31.5.04

Ég er hrædd

Ég er hrædd útaf logbokinni minn sem er ekki hálfnuð og ég hef enga til að skrifa eftir, hrædd yfir jarðfræðiprófinu sem ég fæ mig ekki til að lesa undir og hrædd útaf því að pabbi minn er dýralæknir.

Já, mér er enn illt í maganum og þó þetta sé ágætis slankekúr er þetta ekki sniðugt til lengri tíma litið.
Pabbi er búinn að segjast ætla að láta mig á kálfaskitulyf.
Honum var alvara.
Ætti ég að fá mér konunglegan smakkara til að koma í veg fyrir að mér verði byrluð slík ólyfjan?

30.5.04

Draumfarir

Í nótt dreymdi okkur Helga báðum að við héldum framhjá hvortöðru...
Eðaþiðskiljið...
Vonum við að þetta hafi verið andhverfudraumar... en getum þó aldrei verið viss.
Mér finnst þetta fyndið.

29.5.04

Eyland

Enginn er eyland.
Ég er hinsvegar eyðimörk.

28.5.04

Spurning dagsins:

Mun Helga nokkurntíman verða fyrirgefið að hafa smitað Kristínu af viðbjóðspesti?
Stay tuned...
Núna...

Er ég að taka hitamæli úr munninum mínum. Hann sýnir að ég sé með nítíuogáttakommaeina kommu.

Er ég með kalt gel á höfðinu því að hausinn á mér er að springa en maginn er ekki tilbúinn til að taka á móti verkjalyfjum.

Er ég mjög fegin að ég sé hætt að æla, ég ældi samfellt í kortér eitt skiptið í gær og grenjaði allan tímann. Helvíti.

Er ég í náttkjól af mömmu, ég treysti mér ekki til að ganga upp stigann í mitt herbergi og ná mér í eigin föt.

Er mér bannað að fara í sturtu eða bað meðan ég er ein heima, skyldi líða yfir mig.

Er ég með strengi í maganum og stirt bak eftir æluaðfarir.

Er ég gengin í barndóm. Pabbi hætti alveg að tala um pólitík, ljáði mér rúmstæði sitt svo ég svaf uppí hjá mömmu, hann mataði mig á peru og keypti Gerbers barnamat handa mér.

Er próftíð. Það þýðir að ég er búin að missa af dönskuprófinu og þýskuprófið hefur staðið yfir í 9 mínútur þegar þetta er ritað.

Er ég óvart búin að vera online á MSN í dag þannig að fólk heldur að ég sé fullfrísk og vilji ekki svara þeim. Afsakið.

Ætla ég að staulast inn í rúm og sofna eftir að hafa póstað þetta grenjublogg.

26.5.04

Vor

Það var vor í morgun þegar ég ætlaði að læra undir próf á pallinum og geitungurinn elti mig. Það var vor í dag þegar ég gekk niður í Brynju eftir prófið, í sól og blíðu, hlustandi á Bítlana og tínandi fífla. Það var vor í kvöld þegar ég lá úti á palli í kvöldsólinni og gerði allt annað en að læra...
Prófin þvælast fyrir.

Fjölmiðlafrumvarpið

Þetta frumvarp virðist vera þess megnugt að sundra heimilislífi kjarnafjölskyldu í Huldugili 2. Nýtt herbergi er í vinnslu upp á lofti svo pabbi hafi svefnstað.
Var mér tjáð í dag að koddahjal hans væri á þessa leið: "Hann Davíð er nú eiturklár..."
Nei, þetta er of slæmt, get ekki sagt meira. Að ég sé undan eins miklu íhaldi og pabbi minn er verður að teljast skammarlegt.

Læt ég fylgja vísu sem er alveg hreint mögnuð, hvet ykkur til að lesa.

Hefir álfreks eðli
illgjarn lofna, nafni
jarl es jöfurr varla
júða buðlungs lúði.
Hilmir rann af hólmi
hýrisk fallinn stýrir
veldr ok öllum íhalds
usla, gunga ok drusla.

Umröðun orða:
Illgjarn nafni júða buðlungs hefr álfreks eðli. Jarl es lúði, varla jöfurr
lofna.
Hilmir rann af hólmi, hýrisk fallinn. Íhalds stýrir es gunga ok drusla ok
veldr usla.

Leyst úr kenningum:
Illgjarn nafni konungs gyðinga hefir skítlegt eðli. Jarl er lúði, tæplega
höfðingi manna. Konungur rann af hólmi og hýrist fallinn. Stjórnandi
íhaldsins er gunga og drusla og veldur usla.

Kúkur

Allur bekkurinn veit hvernig meltingu minni er háttað.
Kúkahúmor minn fellur einnig í misjafnan jarðveg.
Vil ég ekki meira um málið segja.
Rass

25.5.04

Litlir vorboðar og gleðigjafar í próftíð

Mandarínusafi í kristalsglasi

Orkedía

Bítlarnir

Ávaxtasalat

Stolinn koss

Undirpils

Mjúkt núgat

Doppur

Steingrímur Joð

Semball
Dánarfregnir og jarðafarir

Stærðfræðipróf, öðru nafni jarðarför Kristínar Helgu, verður haldið kl. 13.00 í dag.
Kransar og blóm eru vinsamlegast afþökkuð en þeim sem vilja minnast Kristínar er bent á F.S.F - Félag stærðfræðifatlaðra.
Þökkum sýndan hlýhug.
Aðstandendur
Mæli með mandarínusafa með grænu tei í próftíð.
Eins og sólskin og jóga í glasi.

20.5.04

Prófatíð

Ónei ónei ónei.
Ójú, sama hvað maður mótmælir, prófin eru að nálgast.
Fer suður á morgun í jarðarförina svo ég hef enn minni tíma en ella til að frumlesa nánast allt námsefni annarinnar. Kemur Kristín!
Las alla íþróttafræðina í morgun, það var að sjálfsögðu í fyrsta skipti sem ég opna þá bók í vetur. Eftir það fannst mér í lagi að verðlauna mig með því að glugga í Dóttur beinagræðarans eftir Amy Tan... það glugg endaði með því að ég kláraði 400 blaðsíðna bókina!
Ahhh.. skáldsögubann á Kristínu!!!
Var að glósa málfræðina í þýsku og er búin á því, hef ekkert úthald.
Ætla að raða skóladótinu mínu og sanka að mér glósum, veitir ekki af.

Kökubakstur og herlegheit til heiðurs 4.A í kvöld, ætla að hlusta á White album á meðan... ljúft.

19.5.04

Stolt

Muninn kom út í dag! Ójá, þegar ég gekk inn í Kvosina blöstu við mér fagurgrænir staflar af prentuðu grasi.
Gleði.
Ég er svo stolt af öllum sem komu að gerð þess, get ekki að því gert. Þó sérstaklega ritstjóranum.
Án efa flottasta blaðið í sögu skólans, það þarf ekki annað en viðtalið við Frímann til að rökstyðja þá fullyrðingu...

18.5.04

Strætóævintýri

Tók strætó niður í Tónó áðan. Þegar út var komið uppgvötaði ég, mér til mikillar skelfingar, að ég þurfti að bíða eftir farinu í heilar 4 mínútur.
(Þeir sem eru vanir að bíða eftir strætó vita hvað fjórar mínútur geta virst langar...)
Sem betur fer gekk til mín gamall maður eftir aðeins eina mínútu sem þurfti einnig að taka áðurnefndan strætó. Hóf hann samstundis að spjalla við mig og á þessum þrem mínútum náðum við að tala um : veðrið, gróðursprettu og garðaslátt, veðrið, strætóskýlastefnu bæjarins, veðrið, stundvísi strætóbílstjóra og að sjálfsögðu veðrið.
Og það var ekki að spyrja að því, þessar þrjár mínútur liðu fljótar en sú eina sem ég beið áður en þess gamla naut við. Mér finnst kósí að tala við bláókunnugt gamalt fólk.

Það var ekki sama gæska sem beið mín þegar heim kom. Ég held þessi fjölskylda þurfi aðstoð, a.m.k. ónefnt systkini mitt.

Muninn á morgun!!!

(Hah, HHelga knúsaði mig í morgun og spurði mig hvort mér liði ekki eins og stoltum föður. Sú tilfinning lýsir mér, ótrúlegt en satt, mjög vel núna)

17.5.04

Stonephobia

Stuðlabergið stingur mig á hol. Bólstrarnir borða mig. Sprengigígarnir soga mig til sín og eldkeilurnar steikja mig.
Myndapróf í jarðfræði á morgun. Kallar á hörð viðbrögð, svita, svima, ógleði og ofsahræðslu. Ég er haldin steinafóbíu á háu stigi. Á eftir að kasta mér fram af kletti.
Krónískt kvef

Fór uppí sveit í gær með Helga.
Kósí, drukkum hnausþykka mjólk, átum pönnsur, skoðuðum lömbin og gengum um.
Króníska kvefið mitt hafði hinsvegar ekki gott af þessu útstáelsi svo ég er heima í dag.
Dauði.
Er að spá í að fá mér að éta, lesa, læra og sauma út. Já, held það.

15.5.04

Súrt

Kjarnaskógur með böðlunum í gær... Kósí.
Ekki jafn notalegt að koma heim og frétta að Axel föðurbróðir hafi dáið.
Hann er þriðja systkini pabba sem krabbinn drepur, auk afa.
Ég lýsi hér með yfir opinberri ofsahræðslu minni við krabbamein.

14.5.04

Húsmóðirin dygga

Jújú, var að taka 2 skúffukökur útúr ofninum og bíð eftir að þessar þrjár plötur mínar af pylsusnúðum hefist. Á meðan ég hrærði saman hráefnum horfði ég á danska krónprinsinn ganga í það heilaga. Ég er að breytast í plebba-húsmóður, get svo svarið það.
Meira að segja mamma hefur áhyggjur af því hvað ég er orðin ráðsett.

Annars bara kjarnaskógur í kveld, það er búið að mígrigna en það er allt í lagi.
Mér finnst allir litir skerpast í rigningunni og það verður gaman að verða umkringd sterkgrænu...

12.5.04

Ljótt blogg.

Þetta er ljótt blogg. Ég var búin að ákveða að ég myndi ekki skrifa inná það fyrr en
það yrði flott en gríðarleg bloggþörf hefur borið mig ofurliði.

Núna á ég að vera að gera þýsku. Ég hata þýsku, kann í raun ekkert í henni og langar eiginlega ekki að læra hana. Hinsvegar fer ég í munnlegt próf á morgun þar sem ég á að geta haldið uppi löngu samtali og auk þess á ég að kunna að versla mér naglalakk, föt, ávexti og kaffi. Þó ég sé hundlasin og með samfallin lungu frá því í jarðfræðiferð dauðans í gær hellti ég mér í þetta á fullum krafti! Eftir að ég hafði unnið við samtalið í tæpa 3 tíma og það seivaðist ekki í tölvunni hvarf harkan.
Helgi var stilltur á away á msn, blessunarlega fyrir hann, ég leyfði mér þó að níðast á tölvunni hans að honum fjarstöddum:

devil in her heart says:
ég er í kasti
grenjandi
taugaáfalli
skjalið mitt seivaðist ekki, ég er búin að vinna í því í þrjá tíma.

(seinna)

devil in her heart says:
fann þetta
guði sé lof
stærsta taugaáfalli norðan heiða er lokið.

Það þarf ekki að taka það fram að Helgi nokkur Vilberg hló að paranoju konu sinnar þegar hann sneri sér aftur að tölvunni.

P.S Tilfinningarnar og sárindin voru svo sterk að ég talaði óvarlega við manneskju sem hló að mér í uppnámi mínu. Þetta óvarlega tal orsakaðist af stærsta tussuverki í heimi og bið ég manneskjuna velvirðingar.