31.8.04

Það sem er meira pirrandi en franskir strákar sem...

... sitja fyrir aftan mann í rútu og blaðra án afláts í sex tíma er þýsk systkini sem gera það sama nema SYNGJA (!) á leiðinni og éta kex sem ég þarf að ryksuga með ömurlegustu og þyngstu iðnaðarryksugu í heimi. (Var þetta ekki aðeins of löng setning?) Eins gott að síðasta ferðið mín er á morgun.

Síðbúnar afmælisgjafir...

... eru yndislegar! Sérstaklega í formi hvítrar orkedíu og Medúllu. Takk ástin mín!

Grænlenski kallinn...

... kom aftur í rútuna í dag og svei mér þá ef allt var ekki meira dejligt í dag en í gær. Var hann að reyna við mig? Ef svo er þá er það fyndnasta í heimi.

Bílstjórar sem sofna...

... undir stýri eru alls ekki sniðugir samstarfsmenn.

Er hægt...

... að vera með fjörfisk í auganu samfellt í 5 tíma og fá flís í ennið? Er ég einsdæmi? Á ég að gleðjast eða hryggjast yfir því?




30.8.04

Ég hef ekkert að segja svo...

ég segi bara eins og litli, fulli, grænlendingurinn í rútunni sagði fimm sinnum;

"Island er dejligt!"

26.8.04

Ég hlakka til:

Að vera ekki lengur lasin

Að fara á Hárið á morgun

Að hætta að vinna

Að fara til London

Að byrja í skólanum

Að byrja í tónó

Að fara í Myndlistaskólann

Að stunda jóga

Að taka bílprófið... eða nei?

23.8.04

Menning?

Skrapp á menningarnótt með Rannveigu mágkonu, Stefáni manni hennar og mömmu hans. Það má svosem deila um nafngiftina "Menningar"-nótt því maður sá fátt menningarlegt vegna fólksfjölda, maður komst hreinlega ekki að. Engu að síður var mjög gaman, við náðum allavega að sjá fullt af fólki, tangó, ljósmyndasýningu, málara að störfum og stomp...band?

Meðal þeirra sem heilsuðu mér:

Sigurlaug (reyndar í Smáralindinni)
Sara bekkjarsystir
Fullur strákur sem reyndi að heilla mig með páfagauk í búri (Ha?)
5 túristar sem höfðu farið með rútunni sama dag
Jónsi í svörtum fötum (Haha!)
Úlla Árdal
Ogseinastenekkisýst -Hólmfríður Helga- semvarídoppótakjólnumhennarmömmuþegarhúnflaugumhálsinnámérogégfórnæstumaðskæla.

22.8.04

Fóbía

Nú hefur fuglafóbía mín náð nýjum hæðum. Fóbía þessi, eða ofsahræðsla eins og hún myndi þýðast á okkar ástkæra ylhýra, hefur stigmagnast frá því að ég var barn.
Fyrsta atvikið sem ég man eftir, gerðist þegar ég var svona þriggja ára. Þá fór ég ásamt frænku minni í hæsnakofann í sveitinni til að ná í eggin og á meðan tættar hænurnar flögruðu yfir hausunum á okkur goggaði ein illgjörn púta í puttann á mér. Áfallið var svo mikið að mig dreymdi hænugogga lengi á eftir. Allar götur síðan hef ég svo þurft að fara inn í þennan illþefjandi og þrönga kofa til þess að fæða óvini mína, taka frá þeim eggin og endrum og eins; bera þær dauðar út.
Mávar og sjófuglar hafa alltaf vakið mér óhug, sérstaklega fýlarnir þegar maður fer á sjó. Þá sveima þeir friðlausir yfir manni þar til pabbi er búinn að slægja og fleygir þorskinnyflum í þá.
Einhverju sinni sýndi RUV Hitchcock-myndina The birds. Ég hafði ekkert að gera þetta kvöld og ákvað því að poppa og horfa á ræmuna enda þótt ég sé lítið fyrir hrollvekjur. Ég ákvað að þessi væri svo gömul að hún gæti ekki verið hryllileg; Ég svaf ekki þessa nótt og held mig núna inni í bátnum þegar pabbi verkar fiskinn.
Í starfi mínu kemur það alloft fyrir að rútan keyri á fugla. Það sem er verst er að ég vorkenni þeiom ekki fyrst í stað, ég byrja alltaf á að ímynda mér að þeir fljúgi í gegnum rúðuna og ráðist á mig... Svo finn ég til með þeim...
Það er ótrúlega mikið af útflöttum og sundurtættum fuglum á þjóðveginum. Oft sér maður gráa máfaklessu á veginum þar sem einn vængur stendur uppúr, um daginn sá ég gæs í þremur hlutum og svo eru óteljandi leifar af því sem áður voru smáfuglar.
Ástandið var í lagi áður en martraðirnar byrjuðu. Martraðirnar já, mig byrjaði að dreyma að allir dauðu fuglarnir á þjóðveginum risu upp frá dauðum. Fuglazombíar eltu mig á röndum og ég var gerð ábyrg fyrir dauða þeirra allra.
Núna hefur mig dreymt þennan draum 5 sinnum og það væri gott að geta losnað við hann.
Dáleiðsla? Einhver ráð? ...Geðrannsókn..?

20.8.04

Það sem er pirrandi:

Franskir strákar sem sitja fyrir aftan mann og blaðra án afláts í 6 tíma.

16.8.04

Nú er ég brjáluð...

...eins og Kristján, hálfnafni minn, myndi orða það.

Alveg þoli ég ekki þegar maður leggur sig fram í því sem maður er að gera og fær ekkert nema skítinn fyrir. Ef það er eitthvað sem ég þoli verr er þegar logið er uppá mann eða jafnvel þegar fólk býðst til að gera ákveðna hluti og klagar mann svo fyrir að gera þá ekki.

Held ég verði að finna mér nýjan starfsvettvang næsta sumar, guði sé lof að skólinn er að byrja.

14.8.04

Það er ástæða fyrir öllu

Í sumar hef ég gert könnun á veðurfari í Borgarnesi. Þar sem ég keyri þarna í gegn og stoppa að meðaltali einu sinni á dag tel ég þessa könnun mjög vísindalega;

Í 98% tilfella er rok í Borgarnesi.

Með þessa staðreynd bakvið eyrað getum við ályktað að hún sé ástæðan fyrir því að allir Borgnesingar eru stórfurðulegir.
Tek þar sem dæmi Birgittu Geirdal (betur þekkt sem GtA) og Jóhann Lind Ringsted (betur þekktur sem Doli eða Lord of the Ringsted)

12.8.04

Lífið...

er úr kóngabláu flaueli, hvítu líni og sauðskinnslitu prjónaefni í dag.

P.s. Baðstrendur á Flateyri eru frábærar.

6.8.04

Tilviljun?

Ég var að labba heim úr strætó og allt í einu var mér kalt á fótunum og þegar Damien Rice náði hápunktinum í Cold water leit ég niður og sá að ég stóð í vatnsflaumi...

...Nágranninn hafði gleymt að skrúfa fyrir garðslönguna...

4.8.04

Eftirfarandi samtal á sér stað í efri koju, litlu barnaherbergi í Hafnarfirðinum. Eigandi bloggs tekur að sér að svæfa fjögurra ára frænda sinn, Mána Þór og er búin að lesa tvær sögur, búa til eina og tala um flest sem fjögurra ára börnum dettur í hug. Nema að Máni er ekki venjulegt fjögurra ára barn:

Máni:
Veistu afhverju mamma er með svona stóran maga?
Kristín: Afhverju?
M: (Hvíslar ábúðarfullur) Það er barn í maganum á henni!
K: Já... Það er frábært.
M: Ég vona að það sé stelpa. Ef það er stelpa ætla ég að skíra hana Þyrnirós.
K: En ef það er strákur?
M: Þá getur hann bara heitið... Þyrnirós...i!
K: Og helduru að mamma þín samþykki að strákurinn hennar heiti Þyrnirósi?
M: (Hugsar um stund og finnur ekkert svar sem hentar honum svo hann snýr sér að öðru - horfir á magann á mér og lyftir bolnum upp.) Afhverju ert þú með svona stóran maga?
K: (Horfir hugsandi á magann á sér, bítur í vörina og segir hikandi) Er hann nokkuð svo stór?
M: Hann er sko alveg risastór. Ég held hann sé svona stór afþví þú borðar alltof mikið.
K: (Veit upp á sig sökina og hummar)
M: Ef þú borðar svona mikið endar maginn á því að springa! Er nokkuð barn í maganum?
K: Nei... Það er ekkert barn.
M: Þá verðuru bara að borða minna. (Hikar og er þungt hugsi) Ég ætla aldrei að fá svona ógeðslega stóran maga... Og ég ætla heldur aldrei að fá barn í magann.

Á fallegu sumarkvöldi braut þessi fjögurra ára drengur ranghugmyndir og sjálfstraust Kristínar Helgu niður. Það er samt allt í lagi því umræddur Máni er uppáhalds manneskjan hennar í öllum heiminum.

2.8.04

Love tought me to lie...

Ég var ein heima og ég kveikti á sjónvarpinu og skipti á Sýn og Damien Rice var að spila Cannon ball og allt stoppaði og hjartað í mér líka.