30.12.04

Ljúf jól...

þar til prófastressið hófst. Gaman að það var bara stressið sem kom með hækkandi sól, ekki dugnaðurinn til að byrja að læra... árans.
Líka gaman að segja frá því að ég flysjaði á mér puttann í gær. Það skrítnasta sem ég hef gert í langan... tjah, í nokkra daga allavega. Fékk nefnilega ofnæmi og sýkingu í heilbrigðan putta því að brotni puttinn var spelkaður saman við annan með brúnum plástri. Ég var með tvöfaldan, rauðan og þrútinn putta í nokkra daga, svo fór ég á penisilin og ofnæmislyf og þá varð puttinn eins og á gamalli ömmu, ég gat hrukkað hann og gert skúlptúra úr húðinni. Það var gaman. Síðan í gær flysjaði ég ömmuhúðina af honum, eins og fyrr segir. Hef ekki heyrt um neinn annan sem hefur lent í þessu, típískt.
Fór á The Incredibles í gær, það var alveg merkilega gaman! Sakna samt smá svona gamalla Disney mynda, það er allt tölvugert núna. Ekki alveg sami sjarmi yfir þeim.
Búin að lesa Karitas, Fólkið í kjallaranum og Bátur með segli og allt í fríinu. Þeim lestri hefði kannski betur verið varið í sögu og þýsku en andskotinn hafi það. Vil lesa mínar jólabækur í fríinu. Er samt búin að læsa Kleifarvatn og Sakleysingjana inní skúffu.

Skyn mitt fyrir réttum orðum á réttum stað og tíma helst óskert:

Staður og stund: Verndaður vinnustaður þar sem undirrituð mætti í jólahlaðborð á Þorláksmessu til móður sinnar, forstöðumannsins. Einræðan hefst þegar undirrituð reynir að nota sína þriggja putta hægri hendi til að veiða grafna laxinn á diskinn sinn.

Kristín muldrar blótsyrði meðan röðin stoppast fyrir aftan hana. "Andskotans djöfull, helvíti!"
Hækkar róminn án þess að gera sér almennilega grein fyrir því. "Ég er alveg fötluð með puttana svona!" Þagnar þegar hún finnur fyrir stingandi augnaráði móður sinnar og fleiri fastra starfsmanna í hnakkanum. Áttar sig og sekkur í gólfið á meðan hún virðir fyrir sér starfsmennina, flest andlega og líkamlega fatlað fólk af öllum stærðum og gerðum. Lætur laxinn eiga sig og heldur áfram blóðrauð, í von um að hafa ekki sært neinn.

Til hamingju Kristín!

Ætla að fá mér að éta og jafnvel læra? Ha?18.12.04

Nenni ekki að blogga ....

en hef skothelda afsökun fyrir því í þetta skiptið. Braut líklega á mér hægri löngutöng á fimmtudaginn, það er löng og góð saga að segja frá því, nenni hins vegar ekki að segja hana.
Er svo fjandi lengi að pikka inn. Stutt samtal síðan í gær í staðinn:

Kristín: Andskotans aumingi er ég, get ekki einu sinni þvegið mér sjálf um hárið, mamma verður að gera það!
Arnar: Getur ekki einu sinni skeint þér.
Kristín: Jú, get það alveg með vinstri.
Arnar: ... Kommúnisti.

Stolt dagsins: Ég GAT þvegið mér um hárið með sæðingahanska frá pabba!

15.12.04

Muninsgeðveikin endaði og byrjaði á ný, á annan hátt samt.
Bráðum losna ég úr henni...