27.10.06

Ég ætlaði að skrifa um eitthvað málefnalegt, eins og um gagnrýna og hlutlausa umfjöllun í fjölmiðlum eða hvalveiðarnar. Öll mín aukaorka þessa dagana fer hinsvegar í "égeraðverðatuttuguára-hvaðáégaðgeraviðlífmitt" tilvistarkreppuna sem ég er föst í. Auk þess að vinna úr því sem ég sjálf vil, þarf ég að takast á við (oft og tíðum óraunhæfar, óþarfar og kjánalegar) kröfur annarra. Það er einhvern veginn meira en ég þoli akkúrat núna.

Staðreyndin er sú að ég er ótrúlega viðkvæm fyrir gagnrýni og hef alltaf verið. (Einn af mínum stærri göllum. Eða persónueinkennum, eftir því hvernig maður lítur á málið). Þegar ég fæ á mig gagnrýni, sérstaklega frá fólki sem ég virði og elska, þá fer hún beint í hjartað. Ég verð alltaf eins og snúið roð í lengri tíma á meðan hjartað vinnur úr aðfinnslunum. Það líður líka oftast langur tími þar til þær komast upp í heilann, og geta hugsanlega umbreyst í eitthvað gagnlegt. Þangað til eru þær algjörlega tilgangslausar og liggja eins og mara á brjóstinu á mér.

Sumir myndu kalla þá gagnrýni, sem ég er að vísa í, umhyggjusemi. Það er hinsvegar ekki alltaf gott að segja hvar umhyggjan endar og afskiptasemin byrjar.

Púff.

Ég held að núna þurfi ég að skríða ofan í holu í dálitla stund og meta hlutina fyrir sjálfa mig. Það er engin þörf á umhyggjusömum/afskiptasömum vinum/ættingjum sem ætla að "beina mér á réttari braut" eða benda mér á ótal "betri" leiðir til að lifa lífinu. Ósanngjarnar væntingar frá öðru fólki eru vinsamlegast afþakkaðar. Ég vænti alveg nógu mikils af sjálfri mér, þó að aðrir fari ekki að krukka í höfðinu á mér.

Annars held ég að ég hafi það bara fínt, svona að mestu leyti. Fyrir utan pirringinn og einbeitingarleysið og ruglinginn og sárindin. Næst á listanum er að læra að brynja mig betur og loka eyrunum þegar það á við.

Ég efast um að nokkur maður hafi fundið samhengi eða lesið eitthvað af viti úr þessari færslu. Mér er eiginlega alveg sama. Ég vil þó taka fram að með þessu er ég ekki að halda því fram að ég sé hafin yfir alla gagnrýni. Ætli gagnkvæm virðing sé ekki lykillinn, og að þekkja sín mörk?

Æi, takið þessu eins og þið viljið - góða nótt eða eitthvað...

22.10.06

Skrýtin helgi að baki. Að hluta til alveg dæmigerð akureysk októberhelgi, en samt svo langt frá því.

Æi það er svo margt sem mig langar að skrifa, en sumt er best að byrgja inni. Rita svo eitthvað merkingar- og tilgangslaust í staðinn. Eða pósta bara mynd.(Mig langar að vera Alex á öskudaginn).

16.10.06

Óvissan er eitt það alversta sem ég get ímyndað mér.

Þess vegna er svo gott að geta stigið upp úr einum polli óvissunnar og vita loksins eitthvað í sinn haus. Það er gott að hafa eitthvað ákveðið til að stefna að, einn punkt - í staðinn fyrir allan sjóndeildarhringinn.

Um leið og það er búið að ákveða eitthvað mikilvægt vakna efasemdirnar, og þær eru næstum því meira nístandi heldur en óvissan. Þær liggja þó ekki jafn þungt á manni, allt í einu getur maður andað djúpt og er næstum því almennileg manneskja.

Pínu fullorðins líka, háskóli er fullorðins.

9.10.06

Akkúrat núna líður mér eins og ég búi á Akureyri.

Akureyri eins og hún í rauninni er, horfi maður afstætt á hlutina - pínulítið sjávarþorp á hjara veraldar. Þar sem haustið er blautt og kalt og veturinn enn kaldari. Það líður ekki á löngu þar til það verður dimmt meirihluta dags og það verður erfiðara en orðum tjáir að nefna að drulla sér fram úr á morgnana. Ekkert brýtur upp rútínuna, hún festir sig bara í sessi. Sömu sálirnar ráfa um bæinn, misjafnlega skammdegisþunglyndar eða skrýtnar. Sama fólkið rífst, hlær saman, fer í sleik, drekkur, ríður, slæst, spjallar og skemmtir sér helgi eftir helgi, svo úr verður flókið mynstur. Öllum er samt sama þegar liðið er á vikuna.

Hinsvegar er ég vetrarrómantíker í mér. Líka smábæjarrómantíker. Svo þetta ætti að reddast, ef ég reyni að halda mér nokkurnveginn fyrir utan fyrrnefnt mynstur og hlæja góðlátlega að geðveilu sálunum, því nei ónei, ekki er ég eins og þær. Rútínuna má brjóta upp með því að hella sér í félagsstörf - svo góð geðhjálp. Fyrir vetrarrómantíker má snúa skammdeginu yfir í gleði yfir að klæða sig í ullarsokka, fara á fjöll, ganga um hvítar götur með iPodinn og hlusta á alla angurværu tónlistina í heiminum, drekka óhóflegt magn af tei, gleðjast endalaust yfir ótrúlegri fegurð norðurljósanna, kúra undir þykkri sæng, lesa og borða engiferkökur.

(Þrátt fyrir allt bjartsýnishjal - einn vetur enn. Svo er ég þotin).

3.10.06

Tilgangsleysið er algjört, en samt ekkert. Breytnin skiptir svo miklu máli, en í raun engu. Hvað á þá að gera, við hvað á að miða?

Það sem er vont er svo gott.

Hverjum á að þóknast nema sjálfum sér? Hvernig þóknast maður sjálfum sér og hvað er manni í hag? Fæða heilans, líkamans, andans - allt rennur þetta saman. (Það sem er gott er samt svo vont!) Viðmið og gildi, og ha? Eru ekki allir á sama máli? Allt í einu meikar félagsfræði 103 sens.

Ör, ör, ör. Stóra orðabókin hefur þetta að segja um orðið ör: (Lesist hratt, hugsast hratt).

Leggja ör á streng, skjóta örinni að óvininum, örin þýtur fram hjá, örin hæfir skotmarkið, örin missir marks.
Oddhvöss, hvassydd, beitt ör.
Tundurör, eiturör, ástarör, helör, herör.

Ör eftir sárið, áverkann. Það hefur myndast ör.
"Þó undir græðist er örið eftir".

Vera ör í skapi, verða ör af víni, örir skapsmunir, örar tilfinningar, ör vöxtur, ör þróun.

Ég fann lykilorðið.

Ég er samt búin að fá nóg af örum, allskyns.
Breyttur lífsstíll, þrátt fyrir að hann þjóni ekki nokkrum tilgangi.