískt.

- Ullarsokka, vettlinga, náttföt og þessháttar kósýheit er alltaf gaman að fá. Green tea kremið frá Elizabeth Arden flokkast klárlega undir kósýheit. Já og góð tónlist og góðar bíómyndir.

-Bækur eru alltaf efstar á óskalistanum. Hér er smá listi yfir bækur sem mig vantar/langar í. Listinn er í stafrófsröð og náttúrulega ekki tæmandi...

Að hugsa á íslenzku - Þorsteinn Gylfason
Aldingarðurinn - Ólafur Jóhann Ólafsson
Birtíngur - Voltaire
Bláa bókin - Ludwig Wittgenstein
Bréf til Láru - Þórbergur Þórðarsson
Dáið er alt án drauma og fleiri kvæði - Halldór Laxness
Forspjall að frumspeki - Immanuel Kant
Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni - Immanuel Kant
Íslenskt orðtakasafn - Halldór Halldórsson
Íslenzkur aðall - Þórbergur Þórðarsson
Ljóðaperlur - Jónas Hallgrímsson
Ljóðasafn Steins Steinarrs
Rannsókn á skilningsgáfunni - David Hume
Siðfræði - Páll Skúlason
Svartar fjaðrir - Davíð Stefánsson
The God Delusion - Richard Dawkins
Upp á Sigurhæðir - Þórunn Erla Valdimarsdóttir
Uppruni tegundanna - Charles Darwin

Fræ og Lay Low á föstudaginn...

3.12.06

Ræða inspectrix scholae á árshátíð MA 2006:

Ágætu nemendur, kennarar og aðrir hátíðargestir.

Nú er fyrsti desember runninn upp og sagan endurtekur sig. Nemendur Menntaskólans á Akureyri taka sig saman og skipuleggja árshátíð MA, 900 manna veislu – stærstu vímuefnalausu hátíð landsins, eins og ekkert sé. Öll framkvæmd hennar sýnir glögglega hversu samheldinn og metnaðarfullur hópur menntskælingar eru. Hátíð sem þessi væri ekki möguleg nema að allir legðust á eitt. Hver og einn nemandi hefur fengið hlutverk í undirbúningi hennar og það virðist vera sem það skipti ekki máli hvort að fólk pússi hnífapör eða æfi stórt tónlistaratriði, allt er gert með brosi á vör.
Félagsstarf nemenda einkennist iðulega af metnaði og fjölbreytileika og engin undantekning er á því í ár. Kvöldvökur og aðrar uppákomur hafa verið afar vel sóttar af nemendum. Við höfum tvívegis sungið á sal undir styrkri stjórn nýs konsertmeistara, Axels Inga Árnasonar. Stemningin fyrir því að halda söngsal heldur áfram að vera góð og það er ljóst að þessi hefð á ekki eftir að deyja út á næstunni.
Félög hafa verið virk í starfi sínu, stór sem smá. Muninn.is hefur hafið flug sitt á ný eftir að gamla síðan gaf upp öndina og vex nú stöðugt ásmegin. Það er langt síðan að Íþróttafélagið hefur verið jafn virkt og það er nú. Stjórn ÍMA hefur staðið fyrir ótal bekksagnamótum og stefnir á að krýna Íþróttarameistara MA í vor. PríMA hefur haldið námskeið og sér til þess að fólk fái færi á að læra undirstöðuatriðin í allskyns dönsum, allt frá argentískum tangó til hip hop dansa. Kórinn hefur fengið nýjan kórstjóra til liðs við sig og krakkarnir munu halda jólatónleika sína í næstu viku. Leikfélagið gerði garðinn frægan þegar lið þess lenti í öðru sæti í spunaskepninni Leiktu betur. Við megum vera stolt af þeim árangri og það er alltaf gaman þegar að hróður Menntaskólans berst út fyrir bæjarmörkin. Í ár áttum við einnig afar frambærilegt og sterkt ræðulið og getum við öll verið stolt af framkomu þess þegar að við tókum á móti liði Verzló í Kvosinni. HomMA, heimspeki- og menningafélag MA skipulagði Dag íslenskrar tungu í ár og þá kom í ljós hversu marga sterka íslenskumenn við eigum í okkar röðum. MyMA krakkarnir halda áfram að tengja snúrur fyrir okkur og brasa í myndbandagerð. Þau standa einnig vaktina hér í kvöld. Nokkur ný og fersk félög á borð við OlMA, PrestMA og KvikMA voru stofnuð í ár og ég gæti svo sem eytt kvöldinu í að telja upp öll undirfélög Hugins, þrjátíu talsins, og lýst starfsemi þeirra. Það er ánægjulegt hversu stór hluti nemenda tekur þátt í félagastarfinu, það er ekki síðra nám en bóknámið að mínu mati.

Í vetur hef ég átt í miklu samstarfi við formenn annarra nemendafélaga þar sem ég sit í Hagsmunaráði íslenskra framhaldsskólanema. Auk þess sem við sitjum formlega fundi og berjumst fyrir sameiginlegum hagsmunum nemenda skiptumst við oft á sögum og ráðum. Þegar ég segi þessum ágætu krökkum frá því að yfirleitt mæti í kringum 600 manns á kvöldvökurnar okkar, að allt sé áfengislaust, við þurfum ekki að hafa áhyggjur af drykkju nemenda á böllum og í ferðalögum og að við göngum ekki um á útiskóm í skólanum - bæta þau iðulega við í hæðnistóni að það sé nú líka alltaf sól á Akureyri. Ég er ekki tekin trúanleg nema upp að ákveðnu marki.
Það er hollt að bera sig saman við aðra endrum og eins. Með heilbrigðum samanburði getum við bæði lært af öðrum og miðlað reynslu. Það sem mér finnst kannski mikilvægast er að með því að miða okkur við aðra skóla gerum við okkur betur grein fyrir því hver við erum og fyrir hvað við stöndum.
Eftir að hafa átt í þessum samskiptum hefur nokkuð runnið upp fyrir mér. Nokkuð sem ég gerði mér ekki fulla grein fyrir áður. Við í Menntaskólanum á Akureyri eigum eitthvað sérstakt, einhvern einstakan anda sem að ríkir aðeins hér. Ef ég ætti að lýsa honum koma orðin; samheldni, metnaður, kraftur og mannvirðing sterkt upp í hugann. Ég held að þið getið öll verið sammála mér um að við eigum að varðveita þennan anda og vera stolt af honum.

Það er eitt mál sem hefur verið mér afar hugleikið undanfarið, en það er lýðræði í skólakerfinu. Ég hef velt því fyrir mér hvort að nægilegt lýðræði ríki, nemendur eru í meirihluta þeirra sem kerfið snertir en hvað fá þeir að segja mikið um það? Fáum við einhverju um það breytt hversu langar kennslustundir eru, hvaða námsbækur við notum eða hvaða aðferðum kennarar beita við kennslu? Ættum við að fá einhverju um þessa hluti, og aðra enn mikilvægari, ráðið?
Að mínu mati hefur orðið vakning hjá nemendum undanfarin þrjú ár. Þegar að stjórnvöld ætluðu allt í einu að gjörbreyta menntakerfinu að nemendum forspurðum stóð okkur ekki á sama. Þegar að við ákváðum að láta rödd okkar heyrast og mótmæla því að fá ekki að hafa áhrif á mál sem varðaði okkur, sást vel hversu öflugt afl við erum ef við stöndum saman. Samræmd próf voru tekin úr umferð eftir að nemendur ýmist skiluðu próförkunum auðum eða gengu skrefinu lengra, eins og MA-ingar, og sniðgengu hreinlega prófin. Einnig lítur út fyrir að horfið hafi verið frá einhliða styttingu náms til stúdentprófs og er það trú mín að skoðanir og viðbrögð nemenda spili þar sterkt inn í.
Við þurfum að halda áfram að vera vakandi fyrir umhverfi okkar og láta skoðanir okkar í ljós. Kerfið á ekki að vera rammi, ekki eitthvað þungt bákn sem við verðum að berjast í gegnum án þess að fá nokkru breytt. Við ættum að móta kerfið og hafa áhrif á það. Við erum menntakerfið, án okkar væri ekkert kerfi. Við höfum sannað það fyrir sjálfum okkur og öðrum að ef við erum vakandi og látum okkur málin varða getum við haft áhrif.

Kæru samnemendur. Davíð Stefánsson vissi hvað hann var að fara þegar hann samdi ljóðið við skólasönginn okkar. Hann vissi hvað býr í menntskælingum og ég veit það líka. Við skulum halda áfram að sýna það að afl og andi eigi skóla Norðanlands.

Takk fyrir.

Svo mörg voru þau orð. Árshátíðin heppnaðist frábærlega. Allt frá skemmtiatriðum, borðhaldi og til ballsins... Ah þetta var svo frábært kvöld. Ég náði að slaka ótrúlega vel á, enda var engin ástæða til að stressa sig. Það var gott fólk í hverju horni. Stelpurnar voru glæsilegar í þjóðbúningnum - og strákarnir ekki síðri. Ég skil ekki hvernig ég stóð enn í lappirnar kl. 6 á laugardagsmorgun eftir að við vorum búin að ganga frá. Ég svaf í tvo tíma nóttina áður og dansaði svo allan tímann við Jagúar, í þjóðbúningnum sem er erfiðara en í gallabuxum og bol. Haha, vá þetta var svo gaman.

Vandræðalega móment kvöldsins var klárlega eftir að ég hafði klárað að flytja ræðuna mína. Ég sé útundan mér að Jón Már stendur frá borðinu sínu og skundar í átt að mínu. Einhvern veginn ákvað ég samt bara að hann væri á leiðinni á baðherbergið. Ég veit ekki fyrr en þessi stóri maður ætlar að kippa mér upp úr sætinu mínu. Gott og vel, hefði glöð skotist upp úr því nema hvað að ég flækti mig í pilsinu. Tvisvar! Það leit því út fyrir að ég væri að streitast rosalega mikið á móti því að standa á fætur, haha. Hefði kannski ekki orðið jafn vandræðalegt ef að Sigga Ásta hefði ekki hreinlega kafnað úr hlátri fyrir aftan mig. Loksins komst ég á fætur og fékk þá stærsta knús sem ég hef fengið - bókstaflega því þetta er jú stærsti maður sem hefur knúsað mig. Haha... æ ég var rauð í framan það sem eftir var borðhalds.

Skringilegt að þessi stærsti atburður skólaársins sé búinn. Nú tekur við verkefnavinna þar sem kennarar taka þessari fjarveru minni og slæmum skilum á verkefnum misvel. Dálítið erfitt að skilja hvað fer fram bakvið tjöldin og hvað það þarf til að skipuleggja félagslífið í þessum skóla. Sumir hafa í hótunum... Fjárans.

Kelga.