28.7.04

Gribba

Í gær ældi ég áður en ég gekk til vinnu. Það var ljúft. Vegna þess hvað æluaðfarir mínar tóku langan tíma þurfti ég að hlaupa við fót til að ná rútunni. Uppfull af ógleði og ofreynslu rukkaði ég fólkið sem var svo ólánsamt að vera viðskiptavinir SBA-Norðurleiðar þennan morguninn.
Á leiðinni í Borgarnes ágerðist ógleðin, ég gat rétt spýtt því útúr mér í mígrafóninn hve lengi við myndum stoppa áður en ég hljóp inná Hyrnu klósett og ældi... meira. Botninum var náð þegar þýskar kellingar buðu mér aðstoð sína.
Eftir að hafa hlaupið út með kassa á Bifröst og gegnblotnað ákvað ég að dagurinn yrði ekki verri og svaf af mér Holtavörðuheiðina.
Þegar við komum að Brú hrökk ég upp við öskur og óhljóð. Fjórir krakkar á aldrinum 10-12 ára sátu aftarlega í rútunni og létu eins og áðurnefndar þýskar konur væru að sýna þeim handakrikahár sín.

Myrk í framan gekk ég aftur í rútuna og spurði alvarleg: "Krakkar eruð þið með þessi læti?"
Þegar þau fóru að benda hvort á annað og klaga fyrir hárreitingar og bolabrögð hvarf þolinmæði mín, sem var þó lítil fyrir, og ég gargaði á mettíma: "Mér er nákvæmlega sama hver hárreitti hvern eða hver gerði hvað! Þið eruð orðin nógu gömul til að geta tekið ábyrgð á hegðun ykkar og þetta er ekki ásættanleg hegðun! Þið hafið engan rétt á að trufla aðra farþega en ég hef fullan rétt á að henda ykkur út ef þið hagið ykkur ekki! Er það skilið?" Að lokum bætti ég ísmeygilega við: "Eða viljiði kannski verða eftir í Staðarskála?"

Það þarf vart að taka fram að andlitin flugu af börnunum og ekki heyrðist í þeim það sem eftir var ferðar. Eftir að hafa fengið útrás á ormunum hvarf ógleðin eins og dögg fyrir sólu. Tenging þarna á milli...?


26.7.04

Pælingar
 
"Ég held, að ef maður er svona ekki of ríkur.. en heldur ekki of fátækur og maður fari í vinnuna á hverjum degi, og eigi bara svona venjulegt hús, þá held ég að allt sé bara leiðinlegt.
Ég held að maður verði að vera svolítið skrýtinn...
Svona eins og ég. "

Ríkey Þöll, 8 ára.
 
Mikið elska ég þessi börn.

 

23.7.04

Þar kom að því að pabbi fengi sínu framgengt...
 
Þetta verður veikindablogg að þessu sinni.
Fékk nefnilega blöðrubólgu í fyrsta skiptið í fyrradag.  (Svolítið kaldhæðnislegt að byrja á þessu bulli í júlímánuði.)

Pabbi fékk langþráð tækifæri til að dæla í mig dýralyfjum af því tilefni;

Þannig er að ömmu áskotnaðist hundur fyrir nokkru. Hundurinn er íslenskur, ofdekraður og ofverndaður,  en honum fylgdu einmitt allskyns möguleg og ómöguleg lyf.
Þegar amma frétti af þjáningu minni renndi hún í gegnum lyfjadósirnar hans Rebba.
Innanum lyf við hverskyns ofnæmi, kláða, stressi, þunglyndi og aðskilnaðarkvíða, (haha) fann hún blöðrubólgulyf, merkilegt nokk.

Pabbi fletti upp í lyfjabók og fullvissaði mig um að þetta væru sömu lyf og mannfólkið notar.  
Ég var nú treg til að gleypa hundalyf, en sökum mikilla kvala og leti (hver nennir að pissa á tveggja mínútna fresti?) sturtaði ég tveim töflum ofaní mig fyrir svefninn.
Og viti menn-ég var eins og ný manneskja þegar ég vaknaði!

Boðskapur: Hundar eru líka menn... ha, nei? Eða kannski bara: Treystið pabba, hann veit alltaf best.

P.s: Pabbi fékk nýja dollu handa mér þar sem Rebbi var búinn að bryðja eitthvað af hinum.
Utan á dollunni stendur: Eigandi dýrs: Alfreð Schiöth.
Að vissu leyti er það rétt...

21.7.04

Frúin í Hamborg
 
Ég gæti hæglega eytt sumarkaupinu á einum eftirmiðdegi í þessari búð.
Um daginn keypti ég handbróderaðan, hvítan, ítalskan nærkjól frá svona 1930.
Hann er nýji uppáhalds hluturinn minn.
Svo keypti ég líka tvær blikkdollur með rósamynstri sem koma sér eflaust vel til að geyma eitthvað af mínu óendanlega skrani.

20.7.04

Útilegumenn
 
Fékk tveggja daga frí um daginn og ákvað að eyða því í útilegu.
Mamma og pabbi skutluðu mér og Helga því í Lundskóg þar sem pabbi blés vindsængina okkar upp með lungunum.
Við eigum rafmagnspumpu heima, pabba fannst þetta bara meiri "stemning".
Fórum í sund á Illugastöðum og gengum örugglega svona 7 km  í brjálaðri blíðu, mjög plebbalegt og sætt alltsaman.
 
Að vinna með mönnum
 
Mennirnir sem ég hef unnið hvað mest með í gegnum lífið eru pabbi minn og afi.
Það er ekki hægt að segja að þessir menn eigi mjög auðvelt með samskipti meðan á vinnunni stendur.
Sá fyrrnefndi kýs að segja sem minnst. Hummar í mesta lagi en verður svo argur ef maður skilur hann ekki.
Guð forði honum frá því að endurtaka skipanir heyri maður ekki í honum.
Sá síðarnefndi talar hins vegar meira. Venjulega er hann á dráttarvél, Landcruiser jeppa eða fjórhjóli, flautar og kallar svo háum rómi á mann:  "Rektu rollurnar suðurfyrir garðinn og farðu svo með þær norðurfyrir kelduna... "
Lesendur skilja vonandi að það getur verið mjög erfitt fyrir 9 ára barn sem kann ekki áttirnar að skilja slík fyrirmæli.
Í vinnu minni sem bílfreyja, þar sem ég þarf að starfa með ótal mismunandi bílstjórum, hefur mér skilist að fátt er ungri stúlku betra veganesti út á vinnumarkaðinn en að vinna með akkúrat svona mönnum.
Sú reynsla að vinna með pabba mínum hefur kennt mér að segja aldrei "ha" heldur hlusta vel og einnig hefur hún bætt innsæi mitt verulega. Ég bara horfi á og "veit" einhvern veginn hvað ég á að gera. Þetta líkar bílstjórum mjög vel. Að vinna með afa hefur kennt mér að skilja fáránlegustu og ótrúlegustu leiðbeiningar svo allt annað verður leikur einn. 
Mæli þessvegna með að allir vinni með afa Leifi og einu stykki Shiöthara í einhvern tíma, einhvern tíman á lífsleiðinni.
 
 
London beibí
 
Fallega borg. Ó hve lengi hef ég beðið...
Það er staðfest, ég er á leið til London. Farmiðar keyptir og hótel bókað...held ég?
Allavega, ég, Helgi, mamma, pabbi og Axel förum til London 8. september og verðum í fjórar nætur.
Hlakka svo til!
Verðum í hóteli rétt hjá Soho hverfinu, í göngufæri við The British Museum og Oxford Street...
Grrrr...
 

 


14.7.04

Barnið er fætt

Hún er svo falleg.
Þið trúið því ekki.
Canon Ixus 430.
Afrakstur margra rútuferða og kassaafgreiðslutíma.


Málhelti

Gormælska hlýtur hreinlega að vera skemmtilegasta málfötlun sem völ er á.
Fólk sem er haldið þessum frábæra eiginleika hefur sogast að mér líkt og flugur að rúturúðu seinustu daga.
Hlýt ég að álykta að einhverjum þarna uppi sé vel við mig
og hafi ákveðið að ég ætti skilið að hlæja dágóðan skammt á degi hverjum.

7.7.04

Ýlda

Ég er svo úldin! Er með ógeðispesti.
Ég hef nákvæmlega ekkert að segja.
Hausverkur.
Svefn.

2.7.04

Í gær var seinasti dagur minn sem Þyrnirós.
Þyrnirós var sextán ára, eins og ég var og þessvegna fannst Mána frænda mínum að ég gæti alveg verið Þyrnirós.
Alvara lífsins er runnin upp, ég er sautján og ekki lengur prinsessa.
Og til að svara mörgum sem munu spurja mig: Nei, ég er ekki komin með bílpróf.

Er að fara í sveitina þar sem er búið að plana mikil hátíðarhöld.
Hopp og hí, húllum hæ og sjö börn til að passa. Átta ef ég tel Helga með.