26.7.06

Að borða vatnsmelónu með skeið er góð skemmtun. Veikindin sem eru búin að vera að hrjá mig eru það hinsvegar ekki. Það er víst bara tvennt í stöðunni, að eignast barn eða fara á einhverja ofurpillu. Töfrar læknavísindanna heilla mig meira en barneignir.

Vei, það eru tvær voltaren-vímu vaktir eftir og svo legg ég land undir fót. Borgarfjörður, Ragga Ýr, Belle and Sebastian, Emiliana Torrini, útilega, grill, bjór og Bræðslan bíða. Ó hvað það verður gaman. Sem upphitun ætla ég að fara í Öxnadal á föstudaginn, á Sigurrósartónleikana. Ekki slæmur forleikur það.

Verkjatafla og lestur? Það hljómar vel, bless.

P.s. Rétt upp hönd eða kommentið ef þið eruð að fara austur.

19.7.06

...
But if you are feeling sinister
Go off and see a minister
He'll try in vain to take away the pain of being a hopeless unbeliever
...

Mikið hlakka ég til Belle and Sebastian tónleikanna.

Mamma fann ökumatsbókina mína. Óþægileg áminning þess að ég er ekki enn komin með bílpróf. Ég er klárlega ekki góður og gildur samfélagsþegn nema að ég sé með bílpróf og þarf að gera eitthvað í mínum málum. Haha, í bókinni segir að æfingarleyfið mitt renni út í nóvember 2004, kemur Kristín! Ohh... Ég er skíthrædd við bíla og í bílum. Ég hef ekki minnstu löngun til að keyra sjálf. Ég er jafnhrædd við að keyra og ég er við að fara á línuskauta og skíði. Ég er næstum því jafnhrædd við að keyra og ég er við að hani ráðist á mig og við að snerta í mér augun. Nú getur hver sem er skilið á hve háu stigi hræðslan mín er, þetta er óskeikull mælikvarði.

Í gær fórum við Arnar og Egill í mission, ég var í rauðum kjól, Arnar með myndavélina og Agli með spjald sem var þakið álpappír. Við settumst inn í bíl og áfangastaðirnir urðu m.a. bryggjan, Eyrarvík og eitthvað hálfgert eyðibýli, það eina sem ég veit um það er að Kjartan Ólafsson er grafinn við bæinn. (Arnar vill þó meina að Kjartan þessi sé ekkert grafinn þarna, heldur sé þetta færanlegur legsteinn. Já Arnar, það er líklegasti kosturinn í stöðunni). Allavega, Egill sýndi snilldartakta sem aðstoðarmaður þegar hann bauðst til að sitja á kjólnum mínum sem fauk alltaf upp, ég sýndi snilldartakta með því að ná að loka augunum í helming skiptanna sem smellt var af og Arnar sýndi bara snilldartakta.Suður í fyrramálið. Þar ætla ég m.a. á fund í Menntamálaráðuneytinu með HÍF hópnum, að kaupa efni í upphlut, versla einhver föt sem ekki eru þjóðbúningar og blanda kokteila með Nínu. Vei!

17.7.06

Sjallallallala ævintýrin enn gerast...

Ég fór í enn eina Reykjavíkurferðina á fimmtudaginn. Skellti mér á HÍF fund sem gekk ofsalega vel. Hagsmunaráðið sendi frá sér fjölmiðlatilkynningu eftir fundinn, þar sem kom fram að framhaldsskólanemendur eru ánægðir með þann árangur sem mótmælin hafa skilað og að menntamálaráðherra virðist vera að færa sig frá áformum sínum um skerðingu náms til stúdentsprófs. Engu að síður viljum við fá nákvæmari útlistun á því hvernig nýja kerfið á að virka og við krefjumst þess einnig að vera þátttakendur í þróun kerfisins. Næsti fundur verður svo í næstu viku, þetta er fróðlegt allt saman.

Ég og Nína vorum búnar að ákveða að gista saman, en vissum ekkert endilega alveg hvar. Nína lofaði mér ævintýrum, sem ég fékk. Kvöldið var skemmtilegt, byrjaði á Njálsgötunni og þaðan fórum við Nína, Ari, Arnar Ari og Erla á Barinn. Þegar tók að líða á nóttina var stefnan tekin heim til Ara. Áður en þangað kom lentum við samt kannski í eina alvöru ævintýri þessa kvölds. Það var magnað og ég er enn bólgin og marin á fótunum eftir það og skórnir mínir allir út í for. Nóttinni eyddum við svo fjögur saman í ekki svo stóru rúmi. Kósý. Því oftar sem ég fer suður, því betur líkar mér að vera í borginni. Ég hlakka eiginlega mjög til að búa þar, einhvern tíman í náinni framtíð.

Talandi um nána framtíð, þá spáði vinnufélagi minn fyrir mér í kvöld. Hún las í spil og sá í þeim óvænta peninga, heppni, góðan starfsferil að loknum skóla, sjálfstæði, forystuhæfileika, gáfur, mann sem er ör og á erfitt með að klára hluti sem hann byrjar á, hjónaband/sambúð og ofsalega mikla ást. Það vantaði ekkert nema ferðalög og þá hefði formúlan verið fullkomin, haha. Örlög smjörsög.

Annars er ég búin að vera með skrýtinn fiðring í maganum seinustu misseri. Það er eins og ég sé alltaf ástfangin, en þó ekki af neinum sérstökum. Það er bara yfirleitt allt einhvern veginn svo stórmerkilegt og ótrúlegt og skærlitað og frábært. Lífið. Eða eitthvað... æ emo Kristín. En alveg eins og ég get verið ástfangin af einhverju sem ég get ekki sett fingur á, get ég líka farið í ástarsorg. Það gerðist í gær, ekki hef ég hugmynd um afhverju. En þá dugði ekkert annað en nammi uppúr brúnum bréfpoka og Jerry Maguire uppí rúmi. Þessi athöfn varð reyndar bara til að staðfesta hvað mér finnst Tom Cruise pirrandi og eiginlega bara pínu glataður gaur, og að hlaup með chilli bragði er ekki góð nýsköpun á sælgætismarkaðnum.

Æi blö, það er langt liðið á nótt. Ég held það sé ráð fyrir mig að hætta að skrifa og fara frekar að hressa upp á ljóðakunnáttu mína. Vinkona mín á tíræðisaldrinum í vinnunni er nefnilega mjög sátt við mig þessa dagana, þegar ég þyl upp allt sem ég kann eftir Davíð Stefánsson, Tómas Guðmundsson og Jónas Hallgrímsson. Á móti kennir hún mér vísur eftir Ólöfu á Hlöðum. (Gæti ég elskað elló meira?) Nú er hún þess fullviss að ég eigi eftir að eignast góðan mann sem vill mig skilyrðislaust. Auðvitað efast ég ekkert um það, ekki ljúga spilin...

11.7.06

Við Dagný héldum upp á afmælið okkar hér heima á föstudagskvöldið. Takk allt skemmtilegt fólk fyrir komuna. Takk Kristján Eldjárn, ömurlega leiðinlegi fyrir að tala við alla á msn-inu mínu og segja að ég væri lesbísk. Haha, það var reyndar pínu fyndið.
Laugardagsmorguninn var ekki eins hress og kvöldið áður, þar sem ég vaknaði snemma og gerði tilraun til að laga til. Fór svo í flug um hádegið og þá helltist þynnkan yfir mig. Besta ráðið við henni var að hitta Ara, Ísak, Loga og fleira skemmtilegt fólk á Kaffi Paris og borða feitan brunch. Namm, hann reddaði mér og tveggja og hálfs tíma Hagsmunaráðsfundurinn varð pís of keik. Eða svo gott sem. Ég var sumsagt á aðalfundi HÍF (Hagsmunaráð íslenskra framhaldsskólanema) og mér líst ofsalega vel á. Það verða reglulegir fundir í vetur og vonandi verður mikið aðhafst. Það er auðvitað pínu vesen að vera á Akureyri, en eitthvað nýtt vídjó-tölvukerfi og samningur við Flugfélag Íslands ættu að geta reddað því að mestu leyti. Ég verð því örugglega reglulegur gestur í borginni í vetur, eða þegar tími gefst til.
Ég flaug svo heim um kvöldið (dálítið of upptekin og mikilvæg til þess að ílengjast í Reykjavík) og fór á rúntinn með Hönnu. Svalar? Þegar ég frétti svo að Hildigunnur væri í bænum varð ekki aftur snúið og ég fór niður í bæ. Það var gaman. Sunnudagurinn var alls ekki góður, á heimilinu ríkir herástand. Þvílíkt rugl, ég held að ráðið við þessu sé að knúsa gamalt fólk og fara til Nínu á fimmtudaginn. Næsti HÍF fundur er nefnilega þá. Þar til næst, ef það verður eitthvað næst; Kristín.

1.7.06

Það var sérlega gaman í vinnunni í dag.

Kona, komin hátt á tíræðisaldurinn, spurði mig hvort ég hefði eitthvað í fréttum. Ég hugsaði mig um og spurði hvort hún vildi eitthvað frétta af heimsmálunum. Eða innanlandsfréttum kannski, ég gæti sagt henni hvernig Baugsmálið stæði? Hún vildi ekki heyra minnst á "neinn andskotans Baug", bara hvað væri svona helst fréttnæmt í mínu lífi. "Tjah", svaraði ég... "Ég á reyndar afmæli á morgun". "Nú! Og hvað verður þú gömul þá?" Ég svaraði því til að ég yrði háöldruð, eða nítján ára. Gamla fussaði og sveiaði yfir því að ég kallaði það háan aldur. (Nítján ár hljóma reyndar ekki mörg við hliðina á nítíuogsjö). Síðan hugsaði hún sig um í dágóða stund og segir næst: "Þá máttu fara að huga að barneignum". Mér krossbrá og fannst aldeilis ekki kominn tími á að hugsa um svoleiðis lagað. Ég svaraði því til að ég þyrfti nú kannski að huga að því að finna mér mann fyrst. Sú gamla varð þvílíkt hneyksluð á þeirri vanrækslu minni að vera ekki búin að finna mér mann! "Ung stúlka verður að eiga góðan karlmann". "Já" sagði ég, "heldurðu að einhver vilji mig?" Mín þagði dálítið lengi, ég fór að halda að hún væri sofnuð. Svo stundi hún loks upp: "Oooo... ætli það nokkuð".

Mér var bæði hlátur og grátur í huga þegar ég gekk út úr herberginu hennar.

Ég hlæ samt meira, sérstaklega vegna þess að hún kom með svo ansi góða kenningu um trúarlíf Íslendinga. Vá, ég elska elló.