27.2.06

Ég hef látið undan þrýstingi og er orðin geispeis gella. Ég sem ætlaði aldrei að fá mér svona. Veikgeðja Kelga.

Helgin var furðugóð. Það er alltaf gott að hafa litlar væntingar, þær voru í lágmarki þessa helgina því svo margir eru fyrir sunnan. Laugardagurinn var hress þar sem að sumir áttu góð móment, aðrir ekki eins góð. (Eða jafnvel bara hræðileg móment sem entust allt kvöldið).

Ég get svo svarið það að strax eftir að sprengidagurinn er yfirstaðinn þá neyðist ég til að sýna smá sjálfsaga. Nú er þriðji í bolludegi hjá mér og ég er gjörsamlega að springa. Boðið í gær var sérdeilis notalegt, þrátt fyrir þynnku hjá flestum viðstöddum. Við létum það þó ekki aftra okkur í átinu; Arna, Arnar, Ellen, Elsa, Gitta, Sólveig, Ragga, Hjalti og Guðni, takk kærlega fyrir komuna.

Það er ekki laust við að það sé smá spenningur í mér fyrir Gettu betur á fimmtudaginn. Já, þetta verður skemmtileg ferð og fullt af fólki er búið að skrá sig í rúturnar.

Annars er nóg í deiglunni, fyrrnefnd GB ferð, söngkeppnin, karla- og kvennakvöld og ég veit ekki hvað og hvað. Ég elska að hafa svona mikið að gera. (Ekki kaldhæðni, þrátt fyrir að ég skrifi það í kaldhæðnissviga, eða þið skiljið).

So long, farvel, auf wiedersehen, good bye.
(Sound of music, þið þarna úti sem eruð ekki hommar).

25.2.06

Þetta
er sérdeilis hresst. Eða svona.

Þorgerður Katrín lét undan með samræmdu prófin. Það er frábært, vonandi brýtur hún odd af oflæti sínu þegar kemur að styttingunni líka.

Ég fór á árshátíð VMA í gær, okkur í stjórninni var auðvitað boðið. Við Arnar fámenntum á staðinn, þar sem afgangur stjórnarinnar er fyrir sunnan eða á Dalvík. Ragga var fyrirmyndar deit, saman vorum við Dorrit forsetafrú; ég púllaði silkið og Ragga sá um sjalið. Arnar og Gitta voru líka gott "par", sem heimspekingurinn með trefilinn og glysrokkarinn GtA.
Annars var þetta bara frekar hresst, rosalega ólíkt MA árshátíðinni en mjög gaman. Kíktum svo eitthvað smá á ballið, það var frekar gelt svo að við fórum bara snemma heim að sofa.

Geðveik saga, þegiðu.

Ahh... ég nenni engu og samt svo mikið að gera. Aumingi.

Á morgun er hið árlega bolludagsboð, ég hlakka til þess. Nammi bollur já.

Ehh... bless.

22.2.06

Spennufall og sprungin blaðra enn á ný.

Þetta tókst samt vel, það er frábært og mikið er ég fegin.

Búlgaría? Jey!

21.2.06

Neineineineineinei... Nei!

Núna þarf ég knús, klapp á öxl og túrbótíma í bjartsýnislampanum! Þessi dagur er búinn að vera með þeim alverstu. Ekki einusinni skemmtilega atvikið í tjáningu eða stelpustundin áðan geta tosað hann upp.

Túrverkir, stressandi bras í kringum ráðuneyti og fjölmiðla, þreyta, fólk sem er ekki sátt við mótmælin, tilfinningavaggogvelta, áfengisútskriftarmálið mikla, ítrekaðar tilraunir til félagslegs sjálfsvígs, slæmar fréttir, "Must love dogs", tvöfalt siðgæði og hræsnarar á hverju horni, enginn lærdómur og svo þarf dagurinn að enda á þessu:

George W. Bush Bandaríkjaforseti varaði við því í dag að þörf Bandaríkjamanna á olíu frá öðrum ríkjum, sem eru óvinveitt Bandaríkjunum, hafi tekið landið í gíslingu og hvatti hann til þess að ný kjarnorkuver verði reist fyrir árið 2010.

„Sumar þeirra þjóða sem við reiðum okkur á að fá olíu frá eru með óstöðugar ríkisstjórnir, eða þá að það sé grundvallar skoðanamunur á milli þeirra og Bandaríkjanna,“ sagði Bush á meðan hann var í heimsókn í Milwaukee í Bandaríkjunum í dag. Hann nefndi þó engar af þeim þjóðum á nafn sem hann átti við.

„Þessar þjóðir vita að við þurfum olíuna þeirra og það dregur úr áhrifum. Það varðar við þjóðaröryggi þegar við erum haldin í orkugíslingu af erlendum þjóðum sem líkar ekki við okkur,“ sagði Bush.

Bush vísaði til dæma í Frakklandi, Kína og í Indlandi og hrinti af stað verkefni upp á 1,1 milljarð dollara sem á að stuðla að byggingu nýrra kjarnorkuvera. Bandaríkin hafa ekki ráðist í slíkar framkvæmdir frá því á áttunda áratug seinustu aldar.

„Við ættum að byrja á því að byggja ný orkuver á nýjan leik. Ég tel að það sé skynsamlegt. Tæknin eru orðin þannig að við getum gert það og sagt við bandarísku þjóðina að þau eru örugg og mikilvæg,“ sagði Bush.

-Tekið af mbl.is

Þetta er kirsuberið á rjómatoppi dagsins.


Nú ætla ég að grafa mig sem snöggvast ofan í holu og hlusta á Micah P Hinson til að grenja við. Væl? Mér er sama, fokkjú.

19.2.06

Jæja jæja. Helgin að renna skeið sitt á enda og allt í volli... Eða svona.

Ég eyddi megninu af deginum í að skipuleggja mótmæli, semja ræðu, ályktun og skrifa fjölmiðlum með Ottó. Töff? Ég veit. Það verða sumsagt brjáluð mótmæli á miðvikudaginn þar sem nemendur MA munu leggja niður nám í einn dag, það eru 20% af skólavikunni, en menntamálaráðherra hyggst skera svo stóran hluta af námstíma til stúdentprófs. Skiljiði?

Ég þoli hinsvegar ekki að vera svona málefnaleg í þetta langan tíma, heilinn á mér steikist og ég er allt í einu eins og sprungin blaðra. Nenni ekkert að læra, hver hefur líka tíma fyrir þannig?

Það var brjálað stjórnarfjör í gær, við hittumst heima hjá Eddu og horfðum á Silvíu Nótt með fríðum hópi fólks. Eftir að Silvía hvarf af skjánum tók við myndasýning í boði frú Eddu. Það var frábært, ég var alltaf eins og þrolli, myndast svona sérlega illa. Skemmtilegt partýtrikk að súma inn á mig í gríð og erg, það vakti lukku. Hinar sígildu brjóstaumræður komu upp, það eru eintómir perrar í þessari stjórn, það er bersýnilegt. Krútt samt, perrakrútt.

Allt í einu nennti ég ekki að hugsa um og reyna að skilja hvernig mannskepnan hugsar og hagar sér og ákvað þá að skella mér loksins á mörgæsamyndina. Olga og Dagný féllust á að fara með mér og hvílík skemmtun. Ótrúleg mynd, gott að kúpla sig úr öllu í einn og hálfan tíma og lifa sig inn í líf þessara ótrúlegu vera. Ég held að það sé afar langt síðan ég skældi yfir bíómynd en það gerðist í kvöld. Mörgæsir og menn hafa sömu frumhvatir og líka tilfinningar. Æhj nóg um þessa mynd, farið þið á hana, þið hafið gott af því.

Nú er ég búin að innbyrða óleyfilega mikið magn af súkkulaði, ég kenni konudeginum alfarið um það. Það var samt kósý að vakna við pabba þegar hann kom inn með vönd af fallegustu, appelsínugulustu túlípönum í heimi og súkkulaði. Konudagurinn fellur betur í kramið hjá mér en valentínusardagurinn, það eitt er víst.

Jæja nóg af röfli. Látið í ykkur heyra, bæði á mótmælunum og í kommentakerfinu!

16.2.06

Ég er þreytt, það er ógeðslega mikið að gera. Fundabras, Hagsmunaráð, Manþing, mótmæli og allskyns. Samt er ég ánægð, það getur verið gott að hafa nóg að gera.

Magnús Bragi var svakalega fyndinn í tíma í dag. Hann teiknaði hjarta á höndina á mér, og inn í það skrifaði hann "typpi". Þetta mátti sumsagt skilja sem svo að ég elski typpi. Ég og Ástrós vorum svo hressu gellurnar í sjoppunni í hádeginu og ég skildi ekkert í litlu sætu busastelpunum sem flissuðu þegar ég afgreiddi þær. Ég var náttúrulega búin að steingleyma þessari heimatilbúnu tattúveringu, flott Kristín. Gellan í þriðja bekk "sem er til í tuskið", er á uppboði reglulega og elskar typpi. Mannorðið þynnist með hverjum deginum.

Amma Fífí er best. Ég er viss um að einhvern daginn verð ég eins og hún. Það væri líka bara gaman.



E.s. Vill einhver koma með mér á mörgæsamyndina áður en hætt verður að sýna hana?

E.e.s Hvað var þessi forvarnarbjáni eiginlega að tala um ungbarnamök í skólanum í dag? Ég átti ekki orð... svo ég hló bara. Sem er kannski ekki kurteisislegt, en hann særði mína blygðunarkennd!

13.2.06

Löng vika framundan - of löng.

Vegna þess að ég er sjálfhverf og annarsflokks fór ég á Munich áðan, til að sjá alvöru þjáningar og dreifa huganum. Hún er frábær, þið sem eigið eftir að sjá hana eigið að drífa ykkur.

Brunasígarettublaðran á þumlinum mínum sem var á stærð við Everest fjall á laugardaginn er að springa og hjaðna. Sársaukafullt og ógeðslegt.

Lag stundarinnar - Rockets Fall On Rocket Falls - Godspeed You Black Emperor.

11.2.06

Frábær afmælisgleði hjá Hildi á Húsavík í gær. Vá hvað það var gaman. Ég elska þemapartý og hvað þá þegar þemað er glimmer/gay. Sérlega gaman hvað strákarnir fíluðu að vera málaðir og glimmeraðir og í hommafötum. Takk fyrir mig.
Er búin að vera algjörlega ónýt í dag, menn timbursins hafa sett mark sitt á daginn. Húðin neitaði líka á endanum að taka við meira glimmeri og ég er með útbrot eftir sumt af þessu drasli. Ætli það verði ekki bara vídjó í kvöld.

Björk sæta klukkaði mig. Sjálfhverft og skemmtilegt.

4 störf sem ég hef unnið um ævina:

1. Alt muligt manneskja í sveitinni frá barnsaldri til sextán ára aldurs. Mjaltir, þrif, eldamennska, ferðaþjónustubras og tilfallandi sveitastörf. Ég sakna þess.
2. Rútufreyja hjá SBA Norðurleið. Ekki svo mikill söknuður, keyrði milli Akureyrar og Reykjavíkur nánast hvern einasta dag í heilt sumar. Hresst?
3. Herbergisþerna á Hótel KEA. No comment.
4. Kynningardama fyrir Danól. Það felur sumsagt í sér að standa í verslunum og bjóða fólki að smakka nammi, kaffi eða eitthvað annað. Ótrúlegt djamm.

4 bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur:

1. Amelie. Uppáhalds af öllum uppáhalds.
2. Sumar Disney teiknimyndir, s.s. Aladín og Lion king.
3. LOTR 1,2 og 3.
4. Kill Bill 1 og 2

4 staðir sem ég hef búið á:

1. Hrísateigur, sem er lítið þorp rétt fyrir utan Húsavík. Þaðan á ég minningar um tíkina mína, þúfur sem ég var hrædd við og strokuferðir í hundakofann, á náttfötunum um miðjar nætur.
2. Kristnes 11, 12 og 13. Góðir tímar með ævintýraferðum, heimsóknum til mömmu í vinnuna á Kristnesspítala og sulli í bæjarlæknum.
3. Huldugil 2-104. Núverandi heimili mitt, flutti hingað í sjötta bekk.
4. Seinast ætla ég að nefna Keldudal (sveitin afa og ömmu), var þar öll sumur frá 5-16 ára aldurs.

4 sjónvarpsþættir sem mér líkar:

1. Fréttir og Kastljós.
2. Family guy.
3. Extras.
4. Little Britian.

4 síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:

1. Muninn.is, MA og póstinn minn.
2. Wulffmorgenthaler.
3. Fullt af fréttasíðum. Mbl.is, CNN.com, BBC.com, Jyllandposten o.s.frv.
4. Baggalútur.is.

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

1. Svíþjóð og Danmörk. Fyrsta utanlandsferðin.
2. Bretland, tvisvar sinnum. Í fyrra skiptið með skreppiferð til Skotlands, annað skiptið var ég bara í London.
3. Tvisvar til sólarlanda, Portúgals og Krítar. Fíla sólarlandaferðir ekkert sérstaklega, Krít var samt ótrúlega áhugaverð.
4. Tallinn Eistlandi. Ótrúleg borg.

4 matarkyns sem ég held uppá:

1. Hvítlauksristaðir humarhalar.
2. Hreindýrasteik.
3. Brynjuís.
4. Frönsk súkkulaðikaka.

4 staðir sem ég vildi heldur vera á núna:

1. Akkúrat núna á Njálsgötunni hjá Helgu og Nínu.
2. Í útskriftarferð, vonandi í Mexico.
3. Í London.
4. Í Japan.

Nína nældi líka í mig. Ætla að bæta við tónlistinni.

4 geisladiskar sem ég elska að hlusta á:

1. The Bends - Radiohead.
2. Extraordinary Machine - Fiona Apple.
3. Picaresque - The Decemberists.
4. Illinois - Sufjan Stevens.

Þetta var nú sérdeilis hresst. Nenni ekki að klukka neinn.

10.2.06

Efst á baugi er að mig bráðvantar bílfar til Húsavíkur, þar sem haldin verður afmælisgleði á morgun. Ef einhver er með laust far í bílnum sínum eða veit um slíkt þá bið ég hann/hana að hafa samband.

Annað, ekki eins bráðmikilvægt, í fréttum er að ég fór í Pennann/Bókval um daginn. Þar var meiningin að kaupa skólabækur og hafði móðir mín látið mig hafa peninga til þess. Ég endaði með þrjár skólabækur og fimm skáldrit. Það var útsala sjáiði til, og ég bara réði ekki við mig.

Ég keypti samt einungis öndvegisbækur. Ævintýri góða dátans Svejks, sem ég er reyndar búin að lesa en þetta er bók til að eiga. Ódysseifskviðu keypti ég líka í þeirri von að ég gæti skilið eitthvað í miðaleiknum þegar Kristján Einarsson tekur þátt. Sporar, stílar Nietzsches fannst mér spennandi rit svo ég festi kaup á því. Seinast en ekki síst keypti ég svo tvö eintök af sömu bók; Leiðarvísir í ástarmálum, handbók hjóna og ástarbréf. Annað eintakið gaf ég Olgu í afmælisgjöf, hitt ákvað ég að eiga sjálf. Þetta er frábær bók, í henni eru leiðbeiningar til ungra kvenna og karla, auk ástarbréfa og hjónabandsráðlegginga, allt skrifað á árunum 1922-1927.

Eftirfarandi texta er ég að hugsa um að lesa upp, syfjuð og stressuð, í tjáningartímanum í fyrramálið:

Að lita andlitið.

Það virðist færast í vöxt, að konur liti andlit sitt með ýmsu móti og ævinlega í þeim tilgangi að sýnast fallegri en þær eru í raun og veru.
En nú skal ég segja þér eitt: Andlit þitt er svo fallegt frá skaparans hendi - þó að þú sért óánægð með það - að þú getur eigi gert það fallegra með gervilitum ("smínki"). Hann hefir engan skapað ljótan og áreiðanlega ekki ætlast til þess, að nein af dætrum hans færi að mála sig í framan.
Þú getur með mörgu móti varðveitt fegurð þína, en til "smínksins" máttu aldrei grípa.
Lauslætiskonan - sem er litljót - á að hafa einkarétt á því að "smínka" sig.
Þú skalt aftur á móti bera gott og litlaust "créme" á andlit þitt og núa eða strjúka andlitsvöðvana um leið.
Það heldur húðinni vel mjúkri og kemur í veg fyrir allar hrukkur, sem sett gætu skugga á fegurð þína. - Þú mátt einnig nota lítið eitt af andlitsdufti ("púðri"), en það má ekki vera áberandi.

Þar höfum við það stelpur, skaparinn vill ekki að við málum okkur í framan. Engu að síður verður glimmer í andlitinu á mér á morgun.

5.2.06

Ömurleg helgi að renna skeið sitt á enda. Fjórði dagurinn sem ég er með hita, hvað á það nú að þýða? Ég fer samt í skólann á morgun, ég er orðin félagslega einangruð. Hitti Axel og Arnrúnu í fyrsta skiptið í fjóra daga áðan, annaðhvort vegna þess að þau hafa ekkert verið heima eða sökum þess að ég hef varla verið með rænu, veit ekki alveg. Allavega, þörf mín fyrir félagsskap var komin á það stig að ég var ótrúlega ágeng við þau og málóð við matarborðið. Leiðinlega ég. Svo fór ég í "gamni"slag við Axel, gamni hjá honum, ég endaði marin og blá. Hann beitti samt líka andlegu ofbeldi, hótaði að mala pipar yfir mig með piparkvörninni og sagði að ég væri piparjúnka.

Til að bæta gráu ofan á svart í piparjúnkudæminu þá gaf mamma mér bókina Hroki og hleypidómar í veikindagjöf. Takk mamma. Ég þykist vera yfir ástarsögur Jane Austen hafin, þykist vera sterkari kona en ég er. Í raun get ég ekki beðið eftir að lesa hana. Haha, ég er Bridget Jones Íslands, þar kom það. Á milli þess sem ég hef verið sofandi um helgina hef ég ráfað um á náttfötunum með kettinum mínum, horft á sjónvarp með foreldrum mínum og lagað til. Vá frábært.

Af þeim óvenju mörgu myndum sem ég hef horft á undanfarna daga, hafa fjórar þeirra tengst tískulandinu Japan.
Memoirs of a Geisha, The Last Samurai, Kill Bill vol 1 og 2.
Núna langar mig í svart hár, kimono og sake.

Jæja, mitt innihaldsríka líf kallar. Ég ætla að hnökrahreinsa peysurnar mínar. Farvel.

3.2.06

Það er allt að renna í sandinn hjá mér. Ástæða þess er kvefpest. Ekkert venjulegt kvef samt, það hefur náð að troða sér á ótrúlegustu staði, auk þess að fá það í nefið er ég kvefuð í enninu, kinnunum og augunum. Ég er orðin hálfheyrnarlaus og illt í augunum, finn hvorki bragð né lykt.
Oj bara ojojojoj.
Þessi veikindi eyðilögðu öll plön mín fyrir daginn, ég sem var búin að hlakka svo til að fara í skólann fyrsta föstudaginn með nýju stundatöfluna. Skóli frá áttafimmtán til sextánnúllfimm með engu hádegishléi, takk fyrir og gjöriði svo vel.
Ég ætlaði að semja ræðu og brasa heilan helling. Mig langaði líka að glimmerast í afmælisveislu í kvöld... Plöh.




Svona líður mér núna. Eins og klístruðum leirfroski sem sjö ára börn klíndu saman.














Hérna ætlaði ég að koma með skemmtilega sögu. Ég hætti við, þá væri ég bara að þykjast vera hress til að væla ekki heila færslu. Ég er bara vælukjói í dag. Sættið ykkur við það fokkfeises. Nei grín, ég er ekkert alveg svona pirruð.

1.2.06

Ansans kvef. Fyrir utan það ótrúlega góður dagur. Þónokkru var komið í verk, piparjúnka MA ætti að ganga vel, mótmælin líka. Nú er að demba sér í að lesa ótrúlega mikið magn af skýrslum og ritum um styttingu náms til stúdentsprófs. Partý? Já, svei mér þá.

Fyndið hvað maður getur verið mikið kamelljón. Það er svo gaman að velja sér rullu til að spila. Ég hef til dæmis verið mjög dramatísk og hress undanfarið, sjálfhverfur skemmtanafíkill með slettu af glimmeri og öli? Jafnvel. Sé fyrir endann á því skeiði, nú vakna ég á morgnana, fer í sturtu, les Moggann, klæði mig í skyrtu og set hárið í hnút. Fréttafíkillinn er farinn að láta á sér kræla á ný og hagsmunamál nemenda bíða úrlausnar. Kvendið komið aftur, bjóðum það velkomið.

Nei, er ekki best að minnka fanatíkina í báðar áttir og vera bara góður kokteill. Með jarðaberjabragði, já.

Ég veit ekkert hvað ég er að fara með þessum skrifum, en eitt veit ég. Ég veit það að Stjórninni barst frábært bréf. Bréfið var frá Sálarrannsóknarfélaginu í Reykjavík, það er afar skemmtilegt aflestrar. Ef einhvern langar að kíkja á það má sá hinn sami hafa samband við mig.

Ég er einn framsögumanna á opnum fundi um styttingu náms til stúdentsprófs sem haldinn verður á vegum Samfylkingarinnar nk. laugardag. Fundurinn fer fram kl. 14.00 á Hótel KEA. Hvet alla sem hafa áhuga á þessu máli að kíkja.
Unnar Þór stærðfræðisnillingur með meiru mun stíga í pontu fyrir hönd framhaldsskólakennara, ég hlakka til þessa eldheita stefnumóts okkar. Ég læt engan segja mér að þessi fundur sé annað en stefnumót.

Eins gott að fara að vinna í þessari ræðu.

Fiona Apple er konfektmoli dagsins. Ég er ástfangin af henni. Látum ójarðneska fegurð hennar lýsa daginn upp.