30.1.07

Aðstoð óskast!

Ég er í óða önn við að skrifa Carmínu-greinina mína. Hún verður uppbyggð sem To do listi (figures).

Plís kommentiði svona, „to do“ punktum. Eitthvað sem ykkur finnst líklegt að ég setji á minn... eða þið skiljið.

Ef þið eruð vinir í raun, þá veit ég að þið kommentið. Sé svo til hvað ég nota :)

E.s. Þið þurfið ekkert að vera vinir í raun til að kommenta. Kunningjar og blogglesendur sem telja sig vita eitthvað hvernig ég er mega gera það líka.

E.e.s. Málfarið í þessari færslu er hræðilegt. Afsakið.

21.1.07

Satans satans satans lögfræði.

Þetta er svo leiðinlegt að mig verkjar. Ef að ég á að fara í Pollýönnuleikinn (ég hata samt Pollýönnu) þá var gott að ég valdi lögfræði vegna þess að:

a) Ég er búin að læra allskyns sem að ég hafði ekki hugmynd um áður og mun eflaust koma mér vel í daglegu lífi. Reyndar finnst mér að sumt af þessu námsefni ætti að vera kennt öllum, til dæmis í lífsleikni. Það væri tilbreyting frá þessari stanslausu ansvítans naflaskoðun sem fer fram í þeim tímum.

b) Ástæðan fyrir því að ég valdi lögfræði var sú að ég var að hugsa um að læra hana í háskóla. Jafnvel fara í Bifröst og vera í dragt með sleikt hár í pulsu. Þessi önn hefur þessvegna verið ágætis naflaskoðun, (áhrifaríkari en lífsleikniáfangar seinustu ára?) ég á aldrei aldrei eftir að leggja eitthvað þessu líkt fyrir mig. Frekar verð ég hreppsómagi og aumingi, hrehre. Nei ætli það samt...

Í gærkvöldið eyddi ég næstum tveimur tímum í að horfa á kynningu hjá Steve Jobs. Já, og ég varð alveg jafn glöð inni í mér og nördin sem voru á kynningunni þegar ég fylgdist með honum sýna allt Apple dótið. Ég er hrikaleg. Svo ekki sé minnst á iPhone, það var náttúrulega toppurinn. Pant!



Vá hvað ég er mikil efnishyggjumanneskja. Kannski ég ætti að fara í Bifröst? Eða... Æ ég er farin að spinna tóma þvælu, bara til að vinna mér inn gálgafrest... En bækurnar bíða víst.

17.1.07

Andskotans djöfuls helvíti.

Þegar maður er upptekinn af eigin sársauka er gott að lesa „Um sársauka annarra“ eftir Susan Sontak.

Það slævir ekki jafn mikið og verkjatöflur. Vekur mann upp.

E.s. Þættirnir hans Jónasar Sen (Zen) sem voru á sunnudagskvöldum verða ekki fleiri. Það syrgjum við Gitta (Glitfríður Schiöth).



In memorian.

10.1.07

ANDVÖKUSÁLMUR

Svei þér, andvakan arga,
uni þér hver sem má.
Þú hefur mæðumarga
myrkurstund oss í hjá
búið með böl og þrá,
fjöri og kjark að farga.
Fátt verður þeim til bjarga
sem nóttin níðist á.

Myrkrið er manna fjandi,
meiðir það líf og sál,
sídimmt og síþegjandi
svo sem helvítis bál,
gjörfullt með gys og tál.
Veit ég, að vondur andi
varla í þessu landi
sveimar um sumarmál.

Komdu, dagsljósið dýra!
Dimmuna hrektu brott.
Komdu, heimsaugað hýra!
Helgan sýndu þess vott,
að ætíð gjörir gott, -
skilninginn minn að skýra,
skepnunni þinni stýra.
Ég þoli ekki þetta dott.

Ég orða hlutina ekki eins vel og Jónas.

Eitt orð - andskotans.

8.1.07

Í tilefni afmælisins hlusta ég á Aladdin Sane og fleiri plötur, skoða myndir á netinu og les greinar um snillinginn í stað þess að læra. Krónískt letikast og námsleiði, á besta tíma. Sálfræði hvað, spyrjið mig frekar út í Bowie.



Sextugur í dag, til hamingju með það heimur.

1.1.07

Gleðilegt nýtt ár!

Það er farið að styttast í annan endann á þessu ótrúlega góða jólafríi. Það besta hingað til? Allavega mjög viðburðarríkt og notalegt. Lítið um skyldur og lítið lært, en ég hef nú ekki áhyggjur af svoleiðis löguðu enn sem komið er. Ég er búin að þeytast eins og skopparakringla á milli bæjarfélaga - Akureyri, Dalvík, Akureyri, Skagafjörður, Akureyri, Dalvík - Svona voru seinustu dagar. Þeir einkenndust jafnframt af veisluhöldum, vandræðalegum augnablikum, góðri tónlist, flugeldasprengingu við jörðu niðri, fjölda fólks sem er ó svo gaman að hitta og skemmta sér með, braghendu (ég kann sko að kveða stemmu), ljóðalestri, innilokuðum bíl, áramótafagnaði og almennri yfirgengilegri gleði og ánægju.

Áramótaskaupið var það besta sem ég hef séð. Mig langar að sjá það aftur, verð að semja við einhvern sem tók það upp. Engin áramótaheit voru strengd (tjah, kannski bílpróf..?) og völvuspáin er jafn mikið bull og alltaf. Árið 2007 leggst vel í mig og ef það verður jafn viðburðarríkt og skemmtilegt og seinasta ár var þá prísa ég mig sæla. Það er von á svínslega löngum myndskreyttum annál og uppgjöri við tvöþúsundogsex á þessa síðu í náinni framtíð, stei tjúnd.

Kristín.