26.6.04

Ó svo leið

Er fyrir sunnan, ein í húsi fyrir utan Mist (köttur) og hef ekkert gáfulegra að gera en að blogga. Kosningavökuna ætla ég ekki að horfa á, það þjónar afar litlum tilgangi að mínu mati - spennan er í lágmarki.
Auk þess finnst mér þetta allt hálfgerðar tuskur á einn eða annan hátt sem eru að bjóða sig fram. Skila auðu segi ég.

Það er helst í fréttum að ég er orðin svo mikil efnishyggjumanneskja að ég hef óbeit á mér. Ég vinn eins og geðsjúklingur þar sem mér var tjáð að ég ræð eigin fríum.
Að sjálfsögðu tek ég mér nánast ekkert frí þar sem mig vantar pening til að kaupa eftirfarandi: iPod, Levi´s buxur, nærföt, gjafir og að seinustu: Myndavél.
Já, ég og Helgi erum að spá í að kaupa okkur myndavél saman!
Ábyrgðartilfinning hellist yfir mig. Mér líður eins og við eigum von á okkar fyrsta barni.
Jedúddamía.

Það sem er verra er að ég er orðin svo mikil efnishyggja að ég tími ekki að kaupa mér neitt af þessu. Ég þarf jú að hugsa um framtíðina, spara mér fyrir bíl, íbúð, námi... !

Hugsa ég of mikið?

23.6.04

Satans tuðruspark

Ég man þá tíð þegar þeir sem hafa áhuga á iðju þeirri er nefnist fótbolti gátu keypt sér áskrift af útsendingu slíkra leikja. Ég man þá tíð þegar fréttirnar voru á réttum tíma.
Ég man þá tíð þegar maður slapp nokkuð vel við að borga afnotagjald af svo einskisnýtu og óáhugaverðu sjónvarpsefni.

Nú er sú tíð runnin upp að brotið er á afnotagjaldsgreiðendum með því að einskorða allt sjónvarpsefni við ákveðinn markhóp. Sjónvarp allra landsmanna - rass.
Það sem verra er að nú er þessi satans íþrótt farin að dreifa sér á nær allar stöðvar, innan skamms byrjar Skjár 1 að myndvarpa ensku tuðrunni.
Hvernig væri að ein sjónvarpsstöð sæji um allar slíkar útsendingar og yrði þá öflug stöð fyrir þá sem hafa áhuga á að horfa á 22 sveitta karlmenn elta einn skitinn bolta í nokkurn tíma á óguðlegum launum?

Ykkur finnst þetta kannski eigingjörn færsla antisportista en hey, ég er að hugsa um velferð sjónvarpskartaflanna! Ef að allir leikirnir væru á einni stöð myndu þær spara sér mikla fyrirhöfn með því að þurfa ekki að hreyfa fingurinn á fjarstýringunni öllum stundum.

21.6.04

Törn

Bloggleysið undanfarið ætla ég að afsaka með vinnutörninni sem hefur staðið yfir nánast óslitið frá próflokum. Ég komst að því í dag að þessi "törn" mun vara í allt sumar.

Ég tók mér nú samt frí 16. og 17. til að vera við útskriftina.
Mikil gleði, ótrúlega flott að sjá þau dansa með hvítu kollana niðrí bæ í kvöldsól og skítakulda.

Að lokum: Why should Saddam Hussein be a busdriver in Iceland?

15.6.04

Are you going to Varmahlíð?

Jæja, ég er vinnandi manneskja,laus úr viðjum skólastarfs.

Starf: Bílfreyja.
Starfslýsing: Stúlka sem sér um að taka við miðum og peningum rútufarþega og sjá til þess að enginn verði eftir á stoppistöðvum.
Starfið felur í sér eftirfarandi: Steikjandi hita, bílþreytu, misfyndna bílstjóra, misringluð gamalmenni, misskelkuð börn og mishrokafulla miðaldra. Það má svo auðvitað ekki gleyma mismiklu skipulagi, misgóðum mat í Staðarskála og mispirrandi flugum í hári og rúðum.

Þrátt fyrir þessa misgáfulegu upptalningu er þetta ótrúlega skemmtileg vinna og þenkjandi. Þenkjandi segi ég, því sjaldan hef ég skrifað jafn margar smásögur, lesið jafn margar bækur og séð jafn ólíkar persónur á jafn stuttum tíma. Maður verður jú að hafa eitthvað að gera á milli þess sem maður brosir, telur fólk og tekur við gjaldmiðli.
Ég gleymdi reyndar manneskju í Borgarnesi í dag. Það var svekkelsi en reddaðist.


Stoppað í Staðarskála

Ég horfi á:

Svefndrukkið par kyssast í brekkunni.

Lítinn strák sem rígheldur í stóra bróður og biður mann hikandi að gleyma sér ekki.

Gamlan mann sem kaupir sér ástarpung og nýmjólk í lítilli fernu sér til hressingar.

Þýska bræður sem neyða mann til að tala þeirra göfuga tungumál og þykjast skilja mann af góðmennsku einni.

Sjóndöpur hjón sem rífast um stund um merkin á hurðunum.
Hann endar inni á konuklósettinu og hún á karla.

Finnska stelpu sem ætlar sér að vinna í sveit, fulla af eftirvæntingu og ranghugmyndum um skemmtanalíf í Þingeyjarsýslu. Ég hef ekki hjarta í mér til að leiðrétta hana.

13.6.04

Andleysi

Þreytt, svo þreytt.
Og já, doppurnar eru horfnar.

10.6.04

Samúð

Maður finnur til með eistunum sem lentu í hundskjafti þegar pabbi kemur heim með seðlabúnt í hendi og húsið fyllist af joðlykt.
Vorið er komið og geltir folar með.

Fegurð

Það dansaði gull á gólfinu hjá mér í kvöld og þakti skjáinn sem sýndi mér amerískt plastlíf.
Ég elska kvöldsól.

9.6.04

Varúð

Fékk svohljóðandi sms frá Birgittu Borgnesingi í gær:

Nýjustu fréttir herma að Jóhann Lind Ringsted hafi fengið vinnu í útibúi Dominos á Akureyri. Vinsamlegast verslið við Greifann eða Sprettinn í sumar!

Hvet ég alla til að hugleiða þessi skilaboð, því eins og allir vita er GtA manneskja sem mark er takandi á...

6.6.04

Lífið er rass

Lífið er rass þessa dagana. Langar að skríða undir feld.
Hversu langsótt er það að bera einkunnirnar manns við frænku manns frænku minnar sem fær hæst af öllum í öllu og er með að minnsta kosti 3 tíur?
Ekki nógu langsótt til þess að frænka mín sofi ekki á næturnar yfir því að ég komist ekki inn í háskóla.. halló!
Gaman að þurfa að útskýra fyrir öllum að maður sé bara ekkert nógu gáfaður til að fá hærra, minnimáttarkennd dauðans. Ég hef samt ekki fallið í neinu ennþá, náði meira að segja stærðfræðinni en það fellur í skuggann af því að frænka manns frænku minnar fékk sko 10 bæði í 103 og 203!
Þetta er einstaklega bitur færsla en ég er líka einstaklega bitur.
Gleði dagsins var að finna hvítar, ótrúlega fyndnar, Aladínbuxur sem mamma átti.

Langar mest til að gefa skít í allt og fara að smala kindum á Nýja Sjálandi...
Bæn

Góði Guð.
Ég veit að ég er hvorki skírð né fermd og er ekki í þeirri kirkju sem kennd er við þjóð en mig langar að biðja þig um greiða engu að síður.
Viltu plís hjálpa Hhelgu að komast inn í MH?
Og svona smá spurning í lokin: Er barnatrú ekki bara jafngóð eða betri en stofnanatrú?
Takk Guð.

1.6.04

Tilgangsleysi

Í gær var ég klóruð og blaut.
Til þess eins að kötturinn hlypi, nýbaðaður, í blómabeðið og velti sér uppúr moldinni.