27.10.05

Jæja, seinasti í vetrarfríi runninn upp. Ótrúlega súrsæt helgi komin að lokum. Nenni ekki að tala um það.
Freyjulundur 04 var sætur út í gegn, lasagna og tómata-mozzaarella salat að hætti arnars og ottós, aðallega ottós. Heimasíðuskoðanir og hlátur. Baðið góða sem rúmaði átta manns í þetta skiptið, dj David Hume og loks snarrugluð Dagný á leiðinni heim. Haha. Í bílnum hennar Ingu var sumsagt svona hálshringur frá Rúmfatalagernum, þið vitið, svona sem maður setur utan um hálsinn svo maður geti sofið á ferðalögum. Þetta vakti mikla undrun Dagnýjar:


Dagný: Hvað er þetta?
Kristín: Þetta er svona til að setja um hálsinn...
D: (Búin að setja þetta eins og spöng á hausinn án þess að bíða eftir svari). Vá hvað þetta er asnaleg eyrnahlíf, hún hylur eyrun ekkert!
K: Nei, sjáðu þetta er til að setja utan um hásinn. (Set hringinn um hálsinn á henni).
D: Ertu að grínast hvað þetta er lélegur trefill?! (Hlær mjög hátt, reynir svo að tosa þetta til). Þetta nær ekki einu sinni alla leið um hálsinn! (Rífur þetta af sér, lemur mig nokkrum sinnum með þessu og þrykkir þessu til Ottós).


Já, hress Dagný. Engu að síður mjög fyndin og skemmtileg.

Æji ertu að grínast hvað ég nenni engu? Á samt eftir að gera svo margt. Ætla samt að byrja á að panta mér klippingu, afþví það er mikilvægast af öllu, haha!

E.s. Til hamingju þú sem þýddir nýju Vanish oxi action (eða eitthvað) auglýsinguna! "Efnin verða að vera aðskild þar til rétt áður en þau snerta flíkina". Flooott...

26.10.05

Já, ég hef ákveðið að vera hetja og taka prumpáskorun Gittu, fyrst stúlknanna. Þetta var líka sérlegur prumpdagur svo það er vel við hæfi.

Leikreglur prumpsins eru á þessa leið:
1. Hvernig prumpari ertu?
2. Lyktarðu undir sængina þegar þú prumpar?
3. Hver finnst þér að stefna íslenskra stjórnvalda eigi að vera á prumpi?
4. Hver býr til verstu prumplyktina?
5. Ein góð prumpusaga!
6. Prumpaðu fimm "vini" þína

1. Veit nú ekki með þessa, er nú bara frekar venjuleg held ég. Svona misjafnt eftir dögum bara. Misjafnt eftir því hvar ég er líka, reyni að hemja mig í skólanum og á öðrum opinberum stöðum en læt allt gossa hér heima! En ósmekklegt.

2. Nei, aldrei. Það er ógeðslegt.

3. Mér finnst að opna eigi umræðu um prump. Þetta á ekki að vera feimnismál, prump er öllum mönnum eðlilegt. Já, kannski ætti að vera svona prumpfræðsla samhliða forvarna- og kynfræðslu í grunnskólum. Væri það ekki ágætt?

4. Sko... Þessi er pínu erfið. Myndi segja pabbi og Axel og í ljósi dagsins í dag kemst Júlíus á þennan lista. Ojbara.

5. Mig langaði að segja eldhús/mágkonu söguna en það er eiginlega pínu "you had to be on msn" saga. Svo ég ætla að segja eina aðra. Það er alltaf sama klósettplanið hjá okkur fjölskyldunni á morgnana. Mamma vaknar fyrst og byrjar, vekur mig svo og við deilum oftar en ekki baðinu í morgunsárið. Kisa verður líka að vera með, henni finnst agalega gaman að sitja á upphitaða gólfinu og horfa á okkur vakna. Einu sinni vorum við saman þrjár á klóstinu og ég heyri rosalegt prump og dágóð fíla fylgir í kjölfarið. Ég horfi hneyksluð á mömmu og hún á mig til baka. Svo segjum við báðar "þetta var ekki ég!" og kom í ljós að kisa hafði hleypt þessum rosafret í loftið. Hefði aldrei trúað að svona fítonskraftur byggi í svona litlu dýri. Æji líka pínu you had to be there saga... kannski eru allar prumpusögur það.

6. Já, ég ætla að prumpa Dagnýju (sem hefnd fyrir prumpusögurnar sem hún lýgur upp á mig!), Arnar, Ara, Eddu og Kristján Einarsson.

Nú er klukkan orðin alltof margt, ég á enn eftir að gera milljón og einn hlut en ætla samt að sofa. Kemur ég.

23.10.05

Já halló halló gott fólk. Komin heim frá Eistlandinu góða, vá hvað það var gaman! Reyndar ekki gaman að "beina" flugið okkar endaði með rútuferð til Keflavíkur þar sem það var þoka hér á Akureyri. Þannig að við misstum hálfan dag í útlöndum en fengum að fara í fríhöfnina í staðinn... Jájá. Létum þetta vesen ekki á okkur fá og byrjuðum á að skoða gamla bæinn í Tallinn og fara í mollið góða fyrsta daginn. Gamli bærinn er sumsagt miðaldabær, nánast óbreyttur og girtur af með múrvegg. Mjög flott alltsaman, sérstaklega gott fyrir mig sem er sjúk í allt gamalt. í gamla bænum er líka risastór kirkjuturn, sem var á sínum tíma hæsti turn í heimi. Hægt var að kaupa miða í turninn, við gerðum ráð fyrir því að þetta væri svipað fyrirkomulag og í Hallgrímskirkju, að það væri lyfta upp og útsýnissvæði efst. Nei, þar vorum við alveg að misskilja. Ég dó fjórum sinnum á leiðinni úr andnauð, lofthræðslu, jafnvægisleysi og innilokunarkennd. Þetta var sumsagt örmjór og brattur stigi alla leið, í nánast algjöru myrkri og frekar vonlaust að mæta fólki. Þegar við komumst loksins upp var örmjór tréstigi upp á enn mjórri brún sem var girt af með afskaplega ótraustvekjandi járnhandriði. Þarna átti maður að ganga hringinn í kringum og virða fyrir sér útsýnið en ég sá nú eiginlega bara svart. Hefði átt að fatta um hvað þetta snerist þegar miðakellingin hló að okkur í kaupunum. Engu að síður góð líkamsrækt og lífsreynsla!

Annar dagurinn fór í að keyra um á bílaleigubíl og villast, GPS staðsetningartækið hans pabba kom að ansi góðum notum. Við keyrðum í gegnum fullt af smábæjum og skógum, allt afskaplega fallegt og skemmtilegt. Reyndar skortur á klósett- og mataraðstöðu sem olli pirringi á tímabili en hey! Enduðum líka í hafnarsvæðinu í Tallinn, ekki búin að borða neitt af viti nema morgunmatinn allan daginn. Þar komum við auga á veitingastað og gengum inn. Þar sem við stóðum í gallabuxum með lauf í hárinu og sand á skónum föttuðum við að þetta var sirka 5 stjörnu veitingastaður. Þjónninn var nú ekki viss um hvort hann átti nokkuð að vera að hleypa okkur inn en fyrir einhverja gæsku gerði hann það. Við sátum á bakvið afganskan olíujöfur og eistneskan bankastjóra og vorum svöl. Fengum okkur svo humarsúpu, ég og mamma fengum okkur það meirasta og mest skreytta nautakjöt sem ég hef á ævinni fengið og pabbi og Axel fengu sér villigaltarkjöt. Þessi máltíð kostaði u.þ.b. 2000 kr. á mann. Já góðan daginn. Umm, ég fæ vatn i munninn. Þessi góði dagur endaði svo með miklum villingi um götur borgarinnar þar sem við eyddum klst. í að komast á hótelið.

Þriðja og seinasta daginn notuðum við í að fara einn hring í gamla bæinn og versla, versla, versla! Axel stökk inn á hárgreiðslustofu þar sem voru bara rússneskar jússur með aflitað hár og i skærum bolum að klippa. Kúnnarnir voru gamlir Rússar sýndist mér. Hugrakkur Axel! Þetta var samt i lagi, hárið fínt fyrir utan smá hor sem gellan klíndi í það. Svo fórum við í mollið þar sem ég keypti u.þ.b. 1000 flíkur, nei kannski ekki alveg. En keypti líka múmínálfakönnur, sem er geggjað. Var að bjóða Hildigunni, Gittu og Röggu í te, við drukkum úr könnunum og þær eru finar. Já flott.

Það var náttúrulega bara ótrúlegt að vera með bróður mínum i herbergi á hótelinu. Fyrsta kvöldið sofnaði hann í fötunum og við mamma vorum að reyna að fá hann til að hátta sig.
K: Axel farðu og háttaðu þig.
A: Haltu kjafti.
K: Axel, farðu að hátta þig, þú ert sofnaður.
A: Nei, ég er vakandi (steinsofandi).
K: Þú ert sofnaður, farðu og háttaðu þig!
A: Ég er eins og Pétur Pan, ungur að eilífu og fer að sofa þegar ég vil!

Seinna um nóttina vakna ég og hann er enn í fötunum.

K: Axel! Háttaðu þig!
A: Þegiðu og taktu myndina.
K: Hvaða mynd?
A: Drífðu þig að taka mynd af mér.
K: Get það ekki, gleymdi minniskortinu.
A: Tuuussa.

Hann man að sjálfsögðu ekkert eftir þessu, í seinna skiptið var hann sumsagt að dreyma að hann væri á hommabar og ég átti að taka mynd af honum þar. Eðlilega.

Æji já. Góðar setningar flugu úr mömmumunni í þessari ferð, enskusnillingnum sjálfum. Tommy Hilfiger varð Tommy Hellfinger. Jább. Og: "Haha, kjánar, þau eru með kirkju heilagrar vofu!". (Holy Ghost!) Haha.

Seinasta kvöldið var samt líka ágætt þar sem við Axel stilltum á sænska sjónvarpsstöð, þar var 50 ára afmæli júróvisjón í sjónvarpinu. Axel var rokkaður gæi og hoppaði á rúminu og söng með lögum á borð við Ein bische Frieden, Waterloo og Save your kisses for me. Flottur.

Vá, fjölskylda mín verður ekki ánægð með þessa færslu. Held ég láti staðar numið og fari að sofa bara.

16.10.05

Nei heyrðu, heyrðu. Ætli maður verði ekki að halda aðeins áfram að tala við sjálfan sig?

Ég hitti samviskuna mína og einnig versta sölumann í heimi í gær. Vá, tveir fyrir einn. Samviskan holdgerfðist sumsagt í unglingsstaula með gelgjubólur sem var á kassa í nýju Samkaup-búðinni fyrir neðan mig. (Of löng setning, passa svona).
Allavega, ég stökk inn til að kaupa tvo lítra af mjólk og geng framhjá ískælinum. Gríp með mér einn Ben&Jerry's með smákökudeigi og geng að kassanum.

Samviskan: Ertu viss um að þú viljir svona?
Kristín: (Trúi ekki mínum eigin eyrum og held að hún sé að setja út á vaxtarlag mitt) Fyrirgefðu?!
S: Já, ertu viss, sjáðu þessi er gegnfreðinn alveg. (Bendir á klakaþekju ofan á lokinu).
K: U, já. (Fer og næ í annan sem er minna frosinn, geng aftur að afgreiðsluborðinu).
S: Nei heyrðu, þessi er ekkert skárri!
K: Ha?
S: Í alvörunni, þú getur ekkert borðað hann svona, þetta er gegnfreðið.
K: U... Ég tek þá bara mjólkina. (Hundfúl).

Á meðan þessu stóð myndaðist að sjálfsögðu röð, en samviskan hélt sínu fram þrátt fyrir það. Ef að hennar nyti við núna væri ég líklegast að gera sálfræðiritgerð, obbobbobb! Fer nefnilega til Tallinn á þriðjudaginn og þarf að klára ansi margt fyrir þann tíma. En mikið hlakka ég samt til að fara til Tallinn, það verður örugglega æði. Segið hvað þið viljið frá útlandinu, samt beint flug þannig ég fer ekki í fríhöfnina.

Smá meira samtalsblogg, er það ekki gott? Við systkinin sátum við eldhúsborðið áðan og mamma var að brasa í eldhúsinu.

M: Viltu samloku elskan mín?
A: Jájá.
M: Hvað viltu inn í hana?
A: Komdu mér á óvart.

Stuttu seinna:

A: Afhverju eru flögur í samlokunni minni!?
M: Það er sörpræsið!

Já, þetta er eðlilegt. Ofureðlilegt alveg.

8.10.05

Ég hef verið klukkuð. En ágætt tækifæri til að byrja að skrifa á ný.

1. Fátt fer jafn mikið í taugarnar á mér og skíthælar og heimskt fólk. Skíthælar eru samt verri en heimskt fólk, því enginn velur sér gáfurnar sjálfur. Í mínum huga spanna skíthælar mjög breitt svið, skíthælar eru meðal annars þeir sem svindla á kerfinu, svíkja undan skatti og þeir sem fara heim þegar það er söngsalur.

2. Ég var í sveit hjá ömmu minni og afa á sumrin frá því ég var fimm ára þar til ég var 16 ára. Amma hafði alltaf fullt af krökkum í sveit, þ.e.a.s. hún fékk börn í skammtímafóstur frá félagsmálastofnun. Einnig fengu börn kunningja hennar oft að vera. Börnin voru eins misjöfn og þau voru mörg, samt voru flest ofvirk eða með annars konar vandamál. Af öllum þessum börnum man ég aðeins eftir 5 stelpum sem komu, það voru alltaf miklu fleiri strákar. Mér samdi líka alltaf betur við þá, sama hversu snargeðveikir þeir voru. Allar þessar stelpur náði ég að græta, rífast við eða hrekja í burtu á einn eða annan hátt. Þær tóku líkast til of mikla athygli frá mér. Ég skrifaði tveimur þeirra andstyggileg bréf og nokkrar reifst ég við og píndi andlega. Ég er ennþá með samviskubit yfir þessu því að amma þurfti að afsaka hegðun mína þegar foreldrarnir hringdu brjálaðir í hana. Ég bara trúi ekki að ég hafi verið svona mikil t****.

3. Það sem fer jafnvel enn meira í taugarnar á mér en skíthælar er þegar nöfn eru fallbeygð vitlaust. Dæmi: Þetta er frá Kristíni. Ég er að fara til Jón Más. Arrrgh!

4. Þegar ég var yngri, og þetta kemur reyndar stundum fyrir ennþá, fór ég í "ástand". Vissi ekki þá, og veit ekki ennþá, hvað ég á að kalla þetta. Þetta lýsti sér þannig að allt í einu sá ég allt gerast á rosalegum hraða í kringum mig, á meðan það er róleg, sefandi rödd í hausnum á mér sem endurtekur og útskýrir allt sem er sagt og gerist. Þetta er eins og að vera á tveimur bylgjulengdum. Þegar ég var yngri leið mér stundum eins og ég væri inni í brennandi húsi og gæti ekki kallað á hjálp, þannig að oft endaði "ástandið" með grátköstum. Ég gat aldrei útskýrt hvernig mér leið. Þetta gerist mun sjaldnar núna en þegar þetta gerist þarf ég að fara í kalda sturtu eða láta einhvern hrista mig svo þetta hætti. Mjög óþægilegt þegar ég var yngri en ég er farin að hafa betri stjórn á þessu núna svo stundum er þetta bara gaman.

5. Ég er fullkomnlega háð foreldrum mínum og sérlega mömmusjúk. Núna er mamma mín t.d. í sveitinni aðra helgi í röð og ég er að deyja úr söknuði. Skælivæl.

Jæja, ég er nú svo sein í þessari klukk-goggunarröð að ég klukka engan.