30.3.07

Smá upplýsingar í flýti:

Á eftir munum við Ragga Ýr fljúga með Hljóðnemann suður fyrir keppnina í kvöld. Ekkert kjánalegt eða neitt að sitja með þennan virðulega grip í fanginu í flugvélinni.

Ég tek á móti tölvu fyrir hönd nemendafélagsins á keppninni. Stuð.

Menntamálaráðuneytið er alveg að fara með mig...

Fleiri menntamálayfirvöld (ef svo má komast að orði) eru einnig að fara með mig. Hvert veit enginn.

Hinsvegar veit ég vel að ég er að fara til Osló í fyrramálið. Að gera hvað og nákvæmlega hvers vegna liggur ekki ljóst fyrir. Slökun? Hljómar vel.

Páskafríið mun fara í nám. Eingöngu, jú og kannski skýrslugerð og svo einn hitting með gömlu stjórninni.

Verð að þjóta.

23.3.07

Söngkeppnin í gær gekk vel!

Vei - svona vorum við flott að taka til eftir keppnina:Sætu.

Ritgerð? Ojbara.

18.3.07

Það eru nokkrir hlutir sem að halda mér á floti þessa dagana. Ólíkir hlutir og skulu þeir nú taldir upp í stafrófsröð:

Bertrand Russell.

Einhver gaur sem að lítur út eins og Bert Ljung.

Elliheimilið, en þar hyggst ég starfa í sumar og fram á veturinn ef að ég verð ráðin.

Framtíðarplön. Lonelyplanet.com er uppáhalds síðan mín þessa dagana.

Mamma

Nýja rúmið mitt. Ó en sú sæla... Tempur hlýtur að vera besta uppfinning síðari tíma.

Osló. Þangað fer ég í fjóra daga í byrjun páskafrís. Að gera hvað veit ég ekki en ég hlakka samt til.

Sannir vinir. Svona vinir sem að maður þarf ekki að eiga á hættu að stingi mann í bakið þegar síst skyldi, þurfa ekki alveg stöðuga ummönnun og skilja það að maður hafi ekki alltaf tíma til að rækta vinskapinn. Eins sorglegt og það nú er, útaf fyrir sig. Vinir sem maður vill eiga alltaf. Þessi lýsing á við þónokkra, heppin ég.

Útskriftin nálgast óðum... Þá verður hopp og hí og gaman að lifa.

Að lokum:

The good life, as I conceive it, is a happy life. I do not mean that if you are good you will be happy - I mean that if you are happy you will be good. - Bertrand Russell

12.3.07

Hugleiðing

Sagt er að vinnan auðgi andann. Þetta orðatiltæki hefur verið mér ofarlega í huga undanfarið. Ég held að það sé ekki meiri sannleikur í því en mörgum öðrum orðatiltækjum sem að íslensk tunga hefur alið af sér (sbr. morgunstund gefur gull í mund).

Vissulega hef ég miklar mætur á vinnu og hef iðulega nóg að gera, sumir myndu telja það of mikið. Ég ber einnig mikla virðingu fyrir þeim sem að vinna erfiðisvinnu en ég myndi þó seint segja að hún auðgaði andann. Ég get sæst á að maður fái margar hugmyndir og hrindi ýmsu í framkvæmd, tali við áhugavert fólk o.s.frv...

Ég tel að í þessu sambandi sé miklu vænlegra að liggja í leti, hafa rúm og tíma til að lesa mikið og hugsa meira.

Nú get ég ekki neitað því að ég þrái slíkt líf akkúrat núna. Þessvegna leyfði ég mér að eyða klst. í að hunsa dagbókina og aðkallandi og yfirvofandi verkefni. Já það er ljúft líf að hlusta á Bowie í flónelnáttfötum og lesa um Russell. Andi minn er auðugur - í bili.

4.3.07

MR-ingar eru svei mér skemmtilegt fólk. Heimsókn þeirra í MA heppnaðist vel og vonandi er búið að endurvekja vinasamband sem var á milli skólanna fyrir nokkrum árum. Vei!

Ég er dauðþreytt eftir þessa helgi, eitthvað einstaklega orkulítil. Pabbi bauð mér á sleða í dag og ég þáði boðið fegins hendi. Að fara á sleða er eins og fimmfaldur spa-tími fyrir vinnufíkil. Ó hvað það er gott að einbeita sér einungis að því á hvaða leið maður er, hvort það séu steinar eða hliðarhalli framundan og heyra ekki neitt nema vélarhljóð. Enginn farsími sem hringir og enginn sem vill tala við mann. Hvað er líka betur til þess fallið að styrkja feðginasamband en að festa sleðana sína? Jah, mér er spurn. Sérstaklega hjá feðginum sem eru ekki alltaf sammála og eiga það til að flækja samskiptin sín á milli. Þá er stórgott að hafa bara eitt markmið, að losa báða sleðana með samstilltu, erfiðu átaki. (Bakið á mér er búið að vera en mér líður samt vel).

Elsku Ottó reyndist ekki bara vera með hálsbólgu. Hann er með einkirningasótt sem er stundum nefnd kossaveikin. Einkennin eru m.a. hiti, bólginn og sár háls, stækkun í eitlum og bólgur í milta og lifur. Jammíjamm. Fróðir menn segja einnig að maður geti verið heillengi að ná sér upp úr þessum fjanda.

Eins mikið og ég vorkenni Ottó get ég ekki annað en hugsað um eigin heilsu. Eins og áður segir er einkirningasótt kölluð kossaveikin. Nú er staðreyndin sú að ég hef knúsað Ottó einu sinni eða tvisvar seinustu 6 vikurnar og er ekki með sterkasta ónæmiskerfi í heimi. Úff, nú er bara að bíða og vona. Ég er að skipuleggja næstu vikur eins og ég eigi von á því að falla frá. Sniðug.

Hérna, hver sagði að lífsleikni væri sniðugt fag..?

1.3.07

Það er ótrúlega mikið að gera.

Næst skal ég skrifa um ótrúlega skemmtilegu Egilsstaðaferðina með stjórninni, þegar ég var svöl á mánudaginn og flaug suður og aftur heim í boði RÚV til að fara á fund með framkvæmdarstjóra útvarps og sjálfum Páli Magnússyni, MR-heimsóknina og Gettu betur.

En ekki að sinni. Nú þarf ég víst að gera lífsleikniverkefni (sem er næstum því meiri tímaeyðsla en að skrifa þessar línur hér) og hlusta á elsku Ottó ræskja sig trekk í trekk. Hann er með hálsbólgu sjáið þið til og er því með tebolla í hönd og klæddur í bleik-fjólubláu lopapeysuna mína. How manly.

Geðheilsa, ó geðheilsa...