27.6.06

Helga hýsti mig á Njálsgötunni um helgina. Það var ótrúlega kósý og kann ég henni bestu þakkir fyrir.

Ég fór sumsagt suður til að vera á alþjóðlegri ráðstefnu um trúleysi, og hún var mögnuð. Ég er eiginlega bara í skýjunum ennþá. Fyrir utan hvað fyrirlestrarnir voru fjölbreyttir, áhugaverðir og áhrifamiklir, var andrúmsloftið frábært. Það var gaman að vera í sal með 130 öðrum trúleysingjum sem voru klárir og málefnalegir, en höfðu líka mikinn húmor fyrir sjálfum sér sem og trúuðum. Það var afskaplega mikið hlegið á ráðstefnunni. Þrátt fyrir hláturinn og góða andann sem ríkti þessa tvo daga komst ég ekki hjá því að fyllast hörmungarhyggju. Sérstaklega þegar að bandarísku fyrirlesararnir greindu frá ástandinu þar og þegar rætt var um hvað trúarofstæki er að gera heiminum. Fáfræðin er líka ótrúleg. 47% Bandaríkjamanna trúa því að Guð hafi skapað heiminn fyrir 10.000 árum. Tæpur helmingur. Æ...

Þó að trú hafi ekki jafn mikil áhrif á stjórnvöld á Íslandi og raunin er í Bandaríkjunum, er fólki mismunað eftir lífsskoðunum sínum hér. Ríki og kirkja eru ekki aðskilin, og Þjóðkirkjan fær greiðslur frá ríkinu, aukalega við önnur trúfélög. Auk þess fá þeir sem eru skráðir í Siðmennt (lífsskoðanafélag) ekki að láta sóknargjöld sín renna til félagsins. Nei, samanlagt borga trúleysingjar 50 milljónir á ári til Háskóla Íslands, ef mig misminnir ekki. Fyrir utan þetta eru fleiri pottar brotnir og víðar. Á Íslandi eru lög um guðlast í gildi (sem stangast klárlega á við lög um tjáningarfrelsið), grafreitamál eru ekki í nógu góðu standi og kennt er upp úr norskum kristinboðsritum í grunnskólum í stað þess að börnum sé kennd hlutlaus, almenn trúarbragðafræði. Svo ég taki nokkur dæmi, þau eru fleiri.

Eins og ég sagði áður voru fyrirlestrarnir margir og góðir. Það sem stendur kannski helst uppúr hjá mér eru þó Dawkins, Sweeney og Barker. Annie Laurie Gaylor var líka með merkilegt erindi um stöðu kvenna þegar kemur að trúarbrögðum.

Fyrir þá sem ekki vita, er Richard Dawkins sá sem kom fram í Kastljósinu um daginn. Hann er líffræðingur og prófessor við Oxford og líklega einn sá allra klárasti maður sem ég hef hitt. Hann hefur skrifað fjölda bóka og gerði þætti fyrir BBC sem nefnast The Root of all Evil? sem vonandi verða sýndir á RÚV. Auk þess sem Dawkins er ofsalega klár, er hann rosalega skemmtilegur maður. Það sannaðist best fyrir mér þegar hann fékk sér sæti á borðinu sem ég sat við í hádegishléinu á laugardaginn. Hann spjallaði allan tímann við okkur sem sátum þar og var afar kammó. Ég var reyndar eins og auli allan tímann, ógeðslega feimin, enda nýbúin að hlusta á hann flytja magnaðan fyrirlestur. Ég keypti svo áritaða bók eftir hann, The Blind Watchmaker, sem ég er rétt byrjuð á. Hún lofar góðu.

Julia Sweeney er leikkona og ein af höfundum Desperate Houswifes þáttanna. Eins og gefur að skilja er hún því ótrúlega fyndin kona, og mjög klár líka. Hún flutti einleik á laugardagskvöldið sem fjallaði um það hvernig hún missti trúna, eftir að hafa verið alin upp í kaþólskum sið og síðan fikrað sig áfram í leit sinni að Guði. Leikritið var bæði mjög tilfinningaríkt og alveg hrikalega fyndið.

Dan Barker er fyrrverandi sanntrúaður predikari, sem missti trúna. Hann lýsti því hvernig hann upplifði trúna, og það að trúa sé sönn upplifun. Það var merkilegt að heyra það, sérstaklega þar sem ég hef aldrei upplifað sanna og efalausa trú. Hann lagði einmitt áherslu á það að þeir sem trúa _trúi_ í alvörunni. Hann líkti því við það þegar hann fékk martröð eina nótt og vaknaði í svitabaði og öskrandi þvi hann dreymdi að innbrotsþjófar væru að brjótast inn um gluggann til hans. Sú upplifun er sönn, en það þýðir ekki að innbrotsþjófarnir séu annarsstaðar en í höfðinu á honum. Það var afar skemmtilegt að hlusta á hann.

Æi já, það voru margir gullmolar sem féllu á þessari ráðstefnu.

Þegar ég var ekki á ráðstefnunni héldu Helga og Stefán Þór mér í hlutverki reiða, meðvitaða unglingsins. Stefán Þór benti okkur Helgu á heimasíðuna knowmore.org og ég er búin að hanga á henni síðan til að athuga hvernig fyrirtæki koma fram og vinna. Ég mæli með að þið prófið að slá inn orð eins og Coke, Nestlé og Chiquita. Ágætis dægradvöl og betra fyrir heilann en bubbles. Síðan horfði ég á Loose Change með Helgu, mynd sem fjallar um 9/11 og nú veit ég ekkert hverju ég á að trúa og hausinn á mér hringsnýst.

Að lokum vil ég óska samkynhneigðum, og þjóðinni allri, til hamingju með nýja lagasetningu um jöfn réttindi samkynhneigðra á við gagnkynhneigða.

22.6.06

Já góðan daginn.

Ég er að fara suður aftur, á ráðstefnu í þetta skiptið. Klikkaði samt á að redda mér dragt, fari og gistingu. Ég ákvað að gallabuxurnar yrðu bara að duga og mamma pantaði flug handa mér. Gistingin er enn vandamál, þannig að ef einhver þarna úti er æstur í að hýsa mig í tvær nætur má hann endilega hafa samband.

Takk.

14.6.06

Jæja, Reykjarvíkurreisan mikla yfirstaðin og allt að komast í sama horf. Nei, samt alls ekki. Mikið um að vera, bæði í hausnum á mér og í kringum mig... Nóg um það, í bili. (Oj, ég nota ógeðslega mikið af kommum, og innskotum, og ég veit ekkert hvað ég er að skrifa).

Það var ljúft að kúra í Hafnarfirði hjá Kristbjörgu móðursys og hennar fylgifiskum. Máni sonur hennar, sex ára gamalla spekingur, er búinn að þróa með sér nýja áráttu gagnvart mér. Hann er reyndar alltaf með margar þráhyggjur í einu, til dæmis beit hann það í sig að hann ætlaði að verða töframaður þegar hann yrði stór og "töfrar" allan daginn, auk þess sem hans heitasta ósk er að eignast steinaslípívél (wtf?). Hann hefur beðið mig um að safna hári allt frá því hann var svona þriggja ára gamall. Núna er ég loksins að gera tilraun til að hafa það eitthvað síðara en rétt niður fyrir eyru. Hann er mjög ánægður með að ég sé loksins að "hlýða" honum, Máni stílisti. En þessi misskilda hlýðni í mér varð til þess að hann þurfti að snúa sér að næsta atriði. Máni fékk skyndilega óskaplega miklar áhyggjur yfir því að ég eigi ekki kærasta. Þegar við vorum að borða í Smáralind fór hann að spyrja mig á því hvernig stæði á þessu karlmannsleysi mínu, og ég átti svosem ekki svör á reiðum höndum frekar en hann. Svo var hann stöðugt að minna mig á þetta það sem eftir lifði helgar. Hann sofnaði svo á laugardagskvöldið áður en ég fór niður í bæ. Ég var að ná í eitthvað inn í herbergi og við það rumskar hann og lítur á mig. Knúsar mig svo og hvíslar að mér að ég skuli endilega reyna að finna mér kærasta þegar ég færi í bæinn. Haha... æ, kannski er hann barasta eini karlmaðurinn sem ég þarf?

Æi vá þetta var bara frábær ferð. Tónleikarnir, ég held ég geti ekki byrjað að lýsa þeim. Ég fékk far hjá frú Ottómömmu og herra Ottópabba í Egilshöll. Umferðarteppan var reyndar það mikil að við Ottó hlupum út einhvers staðar á miðri leið og örkuðum afganginn til þess að vera viss um að komast inn í tíma. Við inngang hallarinnar beið eftir okkur einn óþolinmóður Arnar, sem ég vil óska til hamingju með að ná að uppfylla draum myMA-gaursins með því að vinna við að setja upp sjóið hans Waters. Þegar inn var komið bættist enn í hóp fílahjarðarinnar þegar við sáum Hjalta. Hann klúðraði reyndar smá með því að vera ekki í appelsínugula bolnum, slakur þjálfi. Tónleikarnir sjálfir... Æ. Bara hughrif og tilfinning og já. Vá. Ég held að Ottó hafi komist eins nálægt trúarlegri upplifun og hann mun nokkurn tíman gera. Það að knúsa Arnar á meðan Wish you were here var spilað var ómetanlegt. Ást til allra og væmni.

Annað sem stendur uppúr eftir helgina er sófaflutningurinn með Nínu og fleiri góðum. Ég, Arnar, Ottó, Nína, Skúli, Benni og Arnar Ari þóttumst vera iðnaðarmenn og fluttum risasófa inn á Njálsgötuna. Nína þurfti reyndar ekkert mikið að þykjast og var frábær verkstjóri, ég held samt að Arnar hafi verið sá eini sem hafi eitthvað vitað hvað hann var að gera. Enda vanur maður á ferð, með verkfærasett í bílnum. (Kom sér vel þegar við a) skrúfuðum blómapottana af veggnum b) skrúfuðum póstkassann af veggnum c) reyndum að taka hurðina af lömunum d) skrúfuðum að lokum rúðuna úr). Nína er búin að skrifa um fynd dagsins í sína síðu, þetta var samt ótrúlega súrrealískt og fyndið. Við vorum nýbúin að koma sófanum niður á götu úr ibúðinni sem hann var í og systir Nínu gaf okkur pizzu. Við sátum svo í sófanum og snæddum. Eftir pizzuna var Skúli enn svangur svo hann fór og náði í sviðasultuna sina og Pripps inn í bíl (smekkmaður hér á ferð) og Nína náði í afganginn af hvítvíninu mínu og bjórhnetur. Arnar ofurartý langaði að taka mynd, en hann dró bara upp minnisbókina sína og teiknaði okkur. Reyndar bara Skúla. En ég meina... Já gott móment þegar að flutningabílstjórinn kom að okkur.

Í dag var svo fyrsta vaktin á elliheimilinu. Í senn ógnvekjandi og skemmtilegt. Ég held að þetta verði hið ágætasta sumar, svei mér þá. Jæja, morgunvakt á morgun, farin að sofa. (Ohh, ég verð að fara að laga þessa síðu eitthvað til. Ég hvorki kann það né nenni því, eru sjálfboðaliðar?)

9.6.06

Máttleysi um allan líkamann, velgja og verkur í augnlokum og gagnaugum. Er samt svo létt, seinasta andvökunóttin yfir bókum liðin. Ég er með svo hræðilega hræðilega óheilnæma námstækni. Geri allt þvert á það sem Johny Moe og Silla stuð ráðleggja í upphafi hverrar próftíðar. Nei, ég vakna ekki snemma og læri á morgnana, nei ég hreyfi mig ekki, nei, ég get ekki sagt að ég borði eitthvað svakalega hollt. Þvert á móti vafra ég um allan daginn og bíð þar til að prófskapið kikkar inn, það gerist yfirleitt um 10-leytið á kvöldin. Þá taka við nokkrir klukkutímar sem fara í að læra heilan áfanga frá grunni. Flott Kristín, gott þetta, og endilega ekki læra af mistökunum. Neinei, gerðu þetta bara alltaf svona, eins til þriggja tími svefn fyrir próf er meira en nóg.

Þrátt fyrir þessar vafasömu aðferðafræði og hræðilega ástundun í vetur komu prófin furðuvel út. Íþróttir eru ekki fag, svo það skiptir engu máli hvað maður fær í einkunn þar. Skólasókn fellur undir sama hatt. Mín venjulega átta í ensku og næstumþvíhefðbundna sjöa í þýsku komu, það var bara eins og við var að búast. Átta í tjáningu, hresst, hress áfangi. 9 í fjölmiðlafræði, heimspeki og íslensku. Eiginlega stoltust af tveimur síðastnefndu fögunum, enda ekki léttustu próf sem ég hef farið í. Síðan var seinasta einkunnin að síga inn, 8 í sálfræði sem ég svaf ekki dúr fyrir í nótt. Jess!

Í ljósi þess að próftíðinni er formlega lokið hjá mér held ég að það sé við hæfi að leggja land undir fót og hrista hversdagsleikann upp. Þegar ég er búin að laga til, fara í sturtu og pakka mun ég halda til höfuðborgarinnar með Ottó, bróður hans og föður. Þar er m.a. planað að knúsa litla frændur í Hafnarfirði, finna kjól fyrir útskriftina og fara á Roger Waters í lok ferðarinnar. Já, lífið er svo sannarlega ljúft.

Þakkir fyrir próftíðina fær Gitta fyrir að vera sérlegur allnighter félagi.