31.1.06

Mamma á afmæli. Klukkan er örugglega að verða fjögur að morgni, og ég áttaði mig á því að ég átti eftir að pakka geisladisknum hennar inn. Gjafapappírinn er geymdur niðri í svefnherbergi hjá mömmu og pabba. Í stað þess að vekja þau til að ná í pappír brá ég á það ráð að búa hann til sjálf, eins og ég gerði stundum þegar ég var lítil. Ég tók smjörpappír og þrjá sanseraða tréliti. Með þeim litaði ég misstóra fleti með gylltum, fjólubláum og grænum. Pakkinn varð fallegur, þrátt fyrir að ég hafi ekki fundið límband. Ég litaði eins og barn, hratt, fast, ójafnt og útfyrir. Ég fékk nostalgíukast og það rifjuðust upp fyrir mér furðulegir hlutir sem tengdust öllum þeim litum sem ég hef átt um ævina. Hvernig ég merkti þá í skólanum, hvernig ég safnaði vaxlitum í gamlan Mackintosh dunk, hvað það var pirrandi þegar blýið brotnaði í yddaranum, hvaða pennaveski ég notaði undir þá.
Ég fékk tár í augun og fór að kjökra. Ég vil ekki fullorðnast. Ég hræðist það. Þegar Dagný talar um hvað hún eigi að velja handa Olgu í tvítugsafmælisgjöf svitna ég á hryggnum og fæ klígjutilfinningu. Pant aldrei að þurfa að taka ábyrgð á meiru en ketti.

Ég skynja sterka niðursveiflu á leiðinni. Eins gott að eyða dágóðri stund í bjartsýnisófreskjulampanum á morgun.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að ég tek frekar mark á því sem manneskja sem ég virði ekki fyrir fimmaur segir slæma hluti um mig, við mig, heldur en þegar fólk sem ég elska, virði og treysti segir fallega hluti um mig, við mig? Það er eitt það heimskulegasta sem ég veit. Hvernig stendur á því að það situr það í mér þegar manneskja sem er á fáan hátt virðingarverð segir að ég sé fráhrindandi og nastý tussa, en þegar vinur minn segir eitthvað fallegt við mig hristi ég hrósyrðin af mér eins og gæs vatni? Það er ekki heil brú í þessu. Þar sem mér finnst farsælast að byggja líf mitt á því sem er rökrétt, hef ég ákveðið að breyta um stefnu í þessum efnum. Þegar einhver segir slæma hluti um mig eða við mig ætla ég að taka það til greina og vega og meta hvort eitthvað sé til í því. Það er hverjum manni hollt að endurskoða sjálfan sig og sína hegðun. Hinsvegar ætla ég að byrja að taka a.m.k. fjörtíu prósent af hrósyrðum til mín. Segja takk og meina það.

Þá er það ákveðið.

Ég keypti þrjá geisladiska handa sjálfri mér á útsölu í dag. Meðal þeirra var diskurinn Extraordinary Machine með Fionu Apple. Þetta er frábær diskur, falleg rödd, góð tónlist, ótrúlegir textar. Hún syngur um líf mitt, það er ég viss um.
Veruleikafirrta Kristín, nýbúin að tala um hversu rökréttu lífi hún vill lifa.

Everything good, I deem to be too good to be true.
Everything else is just a bore.
Everything I have to look forward to
has a pretty painful and very imposing before.

Eru tilfinningar til annars en að bera þær á borð?

30.1.06

Borgarferðin var skemmtileg og góð og frábær. Það var fínt að eiga fjölskyldustundir yfir daginn og fara svo á lífið á kvöldin. Afar ljúft meira að segja.

Ég nenni bara núll að segja frá þessari ferð. Þið vitið, versla, fara í heimsóknir o.s.frv. Það var best að hitta Helgu og Nínu þessi tvö kvöld. Og að sjálfsögðu alla Akureyringa í heiminum, sem voru samankomnir í höfuðborginni.

Plöh ég er leiðinlega gellan.

Danski kúrinn, er það eitthvað? Ef að danski kúrinn væri orðasamband yfir bjór og pölser þá væri ég kannski til. Held samt að hann gangi meira út á grænmeti í öll mál og lifur einusinni í viku.

Oj, lifur, lifrur, lirfur, oj.

Á morgun tekur alvaran við. Þessi sem ég er búin að vera að flýja. Þá skulu mótmæli skipulögð, auk piparjúnku Menntaskólans og Hagsmunaráð fær sinn skerf af frítímanum sem er eftir. Svo við tölum nú ekki um draslið í herberginu.

Sagði einhver frí?

Plöh plöh, hættu að vera leiðinlega gellan og væla. Þetta er algjört lúxusfrí, þegiðu og farðu að sofa. Já.

26.1.06

Var að stíga útúr íslenskuprófinu. Ég skrifaði mikið. Svo mikið að Valdimar kom til mín með áhyggjusvip og spurði hvort ég ætlaði að drekkja Birni í lestri. Vonum nú bara að ég hafi verið að skrifa eitthvað af viti.

Ah... nú kemur tilfinningin. Sem segir mér að ég sé búin í prófunum, endanlega. Eða í bili, þar til á næstu önn þið skiljið. Ójá.

Einkunnir hafa borist í hús, nema enskueinkunnin og eðlimálsinssamkvæmt íslenskueinkunnin.
Ég ætla að vera sátt við einkunnirnar, ég miða við aldur, ástundun (eða skort á henni), fyrri störf, metnaðarleysi og leiðindi. Fékk sex í þýsku sem er smá bömmer, sexa er leiðinleg einkunn. Engu að síður bjóst ég allt eins við falli í þessum djöfuls áfanga svo ég hef ákveðið að vera sátt. Eins var með jógað. Það er magnað að mæta svona lítið og sofa í íþróttatímum og fá sjö. Fékk átta í líffræði eins og við var að búast. Kristall var félagi og gaf mér níu í sálfræði (án efa minnst verðskuldaðasta einkunn sögunnar, en allt í lagi). Róbert kom á óvart og var félagi, aldrei þessu vant, svo það var nía þar líka. Loksins nía í sögu, kominn tími til. Nú ætla ég bara að bíða og sjá hversu góðir félagar Hildur og Björn eru. Ég hef trú á þeim.

Nú er tími til að vera hádramatískur.

Þeir sem fleyttu mér upp um önn og fá þakkir fyrir:

Arnar fyrir að útvega mér útprentaðar, litskrúðugar og efnismiklar glósur í sögu, íslensku og náttúrufræði. Einnig fyrir að hafa verið sjúklega samviskusamur þessa próftíð og þar með haft smá áhrif á minn litla metnað.

Ari
fyrir að hafa verið hið fullkomna mótvægi við Arnar og fyllt mig af "þetta reddast hugsunum".

Ragnhildur Ýr
fyrir að vera skemmtilegust. Og fyrir að hafa lánað Arnari allar sínar glósur til að fullkomna hans haha! Ekki má svo gleyma enskuvinnubókinni.

Dagný fyrir lærustundir í skólanum og þar með fyrir að hafa vakið áhuga minn á atferlisfræði. Haha.

Ottó fyrir að hafa pískað mig áfram í þýskunni. Annars hefði ég ekki náð. Takk Ottó.

Hjalti fyrir samlær í líffræði.

Elsa Rós fyrir sálfræðiglósur.

Ásgeir fyrir að svara leiðindaspurningum frá mér á msn, næturnar fyrir próf, um endurreisnarstíl og enskar netorðabækur.

Grænn Egils kristall plús, flysjaðar mandarínur og suðusúkkulaðibitar í poka fyrir að vera besta prófanestið.

Kaffi latté og kók
af augljósum ástæðum.

Baðkarið fyrir næturstundir. Í nótt lá ég til dæmis í baði frá eitt til hálfþrjú og las öll ljóðin upphátt. Það er eðlileg hegðun.

Ætla að sleppa því að þakka fjölskyldunni. Bara svona afþví bara, þau eiga samt alveg skilið að fá þakkir.

OgsvopakkaniðurogReykjavíkjá.

25.1.06

Ytri-Vík var eins og Ytri-Vík á að vera. Meira verður ekki sagt eða skrifað opinberlega, af augljósum ástæðum.

Íslenska á morgun. Svakalega hresst.

Ef einhver þarf far suður eru tvö laus sæti á morgun. Bara að reyna að vera liðleg.

Meira næst.

23.1.06

Klukkan er þrjú eftir miðnætti. Sálfræðipróf á morgun, ég er búin að rembast einu sinni í gegnum þetta námsefni, sjáum til hvernig fer. Þegar ég er búin með sálfræðina ætla ég að láta eins og það hafi verið seinasta prófið mitt. Jú, glöggir lesendur vita nefnilega að ég á eftir að taka sjúkrapróf í íslensku, en ég ætla að gleyma því á morgun. Ég vona nefnilega að það verði djamm. Þá neita ég að taka þátt í einnámótimörgum rökræðum, handleggsuppásnúningum og fleira í þeim dúr. Það passar ekki þegar að fólk ætlar að skemmta sér. Sérstaklega þegar maður hugsar um þá litlu skemmtun sem aðrir hljóta af því að hlusta á ósköpin.

Mmm... mig langar í japansepli.

Ég vil benda þeim sem hafa aðgang að Morgunblaðinu á að lesa viðtal við Hope Knútsson sem birtist í dag. (Í gær, strangt til tekið). Hún er það sem kemst næst því að vera átrúnaðargoð mitt, og þetta er frábært viðtal. Einnig vil ég benda lesendum á að kíkja á "yfirlýsingu til stuðnings biskupi", lítið bréf sem var birt í sama blaði. Það bréf er jafn slæmt og fyrrnefnt viðtal er gott.

Ég var að koma úr baði, það er best að fara í bað þegar allir aðrir eru sofandi. Það er sumsagt best ásamt rommkúlum, toppar þær ekki margt.

Þá er best að svífa á vit draumanna. Muna bara það að fyrst fer ég í gegnum fjögur stig hægbylgjusvefns og svo í bliksvefnsstigið. Passa mig svo á að dreyma ekki byssur, hnífa eða regnhlífar. Þó að hið ljósa inntak sýni mér þessa hluti, sárasaklausa, er hið dulda inntak í raun það að ég vil typpi. Freud, alltaf góður. Verst væri samt ef mig dreymdi að ég flygi. Jú, vegna þess að það er í eðli getnaðarlimsins að berjast gegn þyngdaraflinu, og þessvegna hefur flug skýra tilvísun í typpi. Ef að ég flýg í draumnum þá þýðir það að sjálfsögðu að ég vil vera með typpi. (Ef ekki bara vera typpi, sjálf og öll).

Þetta sér hver maður, ekki satt?

21.1.06

Allt hefur sínar afleiðingar.

Þegar ég vaknaði í morgun var ég með hita, hausverk og beinverki. Svo ældi ég. Made my day.

Afleiðingar:

-Get ekki hitt fólk í kvöld, eins og ég var búin að hlakka til að gera.
-Ég missti af íslenskudjöfulstussuprófinu sem ég var búin að eyða hálfri nóttinni í að læra undir.
-Ég verð því að taka sjúkrapróf.
-Þar af leiðir, kemst ég kannski ekki í Ytri-Víkur partý og próflokafríið mitt styttist.

Ég leigði hina ótrúlega krúttlegu, væmnu og amerísku mynd A lot like love í kvöld í stað þess að hitta alvöru fólk.

Afleiðingar:

-Mig langar að vera mjó.
-Mig langar að vera sæt.
-Mig langar að eiga ógeðslegasætanogfrábæranogfyndinnkærasta, svipaðan Ashton Kutcher.

Gilitrutt úr súrabæli kveður.

19.1.06

Skrifa já. Ég er í furðulegu skapi í dag, veit fátt. Er samt nokkuð viss um að Guðbrandur Þorláksson og Jón Vídalín fá ekki mörg prik hjá mér. Ég er búin að vera niðri í skóla með Dagnýju, passa mig að líta út fyrir að vera rosalega upptekin og gáfuð með ipodinn og bækurnar fyrir framan mig. Er í rauninni að skrifa niður texta með Elliot Smith... I'm in love with the world through the eyes of a girl...

Þessi lýrik á mjög ólíklega eftir að að hjálpa mér mikið í íslenskuprófinu á morgun. Maður veit þó aldrei.

Ég hef tekið eftir ákveðnum tískubylgjum á bloggsíðum. Nú, afþví ég er svo gasalega mainstream og hugmyndasnauð ætla ég að apa eftir.

Þar sem draumar mínir eru ekki prenthæfir ætla ég að segja frá draumi sem Júlíusi dreymdi. Þannig var sumsagt að við í Stjórninni vorum að hittast í fyrsta skiptið eftir jól og vorum heima hjá Arnari. Þegar ég kem til þeirra er ég með stórar framtennur, í grænum kjól og svona líka vel í holdum. Júlíusi finnst þetta afar fyndið og gerir grín að því að ég hafi misst mig í jólamatnum.
Ef einhver vill ráða þennan draum þá má hann það. Ætti ég að taka þessu sem fyrirboða?

Einnig er vinsælt að segja frá litlum frændsystkinum sínum. Sjálf á ég 13 frændsystkini undir 10 ára aldri. Að sjálfsögðu eru þau hvert öðru fyndnara, sætara, gáfaðra og skemmtilegra. Ekki að undra, miðað við fyrirmyndina, stóru frænku.
Ég er góð vinkona þeirra allra og ég held að ég hafi ekki sloppið við að skipta á eða skeina einn einasta rass í þessum hópi.
Yfirleitt hef ég afskaplega gaman af því að passa þessi gerpi, en ég luma á nokkrum myndum sem sýnir hið gagnstæða.



Einhvern veginn svona mun ég líta út þegar/ef ég eignast börn. Þreytt og tætt eftir árás barnanna, sem róuðust loksins niður þegar leikjatölva var dregin upp og kveikt var á sjónvarpinu. Tæknin bjargar uppeldinu. Oj.

Mána fannst alveg svona rosalega fyndið að kássast í mér meðan ég var að borða. Ég þarf ekkert að segja hversu sniðugt mér fannst það, myndirnar tala sínu máli.






Ég ætla að enda á einni mynd þar sem ég er ekki pirruð, mædd eða ljót. Sit með Dag frænda og hef það notalegt. Hvernig er annað hægt, ég stakk snuði upp í krakkann!



Hin mædda móðir framtíðarinnar kveður. Stefnan er tekin á sturtu, Karó, tvöfaldan latté og ljóðanótt. Kósý? Nei ekki svo.

P.s. Til hamingju með sigurinn Ásgeir, Magni og Tryggvi!

17.1.06

Hlustum á Chicago með Sufjan Stevens, gleymum öllu og þá sérstaklega lærdómi. Illinois er svo frábær plata! Veit að allir eru að segja þetta, en ég er mainstream chick og sammála almenningsálitinu. Grín.

Óður til Axels:

Bróðir minn getur verið raunveruleikafirrtur, steiktur, frekur, ósanngjarn, óvæginn og þver. Þá ýmist hneykslast ég á honum, hlæ að honum, hristi hausinn yfir honum, öskra á hann, verð reið við hann, lem hann, eyðilegg eitthvað sem hann á eða tala illa um hann.
Þessi færsla átti þó ekki að fjalla um galla hans og, oft og tíðum, barnaleg viðbrögð mín við þeim.

Bróðir minn er nefnilega með þeim betri. Hann hefur hjarta úr gulli, fáránlega fyndinn húmor og virðist vera endalaust greiðvikinn. Hann er einlægur og státar af mikilli réttlætiskennd. Mínar verstu stundir eru þegar við erum óvinir, mínar bestu þegar við hlæjum saman.



Þetta er væmnasta mynd sem ég fann af okkur, sem hentar vel þar sem þetta er væmnasta færsla sem ég hef skrifað. Tveir hommar í fjólubláu sólarlagi.

14.1.06

Ég er svo södd að ég get ekki hreyft mig. Nei ég lýg, að sjálfsögðu get ég það, bara nenni því ekki. Matarboð hér heima, hrátt hangikjöt í forrétt, hreindýrasteik í aðalrétt og ís með heitri súkkulaðisósu og jarðaberjum í eftirrétt. Hélt að það væri bannað að halda matarboð eins og þetta svona stuttu eftir jól.

Ég afþakkaði spilakvöld, að hluta til vegna leti minnar eftir átið, að hluta til vegna þess að ég er döpur og að hluta til vegna þess að ég þoli ekki að spila. Samt eru þetta eiginlega ekki nægilega góðar ástæður til að afþakka félagsskap með skemmtilegu fólki, ég þrái félagsskap.

Horfði á Almoust famous áðan, það var gott. Pant líta út eins og Kate Hudson og eiga Polaroid myndavél.

Ég er súrmoli. Ætla þessvegna að enda þessa lélegu færslu á mynd af mér, bjánalega glaðri, að dansa tangó við Fljóta heitinn í sveitinni. Það er lífið.

Tveir glaðir bjánar.

13.1.06

Carefree Kelga er horfin. Bara svona rétt að láta ykkur vita. Jeminn, stress fyrir náttúrufræðina. Þetta hlýtur samt að reddast...
Eða hvað?

Fyrirgefiði ef ykkur finnst leiðinlegt að lesa það sem mér finnst gaman að skrifa um foreldra mína:

Mamma gekk í KEA í gær. Pabbi var ekki allskostar sáttur og sagði að hún hefði selt sál sína Framsóknarflokknum fyrir nokkur afsláttakort. Hann kom svo heim í dag og tilkynnti að hann hefði skráð sig í Sjálfstæðisflokkinn. Feis.

Þvílíkir foreldrar. Fyrir utan hræðilegt val þeirra á stjórnmálaflokkum (vona samt að mamma kjósi ekki Framsókn þó hún sé í KEA!) eru þau ágæt. Alveg hreint fín bara. Pabbi bætti mér áfallið með að sitja yfir mér meðan ég fór yfir náttúrufræðina. Hann stillti sig næstum því um að kafa þúsund sinnum dýpra í efnið en ætlast er til, bara næstum því samt. Okkur vantaði skilgreiningu á þríglýseríði og minn maður náði í 5 myndskreyttar, norskar alfræðiorðabækur um lífeðlisfræði og anatómíu eða eitthvað þannig og fór að fletta upp. Alveg rólegur. (Ég er náttúrulega engu nær um hvað þríglýseríð er, það er þó einhvers konar fituefni...)

Lög dagsins:
Storm - Godspeed You Black Emperor!
Get Me Away From Here, I'm Dying - Belle and Sebastian.
Sweet Adeline - Elliott Smith.
Eli, The Barrowboy - The Decemberists.

11.1.06

Jæja örstutt.

Núna heiti ég Kelga Carefree. Eins og dömubindin þið skiljið, ég er samt ekki ofurrakadræg með fimmföldum vængjum og þotuhreyfli. Onei, ég er bara ósköp kærulaus og lús, þrátt fyrir prófin. Eða allt þar til klukkutíma fyrir próf. Þá breytist ég í taugaveiklunarsjúklinginn Kristínu Helgu og byrja að naga af mér handlegginn yfir að ég hafi ekki lært meira. Ég er svo fanatísk, sjitt. Bjarni Kristall bjargaði prófinu, og stressinu í mér, með að sitja yfir okkur í dag. Hann er með svo góða nærveru þið skiljið. Aha.

Þar sem ég virðist vera vanhæf (oj, ofstuðlun) um að koma mér yfir á siðferðilegt stig Kirkegaards finnst mér ennþá hlutir sem eru leiðinlegir (próftíð) slæmir. Ljótir og ógeðslegir. Þessvegna ætla ég ekki að hugsa um próf heldur næstu tilhlökkunarefni. Jey, punktablogg, auðmelt og gott:

- Gettu betur 19. janúar. MA vs. ML á rúv. Vá, en gaman og spennandi. (Ég hef alltaf verið forfallinn GB aðdáandi.)

- Kannski Ytri Vík mánudaginn eftir próf. Eitthvað óljóst ennþá samt.

- Suðurferð helgina eftir próf. Mit Vater, Mutter und Axel. Vonandi fara Dagný og fleiri hressar stelpur líka, þá gæti útkoman kannski orðið stelpudjamm? Aldrei að vita. Annars bara gaman að skreppa í helgarferð.

Humm, vá ég finn bara hreinlega ekki meira. Ekki í nánustu framtíð a.m.k. Dimmir tímar? (Nauts, þetta var of dramatískt.)

Ég nenni ekki að tjá mig meira um DV í dag, er búin að blása allvel út. Ótrúlegt. Hvet samt alla þá sem sáu ekki Kastljós í kvöld til að fara á netið og horfa á þáttinn í dag.
(Æi, hvaða væl er samt í mér. Getum við ekki öll verið sammála um að DV segi alltaf sannleikann í þágu þolenda sem reyna að leita réttar síns hjá þessu vandaða blaði?)

Sjitt náttúrufræði. Ótrúlega áhugavert efni, skil eiginlega ekki hvernig ég gat skilið mig frá því til að skrifa þessar línur. Hvað er að mér?

9.1.06

Hah, það er best að finna lélegar afsakanir til að læra ekki. Líka lélega hluti til að stytta sér stundir. Ekki er svo verra þegar maður nær að sameina þetta tvennt. Samansafn af svoleiðis:

- Að blogga og lesa annarra manna blogg. Því finnst mér það vera samfélagsleg skylda menntskælinga, og annarra, að blogga mjög mikið á meðan prófum stendur. Takk.

- Að verðlauna sjálfa mig með skáldsögulestri. Dæmi: "Ég las eina bls. í þýsku og get því lesið einn kafla í Stormi eftir Einar Kárason." Góð röksemdafærsla, góð bók.

- Að horfa á hvað sem er á RÚV. Til dæmis heimildamynd um stóra málverkafölsunarmálið. Mæli þó sérstaklega og eindregið með Vestfjarðavíkingnum. En fyndið og vonlaust sjónvarpsefni!
Samúel þarna að blaðra: "Hann heldur áfram, þrátt fyrir að slái í harðbakkann. Enda ekki að ástæðulausu sem maðurinn er kallaður "Trukkurinn". Þvílík seigla... Nei heyrðu, þarna hleypur hann skyndilega í burtu, fer út í vegkant og kastar upp." Frábært. Svo eru alltaf viðtöl við gæjana tveimur sekúndum eftir að þeir klára einhverja þraut og því eru þeir alltaf másandi og blásandi þegar þeir segja hrottabrandarana sína. Hrehrehre. (Hápunktinum var þó náð þegar þeir kepptu í sundlaug og sigurvegarinn fór upp á bakka í minnstu Speedo sundskýlu sem ég hef séð. 200 kg. gripurinn. Grrr.)

- Fara í bað. Ég er hreinasta kona á Íslandi, það bara hlýtur að vera. Sérstaklega mæli ég með svona "allsherjar böðum." Jafnvel um miðjar nætur. "Allsherjar böð" fela yfirleitt í sér að nuddið sé sett á, búbblur ofan í baðið og máske kertaljós. Síðan má draga með sér alla þá skrúbba, þvottapoka, andlitsmaska, sjampó, kornakrem, sápur, hárnæringar, djúpnæringar, og bara hvað það sem hugurinn girnist, ofan í baðið. Sérstaklega er gott að enda seremóníuna á að smyrja á sig kremi, wagoon-pakka sér svo í bómullarnáttföt og fara undir sæng. (Tek ég þá að sjálfsögðu til við próflestur!)

- Skoða hinn lífsnauðsynlega tölvupóst reglulega og tala við fólk á MSN. Bara svona rétt til að bera saman námsefnið sem maður er að fara yfir...

- Fara á rúntinn. Já, ég hef gert meira að því seinustu daga en allt seinasta ár, svei mér. Fór í ansi góða ferð með Arnari, Ásgeiri og Dagnýju í gær. Strákarnir voru hrottar og við Dagný sykurpíur, vorum með gloss og sungum með effemm. Reyndar villtist Ásgeti eitthvað í hlutverkinu sínu þegar ég setti á hann gloss. Arnar gat ekki lengur tekið hann alvarlega og þeir hættu að "bonda". Sjitt.
Mamma spurði mig áður en ég fór út hvað ég væri að fara að gera, með hverjum og hvað ég yrði lengi. Ég svaraði því til að ég væri að fara að keyra með krökkunum. Ekki var hún allskostar sátt við það og sagði mér að koma ekki seint heim "því próftíðin væri að hefjast, unga dama!" Ég sagði henni þá að ég væri að fara með Arnari og Ásgeiri og við ætluðum að læra í sögu. Kom þá annað hljóð í mína, kemur sér aldeilis vel að eiga vin í Gettu betur!
Rúnturinn varð þó afar fróðlegur, sérstaklega þar sem nú vitum við hvar allt skyldfólk Arnars á heima (eða bara allir þeir sem hann hefur nokkurntíman hitt), að faðir Karlamagnúsar hét Pípínn litli (haha!) og að Íslendingar drekktu biskupi einum, eins og kettlingi í poka, alls fyrir löngu.

Jæja, ætla að lesa eina bls. í þýsku svo ég komist nú eitthvað áfram í Stormi.

7.1.06

Ég er svo sannarlega ekki hressi gaurinn þessa dagana. Ragga og Gitta komust að raun um það áðan, þær komu í óvænta heimsókn. Aumingja þær, ég lá uppi í rúmi þegar þær komu, í náttfötum, með bleikt hárband og stert upp í loft. Ég ákvað í morgun að valið stæði á milli þessarar hárgreiðslu eða að raka allt af. Skynsemin vann. Hún vann líka í gær þegar ég fór heim af brjáluðum stelpurúnt með Hönnu Rún og fór að lesa í sögu í stað þess að gera eitthvað skemmtilegt. Ég þoli ekki þessa skynsemi, hún er farin að flækjast meira fyrir mér en undanfarið. Ég hef fundið það út að núna lifi ég á fagurfræðilegu stigi Kirkegaards: Neikvætt og slæmt er það sem er leiðinlegt. Ég leitast við að verða mér úti sem mestan unað, nautnir og skemmtun. Í mínum huga er hið góða það sem er fagurt, yndislegt og þægilegt. Skv. kenningunni verð ég að lokum fórnarlamb tilfinninga minna og tilviljunarkenndra hughrifa. En grunnhyggin ég. Það er eins gott að ég fari að koma mér upp á siðferðilega stigið... Það furðulega er að ég held ég hafi verið á siðferðilega stiginu áður, stokkið af því, niður á fagurfræðilega stigið og þurfi núna að stökkva aftur upp. Ætli svoleiðis jójó-æfingar standist kenninguna?

Ég held að próflesturinn fari ekki vel með höfuðið á mér, samt er ég nánast ekkert byrjuð. Bara búin að lesa hálfa sögubókina og 50 bls í náttúrufræði. Ætti að halda áfram. Skynsemin, þið vitið. Oh, ég er svöng. Það er svartfugl í matinn og ég get ekki borðað hann. Sé alltaf fyrir mér þegar Axel og pabbi koma heim, vígreifir, með byssuna á öxlinni og fiðurfénaðinn í höndunum. Ætli það sé þá ekki banani í kvöldmatinn hjá mér, hittumst heil.

5.1.06

Það er nokkuð greinilegt að fríinu er lokið. Frekar ömurlegur dagur er að renna skeið sitt á enda. Ég var í skólanum til níu í kvöld, það er alltaf jafn hresst. Sérstaklega þegar maður er eins ógeðslegur og hægt er að vera, með ljótuna, túrverki, kvef í enninu, hausverk og nú held ég jafnvel að ég sé að fá hita? Ónæmiskerfið mótmælir því af hörku að ég hafi verið rifin upp úr fletinu kl. 8 í morgun.

Dagurinn tók líka svo á taugarnar því að ég fékk útúr fimm verkefnum eða prófum. Það er allt of mikið á einum degi, ef ég heyri minnst á að það eigi að láta mig fá einkunn fer ég öll að titra og skjálfa af stressi þar til ég fæ hana. Þetta reddaðist samt, 7 - 8,5 - 9 - 9 -9,7. Helvítis sjöa í þýskunni, mér er lífsins ómögulegt að fá hærra en sjö í nokkru sem tengist þýsku, svo léleg í málfræðinni. Kvíði fyrir prófinu. Mjög.

Það var samt gaman að fara aftur á stjórnarfund. Við Júlíus sættumst og margt skemmtilegt er í deiglunni. Arnar og ég dunduðum okkur við að skipuleggja þáttinn "Piparjúnka MA" eða "Bachelorette MA". Mér líst vel á þetta, en var hræðilega pirrandi við þessa vinnu. Afsakið elsku Arnar, stundum ræð ég ekki við hegðun mína. Okkur Arnari var sumsagt falið þetta verkefni vegna þess að við erum þau einu einhleypu í Stjórninni. Hre
Það beið mín glaðningur frá uppáhalds frænda mínum frá Svíþjóð þegar ég kom heim. Jólagjafirnar frá honum komust loks til skila, hann hefur skynjað það ljótuskeið sem ég geng í gegnum núna og sendi mér snyrtivörur! Góður, hann kann meiraðsegja að velja réttan lit á meiki. Það þykir mér afrek hjá karlmanni á fertugsaldri. Hann er bestur, furðulegur lyfjafræðiprófessor með hárið allt útí loftið, hálfgerður ofviti í mínum augum, búinn að búa svo lengi í Svíþjóð að hann talar með ótrúlega skemmtilegum hreim og slettir í sænsku. Vonbrigði ársins voru klárlega að fá hann ekki í heimsókn yfir jólin. Mig langaði alltaf að búa hjá honum í Svíþjóð þegar ég var lítil, langar það eiginlega enn. Fór einusinni í heimsókn til hans og man bara eftir að hafa keypt mikinn "glass" (ís), borðað jarðaberjalakkrís með fílamynd framan á, blásið fullt af sápukúlum af öllum gerðum og svo missti ég tönn í íbúðinni hans. Það er best að vera sex ára.

Ah, eftir svona dag er fátt annað hægt en að fá sér 56% súkkulaði og leggjast upp í rúm með góða bók. Ég lærði ekkert í dag, kemur. Hvar er sögubókin mín!? Ég lýsi hérmeð eftir henni, fundarlaun og viele Panik!

Hittumst heil. Kafteinninn kveður. (Fíla mig smá sem kaftein af því það er verið að spila brjálaðan mars í sjónvarpinu.)

4.1.06

Í þessu jólafríi hefur mér, með mikilli einurð, dugnaði og elju, tekist að safna meira spiki en áður hefur gerst. Vil ég óska sjálfri mér til hamingju með það. Nú er ég að hugsa um hvaða verðlaun hæfi þessum frábæra árangri, kannski ætti ég að taka sykur/ger/hveiti kúrinn skemmtilega upp aftur? Tjah, maður skyldi þó aldrei gera það. Hreyfing? Einhver með tillögur?

Lýsing á ástandi mínu seinustu daga (og líklega næstu, allavega í próftíðinni):

Fatnaður: Samanstendur af ömmunærbuxum (eða því sem næst), náttbuxum, þunnum sokkum, þykkum ullarsokkum utanyfir, íþróttatopp, slitnum afa-langermabol og flíspeysu ef mér er kalt. Sumsagt; mikið lagt upp úr að fötin undirstriki kynþokka minn og bara yndisþokka yfir höfuð.

Annað sem viðkemur útliti: Úfið hár (þó alltaf hreint), sem gjarnan er klesst upp í kamb. Skjannahvítur húðlitur. Fölari en áður hefur sést. Andlitsfarði kemur helst ekki nálægt fésinu á mér.

Staða: Liggjandi uppi í rúmi undir þykkri sæng með hrúgu af koddum undir hausnum og einn undir vinstri fætinum.

Aktiviteter: Lesa bækur. Ágætlega mikið af bókum, fjórarkommasex bækur. En alls ekki námsbækur, þær hafa ekki verið snertar. Í lestrarhléum; fara á netið, horfa á bíómyndir, borða, sofa.

Ó ljúfa líf, eins og Ellý og Villi sungu forðum. Held að þetta ástand muni haldast næsta hálfa mánuðinn eða svo, nema að ég verð að finna það í mér að taka upp námsbækurnar. Annað gengur ekki. Þangað til að prófunum er lokið munu því allar skáldsögur faldar á heimilinu. Held að mamma sé nú þegar að gera ráðstafanir, hún sér yfirleitt um svoleiðislagað.

Ég var að koma af King Kong, fór með Röggu og Arnari. Arnar hló að okkur Röggu því við lágum í sætunum og ég grúfði hausinn á mér ofan í úlpuna mína í nokkrum (mörgum) atriðum. Kristín Ljónshjarta.
Mér líkaði myndin, ég elska Peter Jackson. Ég elska hvað hann hefur gaman af því að ganga alltaf lengra með atriðin og tæknibrellurnar, það sést í myndunum hans. Ég elska ást hans á ógeðslegum verum, þrátt fyrir að ég geti ekki alltaf horft á þær. Mér finnst skrýtið hvað mér finnst mikið til hans koma, myndirnar hans falla ekki að afgangnum af kvikmyndasmekk mínum. Kannski afþví ég verð alltaf eins og spenntur, skefldur og glaður krakki þegar ég horfi á þær. Nú er ég farin að svefnröfla, afsakið.

Foreldrarnir, iðjuþjálfinn og dýralæknirinn, kváðu upp dóm sinn í kvöld. Annaðhvort illa marin á beinhimnunni eða með brákaða rist. Heppin. Þetta jafnar sig samt fljótt, gerði það allavega seinast. Þá steig fimmhundruð kílóa belja ofan á mig af öllum kröftum og stappaði. Kósý.

2.1.06

Nú árið er liðið í aldanna skaut, og aldrei það kemur til baka... Jájá. Það var gaman á gamlárskvöld, við eyddum fyrri hluta þess hjá Góu frænku og hennar fjölskyldu. Fjölskyldan hennar inniheldur tvo stráka, annan þriggja ára og hinn fimm. Þeim þótti að sjálfsögðu mjög gaman að öllum sprengjunum. Ég fékk hjartaáfall þegar að ég sá þá hlaupa um með stærstu flugelda sem ég hef séð, öskrandi "sjáðu hvað ég fann!". Æ, samt krútt. Bara hættuleg krútt.

Síðan lá leið okkar Dagnýjar, Olgu, Helgu frönsku og Ingu Völu til Bjarkar þar sem var glatt á hjalla. Við sátum inni í stofunni og töluðum, hver ofan í aðra og hlógum. Það var mjög gaman og góð byrjun á góðu ári. (Vonandi).

Næst var það Sjallinn, held að hálfur bærinn hafi verið þar. Ótrúlega gaman að hitta allt þetta fólk og knúsa það. Palli var að sjálfsögðu hress, sérstaklega þegar hann skipaði fólkinu að hoppa upp í loft. Júlíus tók skipunum hans mjög alvarlega og byrjaði að stökkva. Þessi flugferð hans endaði á fætinum á mér, núna er litla táin fjórföld og ég er stokkbólgin á fætinum. Flott hjá Júlíusi, fyrst að marið á hendinni eftir hann var horfið ákvað hann að finna nýjan höggstað á mér. Haha. Æ ég nenni ekki að segja meira frá kvöldinu, þetta var bara frábært og fólk er frábært.

Gærdagurinn fór svo í svefn, át og ógleði. Í þessari röð.

Seinasta ár hefur einkennst af meira álagi en áður hefur verið, en einnig meiri skemmtun. Miklar sviptingar og breytingar og stjórnarstúss og glimmerdjömm og stelpukvöld og allskyns sem var ekki partur af minu lífi fyrr árið 2005. Uppgjör:

Erfiðast ársins: Árshátíðin. Tók á.

Mest gefandi ársins: Árshátíðin. Svo ótrúlegt eftir á séð.

Ferðalag ársins: Ferðin til Tallinn með mömmu, pabba og Axel. Tallinn er frábær borg, þau eru frábært fólk.

Sjokk ársins: Þegar ég vaknaði við að læðan min var að gjóta í fangið á mér.

Gleði ársins: Að eiga kettlinga.

Söknuður ársins: Allir kettlingarnir.

Dagar ársins: Þeir dagar þegar Dagur frændi var í pössun hjá okkur í sumar.

Leiðinlegast ársins: Þessar tvær vikur sem ég eyddi í einangrun í kofa í Mývatnssveit við að þrífa Spánverjaælu og hland. Oj, svo leiðinlegur tími!

Móment ársins: Þegar pabbi birtist með bátinn okkar í eftirdragi einn dag eftir vinnu í Mývatnssveit. Hann ákvað að létta mér lífið og við fórum í frábæru veðri út á Mývatn. Það var ótrúlegt, hann tók með ferðagrill og við fórum upp í eina eyjuna og ætluðum að borða. Við ákváðum þó að flýja áður en mýið át okkur og enduðum á því að grilla í bátnum, úti á miðju vatni. Þar tróð pabbi í mig pylsum og hrefnukjöti, hráu jafnt sem steiktu. Namm. Himbriminn fylgdist með okkur allan tímann.

Fyndnast ársins: Þverslaufu-ævintýrið hennar Gittu.

Tónleikar ársins: Sigur Rós, bersýnilega.

Afrek ársins: Að lifa tvo mánuði af án þess að borða nokkurn sykur, ger eða hveiti.

Klúður ársins: Að fá 6,5+ á munnlegu þýskuprófi. Djöfull.

Sigur ársins: Þegar ég, Siggi Óli, Jón Steinn, Hólmar og Jón Björn unnum í jólaþýskuverkefninu. Humm... kannski frekar að vinna stjórnarkosningarnar? Veit ekki.

Sveittasta djamm ársins: Trabant.

Fag ársins: Íslenska, ótrúlegt en satt.

Skelfing ársins: Þegar ég svaf heila nótt með þröst inni í herberginu mínu og vaknaði við að hann flaug eins og þyrla yfir höfðinu á mér. Andlegt atgervi mitt bíður þess ekki bætur.

Samstaða ársins: Vel heppnaður fundur um samræmd próf og frábær þátttaka Menntskælinga i mótmælunum.

Boð ársins: Teboðið góða og víðfræga.

Undur ársins: Bjartsýnislampinn sem ég sit í akkúrat núna.

Nú dettur mér hreinlega ekkert meira í hug. það eru ótal menn og konur ársins í mínu lífi, mér finnst ekki ástæða til að telja ykkur upp. Þið vitið vonandi hver þið eruð.

Vill einhver koma með mér í bíó á Narniu í kvöld? Ég kláraði bókina í gær.