31.12.07

Ógod. Sit hér inni í herbergi, umkringd fatahrúgum og veit ekkert í minn haus. Hvernig pakkar maður niður fyrir hálfs árs ferðalag?

Annars vonast ég til að sjá sem flesta í kvöld og nótt, það er gaman að geta sagt bless. Ég lofa að fara ekki að grenja. Lofa allavega að gera mitt besta!

Þetta verður seinasta færslan á þessu bloggi í bili, nú er ég alfarið flutt á www.reisubok.blogg.is. Það væri gaman ef að þið skrifið athugasemdir þar næsta hálfa árið.

Gleðilegt ár!

24.12.07

Risavaxna, fjögurra metra háa furan skreytt, allt að verða hreint og fínt, búin að baka sex sortir, pakka inn öllum jólagjöfum og senda öll heimaföndruðu jólakortin! Svona jól, eða öllu heldur jólaundirbúning, mun ég örugglega ekki eiga lengi. Á næstu árum mun aðventan líklega fara að mestu leyti í prófaundirbúning en ekki jússuköst og jólalög.

Jólin mega sumsagt alveg koma. Reyndar ætlar pabbi að fresta þeim líkt og Castro gerði á Kúbu, forðum daga. Þar sem að fjölskyldan mín er krúttleg ætlar hún að bíða með að taka upp jólagjafirnar þar til ég kem heim af vakt - kl. 23. Þetta verða án efa sérstök jól, að vera með gamla fólkinu en iss þetta verður fínt!

Ég óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Takk fyrir liðið.

E.s. Móment kvöldsins: Pabbi skautaði inn í eldhús, tók létt balletspor, fraus í dramatískri stellingu og söng: „Það er byrjað að snjóóóa!“ Selurinn.

E.s. Mæli með www.reisubok.blogg.is

6.12.07

Hóhó.

Ég er á fullu að skipuleggja Amnesty bréfamaraþon sem haldið verður nk. laugardag. Það verður í Akureyrarakademíunni og fólki er frjálst að líta inn milli 13 og 17 og stoppa eins lengi og það vill. Bæði er hægt að kvitta á þartilgerð póstkort og senda bréf frá eigin brjósti. Það verða leiðbeiningar á staðnum fyrir bréfaskriftirnar, tilvalið að koma sér inn í starfið. Nýir Amnesty félagar eru velkomnir og jólaandi mun ríkja, kakó, kaffi, smákökur, jólatónlist og jólakort Amnesty til sölu. Það má endilega líta inn, þó það væri ekki nema til að kíkja á mitt fagra fés, fá sér smáköku og kvitta á tvö kort! Ókeypis jólaskemmtun og gott að gefa af sér fyrir hátíðarnar. Akureyrarakademían er gamli húsmæðraskólinn við Þórunnarstræti.

Í dag er eitt ár síðan við Ottó urðum kæróhommar og í tilefni þess er ég sprengsödd. Takk Greifinn.

Pabbi er hugsanlega besti og mest utanviðsig maður sem ég veit um. Seinast í gær kallaði hann Ottó „Anton“. Eitt ár sko... og hálft undir hans þaki. Dæs.

Stutt í þetta skiptið.

29.11.07

...þrek er gull en gull eru líka tárin, guðleg svölun hverri þreyttri sál...

Já Þrek og tár eru málið. Uppáhalds lagið mitt frá því ég man eftir mér, lærði allan textann þegar ég var í sveitinni og söng það fyrir Fressó. Fressó var hugsanlega skemmtilegasti karakter sem ég hef kynnst, 10 kílóa köttur sem amma átti. Ofboðslega geðvondur og alltaf skítugur og með hárlos. Hann var algjörlega sinn eigin herra og það þýddi ekkert að dröslast með hann. Stundum rakst ég á hann dálítið langt frá húsinu hennar ömmu og þá röltum við oft heim saman og ég söng fyrir hann. Ég trúði því að honum þætti það gaman, annars hefði hann líklega ekki nennt að vera með mér.

Allavega, útúrdúr. Ég hafði ekki hlustað á Þrek og tár í nokkur ár fyrr en ég fór á tónleikana hans Megasar á dögunum. Lagið var spilað þegar að fólkið týndist úr Laugardalshöllinni og það greip mig nostalgía. Síðan þá hef ég spilað lagið oft og iðulega, enda er ég jússa og sökker fyrir Hauki Morthens, Ellý Vilhjálms og fleiri góðum.

Æi já, á að vera að læra en held mér ekki ekki við efnið. Próf á mánudag og miðvikudag í alþjóðafræðum. Ég fæ að taka prófin í MA, það verður allavega notalegt. Gat ég ekki bara notið þess að vera ekki í skóla eitt misseri? Greinilega ekki...

Árshátíð MA er á morgun og ég er meira en lítið spennt fyrir að mæta, hitta megnið af gömlu stjórninni, borða góðan mat, horfa á skemmtiatriðin og njóta þess að bera enga ábyrgð á neinu! Jey.

Haha amma Helga er krúttleg, var að hringja og vildi að við myndum mæla okkur mót fyrir smákökubakstur. Hún bakar nefnilega alltaf eina þýska smákökutegund og ætlar núna að kenna mér að baka hana, kunnáttan má ekki glatast! Enda vil ég ekki að hún glatist, þetta er uppáhalds smákökutegundin mín.

Já sundurlaus færsla, bara til að gera eitthvað annað en að lesa um undirstofnanir EFTA...

22.11.07

Já, ef að það hefur ekki komið fram hér þá elska ég vinnuna mína. Er að vinna á aðfangadagskvöld og jóladag. Vei!

19.11.07

Nú er ég alveg að verða búin að fá nóg af vinnunni minni. Ekki af vinnunni sjálfri heldur lágum launum, miklu álagi, undirmönnun og því að fá ekki vinnuskýrslu með almennilegum fyrirvara. Eins og staðan er í dag veit ég ekkert hvernig ég er að vinna eftir fyrsta desember og hef ekki hugmynd um hvernig ég á að vinna um jólin. Einhver sagði mér að skv. lögum ættu vinnuskýrslur að liggja fyrir með sex vikna fyrirvara en það er piffað á það eins og ekkert sé.

Á undanförnum kvöldvöktum höfum við verið fjórar að vinna á ganginum, auk þeirrar sem er á lyfjavakt (sér um lyfjagjöf og er yfir vaktinni = hefur ekki mikinn tíma til að sinna ummönnun). Fjórar manneskjur að sjá um 30 manns, sjö og hálfur vistmaður á hvern starfsmann. Heimilisfólkið á deildinni minni er missjálfbjarga, sumir (fæstir)sjá nánast að öllu leyti um sig sjálfir en aðrir þurfa alla aðstoð við sínar daglegu athafnir og sumir þurfa tvo starfsmenn til að aðstoða sig. Starfsmenn hafa þurft að hafa sig alla við til að sinna fólkinu almennilega. Ég hef verið svo þreytt eftir vaktir undanfarið að ég hef varla orku í að gera annað en að vinna og sofa.

Þetta er náttúrulega ömurlegt. Að bjóða fólki upp á svona, bæði heimilismönnum og starfsmönnum. (Það hlýtur að vera heimilisfólki í hag að nægt starfsfólk sé til að sinna því). Ef maður krefur yfirmenn útskýringa á ástandinu fær maður fljótlega á tilfinninguna að maður eigi ekki að skipta sér af þessu og vera með vesen. Þrátt fyrir að maður viti að á hinum deildunum sjái hver starfsmaður um 4-5 heimilismenn. Það væri líklega hlegið að mér ef ég ætlaðist til þess að fá greitt álag þegar ekki næst að manna vaktirnar. Auðvitað tóm frekja; „þið reddið þessu elskurnar... Það bara vantar fólk til að vinna.“ Ég held að seinast hafi verið auglýst eftir starfsfólki í Dagskránni í vor.

Nú tel ég dagana þar til ég hætti að vinna og fer út. Það versta er að ég kann vel við að vinna við aðhlynningu og held að mér farist það ágætlega úr hendi. Ég hef metnað fyrir vinnunni en það er ömurlegt þegar að troðið er svona á öldruðum og fólki (konum) í ummönnunarstörfum. Femínistinn í mér heldur því fram að karlar myndu ekki segja já og amen við þessu öllusaman.

Ummönnunarstörf þarf að hefja upp til vegs og virðingar. Ég er í annarri stöðu heldur en konurnar sem hafa unnið á öldrunarheimilum til margra áratuga. Núna vinn ég þarna í hálft ár og í sumarafleysingum en ætla ekki að leggja þetta fyrir mig. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem gera það að ævistarfi sínu að sinna fólki í vaktavinnu, vinna um kvöld, helgar og á hátíðum í slítandi vinnu. Þetta er ekki sjálfsagt og fátt þoli ég verr en þegar reynt er að réttlæta léleg laun umönnunaraðila með því að segja að þetta sé svo gefandi vinna. Það kemur málinu ekki við, þetta er ekki sjálfboðavinna heldur starf, fólk hefur lífsviðurværi sitt af þessari vinnu.

Úff, ég gæti haldið lengur áfram en ég læt staðar numið. Mér finnst líklegt að ég vinni aftur á Hlíð næsta sumar, (nema að yfirmenn lesi þessa færslu og móðgist) aðallega útaf því að ég byrja ekki að vinna fyrr en um miðjan júní og hætti áður en ég fer í háskólann. Þar sem ég hef svona stuttan tíma er gott að geta gengið að vísu starfi og þurfa ekki að byrja í starfsþjálfun. Hálfgerð hræsni að segjast ætla að vinna þarna aftur eftir þessa ræðu...

Annars er það að frétta af mér að ég er komin í jólaskap. Við Ottó bökuðum fjórfalda uppskrift af smákökunum „Hermanns“ áðan, tæplega níu plötur. Frekar gaman að vera með jólabaksturinn í ofninum í svuntu og hlusta á jólalög. Jebbs, við erum jólahommar en ég hef ekki komist í jólaskap svona snemma síðan ég var í grunnskóla. Stórfínt að byrja á þessu núna þegar það er tími, maður veit jú aldrei hvernig maður er að vinna um jólin...

11.11.07

Á föstudagskvöldið, eftir vinnu, hringdi ég í bróður minn og bað hann að ná í mig. Mig langaði að fara og fá mér eitthvað að éta. Hann var hinsvegar niðri í kompu að fagna sigri MA í Morfís. Til hamingju MA! Ég fékk að boðflennast og fékk meira að segja pizzu. Takk fyrir mig.

Með þessum formála vil ég koma því að að ég hef ekki tuggið neitt (nema eina brjóstsviðatöflu) síðan ég lagði mér pizzuna til munns. Í fyrrakvöld.

Jebbs - besta helgi lífs míns, fljótandi fæði og skemmtilegheit. Nú er ég svöng og pirruð og máttlaus og óglatt og kalt. Á morgun fer ég í ógeðisspeglun og fæ kæruleysissprautu. Ég kvíði fyrir.

Held ég hafi ekki lyst á neinu næsta sólahringinn, að minnsta kosti. Þvílík synd.


Vælupistill vikunnar kominn á blað, samúð væri vel þegin.

2.11.07

Ah ég er svo södd. Svona þægilega södd samt, var nefnilega að koma af Friðriki V. Mamma og pabbi buðu út að borða í tilefni af tvítugsafmæli mínu. Glöggir lesendur átta sig kannski á því að ég á afmæli 2. júlí, en þetta fórst einhvern veginn alltaf fyrir. Þetta var líka mjög kósý því að nú gátu bæði Ottó og Axel komið með og það er líka gaman að láta skála fyrir sér fjórum mánuðum eftir afmælið manns, kemst nálægt því að eiga afmæli tvisvar á árinu.

Þvílík sæla. Forrétturinn minn samanstóð af ýmsu eyfirsku góðgæti; grafin gæsabringa, reikt bleykja, tættur gæsavöðvi, hráskinka, salami, hreindýrapaté á rúgbrauði, reykt gæsabringa og mysuostur - rússíbani fyrir bragðlaukana. Eftir hressandi ávaxtasorbe (til að hreinsa bragðlaukana þið skiljið) tók við léttsteiktur hreindýravöðvi með súkkulaðisósu og geggjuðu meðlæti. Þvínæst var það latté og konfekt og að lokum súkkulaðieftirréttur; súkkulaðifrauð, súkkulaðimús, súkkulaðite og súkkulaðiís með jarðaberjum. Maður gæti vanist þessu.

Það var eitthvað jólalegt við að sitja inni í þessu fallega húsi í sparifötunum, með góða matinn og horfa á snjókomuna í Gilinu. Annars er ég búin að vera í jólastuði undanfarna daga, gerði meira að segja eitt jólakort í dag!

Jæja, sælan er búin í bili. Ætla að laga til fyrir svefninn, vona að þið hafið notið þessa áhugaverða montpistils. „Ég fékk gott í matinn, nanananana...“

30.10.07

Já ég veit, ég er farin að blogga annan hvorn dag.

Ég fór bara að hugsa um hvað starfið á elliheimilinu hefur mótað mig. (Nei, ég ætla ekki að koma með fegurðardrottningarræðu um að starfið hafi kennt mér að meta lífið og æskuna og að forgangsraða rétt... ekki núna).

Fyrir tveimur árum var ég frekar klígjugjörn. Þrátt fyrir að vera alin að miklu leyti upp í sveit og allt það. Ég kom mér undan því að hreinsa upp kattaælu, var ekkert rosalega hrifin af kúkableyjum frændsystkina minna og fór undantekningalaust að kúgast ef ég heyrði fólk æla.

Á vaktinni í kvöld hreinsaði ég ansi marga kúkarassa (eins og venjulega, það er samt niðurgangur að ganga á elló þessa dagana) og auk þess ældi maður á hendina á mér. Ekki viljandi, en hann gubbaði samt á mig.

Nokkrum tímum eftir umrætt atvik áttaði ég mig á því að ég hefði ekki kúgast við þetta. Í kjölfarið mundi ég að ég hef ekki kúgast í vinnunni síðan að ég mætti skyrþunn á sunnudagsmorgni í sumar og við mér tók rosalegasta niðurgangstilfelli sem ég hef lent í. Ágætis árangur þó ég segi sjálf frá.

Tvenns konar lærdóm má draga af þessari færslu:

1. Fólk breytist og klígjugirni þess með.
2. Það er ekki sniðugt að mæta þunnur í vinnuna, það er aldrei að vita hvað tekur á móti manni.

28.10.07

Bara svo að það komi fram:

Nei, ég er ekki ólétt.

Takk Sigga Ásta - það var gaman að líða eins og ég væri „somebody“ þegar ég heyrði slúðrað um mig útí bæ.

Og takk líka fyrir ísinn, hann var góður.

20.10.07

Föstudagskvöld, heitt bað, Haukur Morthens, kakó og norðurljós. Ekki Airwaves og ekki djamm nei. Enda vinnandi kona með flensu. Eða svona leifar af flensu...

Allavega. Lífið er ljúft þessa dagana, kannski einum of ljúft. Aldrei getur maður verið sáttur. Neigrín, ég er sátt. Það er skrýtið að vera í svona millibilsástandi, að vera ekki að „gera neitt“ nema að vinna í x-langan tíma. Ég veit ekki hversu vel það á við mig, ég fæ alltof mikinn tíma aflögu til að hugsa um alltof margt. Framtíðina, nám, ákvarðanir... Stundum er óhollt að hugsa of mikið, allavega fyrir stressaðar „melódramatískar hormónasprengjur“ eins og mig. (Ásgeir Berg hannaði þetta skemmtilega hugtak til að lýsa mér. Kann ég honum bestu þakkir fyrir).

Eins og margir vita er ástæðan fyrir þessu millibilsástandi sem nú ríkir fyrirhuguð utanferð okkar Ottós. Nú skeinum við rassa, hvort á sínum stað, til að safna fyrir ferð til Indlands, Nepal, Tíbet, Kína, Mongólíu, Rússlands, Finnlands og loks Svíþjóðar. (Kannski Tælands, planið er alltaf að breytast). Auðvitað mjög gott fyrir mig að hafa eitthvað að stefna að og skipuleggja og ég ligg núna í Lonely planet bókunum. Þetta verður veisla, vítamín og fjör. Við erum búin að kaupa flug til London fjórða janúar og frá London til Mumbai áttunda janúar. Líka búin að panta Síberíuhraðlestarferðina, fara í bólusetningar og fá vegabréfsáritanir. Þetta verður raunverulegra með hverjum deginum, að við séum virkilega að fara að láta verða af þessu. Ég vorkenni samt Ottó sem þarf að vera með mér í miðri Mumbai þegar ég átta mig á því hvað við erum að fara að gera næsta hálfa árið. Ég er viss um að það kikkar ekki almennilega inn fyrr en þá.

Seinustu helgi ákváðum við að gera okkur dagamun, enda hef ég varla týmt að kaupa brynjuís (hvað þá annað) í allt sumar. Við fórum suður til að skóa okkur upp fyrir ferðina og fara í kínverska sendiráðið, ásamt skemmtilegri hlutum. Þetta var frábært langt helgarfrí; ættingjar stjönuðu við okkur og buðu okkur í mat, við áttum met í að hitta margt fólk á stuttum tíma, fórum á langþráðan stjórnarhitting og sáum Megas og senuþjófana í Laugardalshöll. Takk fyrir samveruna allir. Kringlan á þynnkulaugardegi er samt helvíti og mælist ég til þess að slíkar ferðir séu ekki farnar nema brýna nauðsyn krefji.

Nóg í bili!It will be fun...

1.8.07

Náttborðið segir meira um manninn en margur heldur. Eða eitthvað.

Á náttborðinu mínu hvílir leslampi, bunki af Time blöðum, baukur skreyttur Múmínálfunum sem geymir drasl og neyðarbirgðir af súkkulaði, sería af Family guy, innrömmuð árshátíðar-gimpa-mynd af okkur Ottó, lítil stílabók, fátæklegur launaseðill frá Akureyrarbæ, bólusetningaskírteini. Haugur af bókum - dönsk ferðabók um Indland, Lonely planet bók um Síberíuhraðlestina, Sál og mál eftir Þorstein Gylfason, The problems of Philosophy eftir Bertrand Russell, Ilmurinn eftir Patrick Suskind og Stríð og friður eftir Leo Tolstoj. Pakki af snýtiklútum, nefsprey, íbúfen, frunsukrem, vatnsglas og hálsbólgutöflur. Að ógleymdu tuskudýrinu mínu sem er líka spiladós; uppstoppaður kóalabjörn.

Það er örugglega hægt að lesa ýmislegt úr þessari upptalningu.

Mikið er ömurlegt að vera lasinn. Auðvitað er vont að vera með hita og beinverki og hlustaverk og hausverk og kvef og hósta og hálsbólgu - vissulega. En verst þykir mér hversu ofsalega geðvond og viðþolslaus ég verð í svona veikindum. Ég nenni þessu ekki, síst að sumri til.

Ég kíkti aðeins niður í bæ seinasta laugardagskvöld. Það var mjög gaman, enda hitti ég fullt af skemmtilegu fólki. Hinsvegar var það líka dálítið vandræðalegt því að flestir sem ég hitti voru steinhissa að sjá mig þar sem þeir héldu að ég væri farin til Asíu eða byggi einhversstaðar úti á landi í sumar. Afhverju hélt fólk það? Jú, það er ekki búið að sjá mig í allt sumar. Kannski eitthvað til í því. Ég hlakka til næstu helgar, þá verð ég í fríi og krefst þess að hafa gaman og hitta fólk!

Ætla að laga til á náttborðinu mínu.

4.7.07

Ég lifi. Meira að segja bara ágætis lífi. Svona ef að einhverjir voru farnir að velta því fyrir sér!

Sautjándi júní rann upp, bjartur og fagur. Þessi dagur var frábær í alla staði. Ég held ég hafi brosað allan daginn. Ég flutti tvær ræður og fannst báðar ganga prýðilega. Það kom mér á óvart að ég var ekki stressuð yfir þeim heldur fannst einfaldlega ótrúlega skemmtilegt og mikill heiður að fá að flytja þær. Athöfnin sjálf var mjög fín, enda fannst mér flestar ræðurnar góðar, sérstaklega ávarp 60 ára stúdentsins. Ég fékk líka þrenn verðlaun, fyrir félagsstarf, framúrskarandi árangur í heimspeki og framúrskarandi árangur í félagsfræði, sem var að sjálfsögðu mjög gaman og kom skemmtilega á óvart. (Sérstalega félagsfræðin!) Veislan var alveg ótrúlega fjölmenn og fjörug, það komu rúmlega 100 manns hingað í Huldugilið og samt var aldrei troðið. Hoppukastalinn góði átti kannski þátt í því enda voru allir krakkarnir fastir í honum svo við vissum ekki af þessum 20 börnum undir 12 ára aldri sem voru hér. (Dóri og Gitta gátu líka fengið útrás í kastalanum svo við urðum ekki jafn vör við lætin í þeim). Nína og Skúli komu hingað og gistu og Nína tók myndir af mér og Ottó. Það var frábært að hafa þau hér, svo miklu betra að hafa einkaljósmyndara með sér allan daginn heldur en að fara í þvingað ljósmyndastúdíó! Fyrir utan hvað þau eru skemmtileg og hjálpsöm.

Það var ekki fyrr en um kvöldið, í hátíðarkvöldverðinum sem að nokkur tár brutust fram. Ég hringdi líka bjöllunni í allra seinasta skiptið... Auðvitað er skrýtið að þetta tímabil sé búið en nú taka nýir og góðir hlutir við. Ég er reyndar strax farin að hlakka til að hitta megnið af fólkinu að ári liðnu.

Ég byrjaði svo að vinna á elliheimilinu, mikið var það nú gott! Vinnan gengur eins og í sögu og ég er ánægð með að vera þar fram að áramótum. Vonandi næ ég að safna mér helling af aurum. Hef reyndar ekki miklar áhyggjur af öðru þar sem ég bý hér heima og tími ekki einusinni að kaupa mér maskara, svo nísk er ég!

Ragga býr hér heima og er nýja litla systir mín. Hvað er notalegra en að kúra hjá Röggu og horfa á So you think you can dance (meðan hún sefur reyndar, en jæja). Hún er á Hróarskeldu núna en Gitta reddaði þessu og gistir hér í staðinn. Kom kvöldið fyrir afmælið mitt, vei! Já, ég er líka búin að eiga tvítugsafmæli. Fyrri hluta dagsins eyddi ég í að skeina rassa, síðan tók ferð í ríkið við (klisja, en þetta varð mjög fyndin ferð!), pizzuveisla ala mamma og fótbolti með litlu frændum mínum. (Í fyrsta skipti sem ég sparka á milli örugglega, tilvalið að gera það á tvítugsafmælinu mínu). Síðan var villt mánudagspartý með tveimur vitlausum, sænskum vinnufélögum Gittu (stelpur sem hlusta bara á sænskt teknó), Dóra, hundinum hans Dóra, Gittu og Júlíusi (sem gaf mér frábæra og táknræna gjöf). Splendid alveg hreint.

Ég hef komið mjög vel undan seinustu misserum þar sem ég kafnaði næstum því í útskriftargjöfum og svo í tvítugsafmælisgjöfum. Ég fer alveg að verða tilbúin til að flytja að heiman. Svo ætla mamma og pabbi að bjóða mér á Friðrik V þegar hann opnar á nýja staðnum. Lúxuslíf. Það eina sem skyggir á gleðina er grasekkjulífið sem ég er sannast sagna ekkert alltof ánægð með. En Ottó græðir víst fullt af pening á sjónum svo að það þýðir ekkert nema að bíta á jaxlinn!

Ég fékk dálítið furðulegar fréttir á afmælisdaginn. Ég fór í blóðprufu í seinustu viku og bað um að járnmagn og b-vítamínmagn í blóðinu væri athugað. Ég er nefnilega eiginlega alltaf eins og drusla, þreytt og ómöguleg. Ég hringdi svo í lækninn sem sagði mér að það væri allt í góðu lagi með járnið og b-vítamínið og ég hélt að ég væri bara móðursjúk og löt. En svo bætti hann því við að ég væri með afar vanvirkan skjaldkirtil. Jahso... eitthvað sem hrjáir aðallega konur á sextugsaldrinum, en jæja, þetta er víst ættarfylgja. Þá er ekkert annað að gera en að fara á lyf það sem eftir er, sem sökkar. Hinsvegar er ótrúlega gott að þetta er loksins komið upp og ég hef einhverja útskýringu á letinni í mér. Líklega hefur þetta staðið yfir í einhvern tíma, nokkur ár? Skjaldkirtillinn framleiðir eiginlega bensínið, veitir drifkraftinn. Þeir sem eru með vanvirkan skjaldkirtil safna t.d. spiki því að brennslan er nánast engin, þeir eru sífellt þreyttir og orkulausir og svo eru ýmis önnur einkenni. Ég hlakka eiginlega til þegar að það er búið að stilla af lyfjagjöfina og vona að ég verði hressari áður en ég held til útlandsins!

Talandi um það, planið er að fara til Asíu eftir áramót og taka svo Síberíuhraðlestina til Rússlands. Nú er skipulagningin að byrja, þarf að panta bólusetningar og svona. Hlakka svo til!

Þetta er ágætis skammtur í bili, pant fá komment! Þá blogga ég kannski oftar og minna í einu :) Enda á mynd sem Nína tók 17. júní:

13.6.07

Já, ég fór þetta á litlu skrefunum.

Ritgerðinni var skilað í bréfalúgu Sigurðar Ólafssonar þremur tímum eftir seinastaseinastaseinasta skilafrest, eða kl. 3 aðfaranótt mánudags. Því fylgdi mikill léttir. Ég er ekki enn búin að lesa ritgerðina almennilega í heild sinni og er ekkert viss um að mig langi til þess. Nokkurn tíman. Nú er ég dauðstressuð yfir því hvað ég fæ fyrir þetta 23ja blaðsíðna skrýmsli.

Annars gengu prófin glimrandi og ég fékk fínar einkunnir, sérstaklega miðað við ástundun! (8, 9, 9, 10). Nema í íþróttum því þær sökka og ég sökka í þeim.

Ég er svo spennt! Húfan var keypt í dag og ég þreif helling fyrir veisluna. Þrifin halda áfram á morgun og kannski maður finni tíma til að skrifa eina ræðu eða tvær? Hver veit. Kannski ég endi á að skrifa þær klukkustund fyrir flutning eins og á árshátíðinni. Vonandi ekki samt.

Fyrir áhugasama verð ég með ávarp nýstúdents kl. 14:15 niðri í bæ. Jámmjámm.

Nína er að koma í bæinn og ég hlakka til! Hún ætlar að taka myndir af mér og Ottó og vera sæt. Eins og alltaf.

Fólk er að spyrja mig hvað mig langi í útskriftargjöf. Ég ætlast ekki til þess að nokkur gefi mér gjöf, það er bara gaman að sjá framan í fólk og er í sjálfu sér nóg. Sérstaklega finnst mér það óþarfi að fátækir námsmenn séu að standa í einhverjum stórræðum! En þar sem ættingjar eru að biðja um einhver svör þá væri voðalega gaman að fá bækur (þær ganga alltaf í mínu tilviki), inneign í 66 gráður norður þar sem mig langar í ullarnærföt fyrir ferðina miklu til Síberíu og eitthvað hagnýtt. Ég er ekki sérlega gefin fyrir eitthvað sem að nýtist ekki baun, eins og ljótar styttur t.d. Eldhúsdót finnst mér ótrúlega skemmtilegt, sérstaklega úr Kokku og Iittala er uppáhald. Annars er ég ekkert kresin.

Hlakkihlakkihlakki til á sunnudaaaaginn!

21.5.07

Argh plöh föh.

Ég hef ekki orku í að klára þetta. Vill einhver hringja á vælubílinn?!

Mig dreymdi brautskráninguna mína í dag, mikið rosalega verður gaman 17. júní. Ég sé þetta fyrir mér, mitt inn í miðri Kristínar-þvögu fjórða bekkjar er ég kölluð upp og tek við stúdentsskírteininu mínu, skælbrosandi. Vonandi rætist þessi draumur, akkúrat núna sé ég þó ekki alveg fram á það.

Þetta er búinn að vera ömurlegur dagur og ekkert frábær hálfur mánuður ef út í það er farið. Endalaust orkuleysi og augnverkur og vöðvabólga og „búlgaría“ og vanræksla við vini og verkefnaskil.

Nú er ég reyndar búin að skila öllu af mér nema ég á „litla“ 20 blaðsíðna heimspekiritgerð eftir. Já, ég má heldur ekki gleyma rosalega hressum inspectrix pistli í Munin (sem vonandi kemur út).

Þessi dagur fór líka í rugl, búlgaría og hiti (þess vegna dreymdi mig í _dag_ að ég væri að útskrifast, ég ákvað að ég ætti skilið frí frá klósettsetunni og lagði mig) og svo loks... að sauma 22 merki á Dimissio búninga F-bekkjarins með mömmu. Elska bekkinn minn ekkert allt of mikið þessa stundina þar sem það fóru tæpar fjórar klukkustundir í þetta bras. Ég hefði getað varið þeim klukkustundum betur og móðir mín eflaust líka.

Æi ætli það sé ekki best að byrja allnighterinn minn svo ég líti ekki út eins og algjör þrolli á fundi með Sigurði Ólafs á morgun útaf þessu ritgerðarklúðri. Elska að púlla allnighter þegar mig langar mest að pakka mér inn í sæng og vera veik í friði.

Djöfull djöfull djöfull.

8.5.07

„Hvernig er lífið núna?“ Já það er von að fólk spyrji þessarar spurningar.

Lífið er latt, seinasta vika snerist um svefn og kúr. Já það var gott. Núna þarf ég þó að hrista af mér slenið, taka mig saman í andlitinu, láta hendur standa fram úr ermum o.s.frv. ef að ég á að útskrifast í vor.

Námsleiði er hræðilegt fyrirbæri.

Annað - Hver býðst til að halda kosningavöku/júróvisjón partý?

Mér sýnist á öllu að ég eigi svo forpokaða foreldra að þeir ætli að gefa ríkisstjórnarflokkunum hvort sitt atkvæðið. Mér hrýs hugur við að vera í faðmi fjölskyldunnar nk. laugardagskvöld. Ég býðst til að koma með góðgæti í partýið ef einhver býðst til að halda það.

20.4.07

Það er tæp vika eftir af stjórnarsetu minni... Úff. Meira um það síðar.

Gærkvöldið var sérdeilis prýðileg skemmtun og ágætis hvíld. Mikið finnst mér gaman að tala við skemmtilegt fólk, það er hreinlega eitt það besta sem ég veit.

Sumardagurinn fyrsti; Útsof, pönnsur frá ömmu Ottós og göngutúr í Kjarnaskógi. Plebbaplebb en samt svo ljúft. Óformlegt matarboð þar sem Ranna var heiðursgestur og loks leiksýning. Lífið - notkunarreglur er frábært verk. Mig langar aftur til að ná öllum orðaleikjunum og skilja persónurnar betur. Ég mæli eindregið með þessu, fyrir alla. Tónlistin er líka falleg.

En leiðinlegt að ljúka þessum annars ágæta degi með því að klára verkefni í lífsleikni og íþróttum...

6.4.07

Svipmynd af Osló

Í Osló borðaði ég knækkebrod með brunost, brauð með makríl eða kavíar og eggjum og lax í morgunmat. Namm. Osló er blanda af gömlu og nýju og það er ómögulegt að rata þar. Eins og risastórt sveitaþorp byggt í hólum og hæðum. Oslóarbúar er líka svo heppnir að eiga listasafn með verkum eftir Munch. Þrátt fyrir að Ópið og Madonna hafi verið í viðgerð var ótrúlegt að labba í gegnum safnið. Einnig var gaman að skoða stafkirkju og aðrar fornar byggingar og borða steinsteikta lefsu með smjöri. Já og sitja úti í norskri páskasól (sem er mun heitari en sú íslenska) og fá sér en öl. Osló er mun fjölmenningarlegri heldur en Reykjavík, það er í raun varla sambærilegt. Í úthverfum hafa þróast útlendingabyggðir (Breiðholt í framtíðinni?) og norsk kona sagði mömmu að ef að maður tæki "trikken" eða strætó í hálftíma, frá ríku hverfi til fátækara, lækkaði meðallífaldur um 10 ár á milli svæða. Talandi um trikken, við tókum hann útum allt og mamma og pabbi kunnu enn á hann. Það eru rúm 20 ár síðan að mamma hefur farið út en hún bjó í borginni í sex ár, pabbi í átta. Því var þetta nostalgíuferð af þeirra hálfu og við gengum um svæði dýralæknaháskólans og um fleiri gamlar slóðir. Mér finnst allar norskar stelpur líta eins út, það hræddi mig smá. Þær eru allar eins vaxnar, grannar og hávaxnar, með ljósar strípur, eins málaðar og með stór sólgleraugu. Það fer svo eftir efnahag hvort þau eru frá H&M eða D&G. Norðmenn eru að þessu leytinu til nokkuð einsleitir, innfæddir það er. Þeir töluðu líka norsku við mann. Ef að ég ávarpaði afgreiðslumann á ensku svaraði hann á norsku. Það var reyndar dálítið skemmtilegt því þá ullaði ég útúr mér dönsk/norsk/íslenskunni minni á móti. Við fórum líka í mat til Gunnu frænku (ömmusystur, hressasta gellan í bænum). Hún á brjálaðan tengdason sem talaði við mig á fullum hraða og gott betur. Hraðnámskeið í norsku ásamt köldu borði hefði verið góð yfirskrift á kvöldinu. Osló á líka ágætis úrval af verslunum og það eru heilar þrjár H&M búðir í miðbænum. Allar alveg hreint prýðilegar, ég gáði. Ég er þó enn með blöðrur á fótunum eftir að við gengum nokkra kílómetra í skóginum fyrir ofan borgina og daginn eftir fórum við mamma í verslunarleiðangur. Ég held að seinni dagurinn hafi reynt meira á. Í fjöllunum fengum við okkur fyrst kakó og eplaköku á fjallaveitingastað og gengum svo niður að Holmenkollen, stóra skíðastökkpallinum. Ekki hafa áhyggjur, enginn fótbrotnaði. Skilji hver sem vilji.

Ég er sumsagt komin heim og er grasekkja. Ottó stakk af á sjó í páskafríinu, sniðugur. Nú bíð ég eftir að hann hringi úr lélegasta síma í heimi svo ég geti sagt honum að við eigum miða á Björk, Antony og Hot Chip. Óheppinn hann að stinga af, þá ákveð ég bara svona hluti fyrir hann. Hlakka poggu til.

Ég hlakka líka svo mikið mikið mikið til að útskrifast og fara að skipuleggja næsta ár af alvöru. Mamma gaf mér Lonely planet bók um Síberíuhraðlestina og ég get ekki hætt að lesa. Rússland, Mongólía, Kína og hver veit hvað fleira...

Í tilefni af föstudeginum langa, Golgatahæð eftir Munch:E.s. Hrós til Vantrúarmanna sem héldu bingó í dag.

30.3.07

Smá upplýsingar í flýti:

Á eftir munum við Ragga Ýr fljúga með Hljóðnemann suður fyrir keppnina í kvöld. Ekkert kjánalegt eða neitt að sitja með þennan virðulega grip í fanginu í flugvélinni.

Ég tek á móti tölvu fyrir hönd nemendafélagsins á keppninni. Stuð.

Menntamálaráðuneytið er alveg að fara með mig...

Fleiri menntamálayfirvöld (ef svo má komast að orði) eru einnig að fara með mig. Hvert veit enginn.

Hinsvegar veit ég vel að ég er að fara til Osló í fyrramálið. Að gera hvað og nákvæmlega hvers vegna liggur ekki ljóst fyrir. Slökun? Hljómar vel.

Páskafríið mun fara í nám. Eingöngu, jú og kannski skýrslugerð og svo einn hitting með gömlu stjórninni.

Verð að þjóta.

23.3.07

Söngkeppnin í gær gekk vel!

Vei - svona vorum við flott að taka til eftir keppnina:Sætu.

Ritgerð? Ojbara.

18.3.07

Það eru nokkrir hlutir sem að halda mér á floti þessa dagana. Ólíkir hlutir og skulu þeir nú taldir upp í stafrófsröð:

Bertrand Russell.

Einhver gaur sem að lítur út eins og Bert Ljung.

Elliheimilið, en þar hyggst ég starfa í sumar og fram á veturinn ef að ég verð ráðin.

Framtíðarplön. Lonelyplanet.com er uppáhalds síðan mín þessa dagana.

Mamma

Nýja rúmið mitt. Ó en sú sæla... Tempur hlýtur að vera besta uppfinning síðari tíma.

Osló. Þangað fer ég í fjóra daga í byrjun páskafrís. Að gera hvað veit ég ekki en ég hlakka samt til.

Sannir vinir. Svona vinir sem að maður þarf ekki að eiga á hættu að stingi mann í bakið þegar síst skyldi, þurfa ekki alveg stöðuga ummönnun og skilja það að maður hafi ekki alltaf tíma til að rækta vinskapinn. Eins sorglegt og það nú er, útaf fyrir sig. Vinir sem maður vill eiga alltaf. Þessi lýsing á við þónokkra, heppin ég.

Útskriftin nálgast óðum... Þá verður hopp og hí og gaman að lifa.

Að lokum:

The good life, as I conceive it, is a happy life. I do not mean that if you are good you will be happy - I mean that if you are happy you will be good. - Bertrand Russell

12.3.07

Hugleiðing

Sagt er að vinnan auðgi andann. Þetta orðatiltæki hefur verið mér ofarlega í huga undanfarið. Ég held að það sé ekki meiri sannleikur í því en mörgum öðrum orðatiltækjum sem að íslensk tunga hefur alið af sér (sbr. morgunstund gefur gull í mund).

Vissulega hef ég miklar mætur á vinnu og hef iðulega nóg að gera, sumir myndu telja það of mikið. Ég ber einnig mikla virðingu fyrir þeim sem að vinna erfiðisvinnu en ég myndi þó seint segja að hún auðgaði andann. Ég get sæst á að maður fái margar hugmyndir og hrindi ýmsu í framkvæmd, tali við áhugavert fólk o.s.frv...

Ég tel að í þessu sambandi sé miklu vænlegra að liggja í leti, hafa rúm og tíma til að lesa mikið og hugsa meira.

Nú get ég ekki neitað því að ég þrái slíkt líf akkúrat núna. Þessvegna leyfði ég mér að eyða klst. í að hunsa dagbókina og aðkallandi og yfirvofandi verkefni. Já það er ljúft líf að hlusta á Bowie í flónelnáttfötum og lesa um Russell. Andi minn er auðugur - í bili.

4.3.07

MR-ingar eru svei mér skemmtilegt fólk. Heimsókn þeirra í MA heppnaðist vel og vonandi er búið að endurvekja vinasamband sem var á milli skólanna fyrir nokkrum árum. Vei!

Ég er dauðþreytt eftir þessa helgi, eitthvað einstaklega orkulítil. Pabbi bauð mér á sleða í dag og ég þáði boðið fegins hendi. Að fara á sleða er eins og fimmfaldur spa-tími fyrir vinnufíkil. Ó hvað það er gott að einbeita sér einungis að því á hvaða leið maður er, hvort það séu steinar eða hliðarhalli framundan og heyra ekki neitt nema vélarhljóð. Enginn farsími sem hringir og enginn sem vill tala við mann. Hvað er líka betur til þess fallið að styrkja feðginasamband en að festa sleðana sína? Jah, mér er spurn. Sérstaklega hjá feðginum sem eru ekki alltaf sammála og eiga það til að flækja samskiptin sín á milli. Þá er stórgott að hafa bara eitt markmið, að losa báða sleðana með samstilltu, erfiðu átaki. (Bakið á mér er búið að vera en mér líður samt vel).

Elsku Ottó reyndist ekki bara vera með hálsbólgu. Hann er með einkirningasótt sem er stundum nefnd kossaveikin. Einkennin eru m.a. hiti, bólginn og sár háls, stækkun í eitlum og bólgur í milta og lifur. Jammíjamm. Fróðir menn segja einnig að maður geti verið heillengi að ná sér upp úr þessum fjanda.

Eins mikið og ég vorkenni Ottó get ég ekki annað en hugsað um eigin heilsu. Eins og áður segir er einkirningasótt kölluð kossaveikin. Nú er staðreyndin sú að ég hef knúsað Ottó einu sinni eða tvisvar seinustu 6 vikurnar og er ekki með sterkasta ónæmiskerfi í heimi. Úff, nú er bara að bíða og vona. Ég er að skipuleggja næstu vikur eins og ég eigi von á því að falla frá. Sniðug.

Hérna, hver sagði að lífsleikni væri sniðugt fag..?

1.3.07

Það er ótrúlega mikið að gera.

Næst skal ég skrifa um ótrúlega skemmtilegu Egilsstaðaferðina með stjórninni, þegar ég var svöl á mánudaginn og flaug suður og aftur heim í boði RÚV til að fara á fund með framkvæmdarstjóra útvarps og sjálfum Páli Magnússyni, MR-heimsóknina og Gettu betur.

En ekki að sinni. Nú þarf ég víst að gera lífsleikniverkefni (sem er næstum því meiri tímaeyðsla en að skrifa þessar línur hér) og hlusta á elsku Ottó ræskja sig trekk í trekk. Hann er með hálsbólgu sjáið þið til og er því með tebolla í hönd og klæddur í bleik-fjólubláu lopapeysuna mína. How manly.

Geðheilsa, ó geðheilsa...

20.2.07

Reykjarvíkurferð að baki.

Fínasta ferð alveg hreint. Kristján Einarsson er besti gestgjafi sem um getur, ég hitti besta fólk í heimi, fór í starfskynningar, kynnti mér námsframboð, fundaði með RÚV um Söngkeppnina og margt fleira. Höfuðið á mér var bæði skýrara og ruglaðra eftir reisuna...

Þegar ég kom út úr HÍ kynningunni langaði mig m.a. að læra þjóðfræði, mannfræði, kínversku, fornleifafræði, fjölmiðlafræði, heimspeki, alþjóðasamskipti, spænsku og svona gæti ég talið áfram. Það hefði ekki komið mér á óvart þó að einhver hefði náð að vekja áhuga minn á verkfræði eða stærðfræði.

Ég hef þó ákveðið að halda mig við gömul plön, svona að mestu leyti. Það er ekki gott að skipuleggja of mikið og of langt fram í tímann, ekki svona hluti. Réttara er að njóta líðandi stundar til dæmis með því að fá sér tebolla og taka sér bók í hönd.

Góða nótt.
Reykjarvíkurferð að baki.

Fínasta ferð alveg hreint. Kristján Einarsson er besti gestgjafi sem um getur, ég hitti besta fólk í heimi, fór í starfskynningar, kynnti mér námsframboð, fundaði með RÚV um Söngkeppnina og margt fleira. Prýðilegt alveg hreint, skýrði suma hluti og ruglaði aðra.

Þegar ég kom út úr HÍ kynningunni langaði mig að læra þjóðfræði, mannfræði, kínversku, fornleifafræði, fjölmiðlafræði, heimspeki, alþjóðasamskipti, spænsku og ég veit ekki hvað og hvað. Hefði ekki komið mér á óvart þó að einhver hefði platað mig til að skrá mig í verkfræði.

Ég hef þó ákveðið að halda mig við gömul plön. Svona að nokkru leyti, það er ekki gott að plana of mikið og of langt fram í tímann. Réttara er að njóta líðandi stundar. Það ætla ég að gera akkúrat núna, fá mér te og taka mér bók í hönd.

Góða nótt.

11.2.07

Það er komið að þeim árlega viðburði að mamma bakar bollur ofan í alla vini mína sem komast ekki heim til sín á bolludaginn, og nokkra fleiri. Eldhúsið er fullt af allskyns bollum - vatnsdeigs, sætum gerbollum og grófum bollum til að hafa með túnfiskssalati. Hindberjasulta, jarðaberjasulta, rifsberjasulta, venjulegur rjómi, jarðaberjarjómi, vanillubúðingur og súkkulaðikrem. Namminammnamm.

Þessi mynd hressir, bætir og kætir:(Tekin af muninn.is)
Bless.

4.2.07

Takk fyrir athugasemdirnar öll. Greinin hefur tekið á sig mynd svo að formaður Carmínunefndar getur hætt að kvarta. Ekki það að hann geri mikið af því blessaður.

Ég fór á tónleika í gær. Ótrúlegir gítarhæfileikar, sjarmi, flott rödd, góðar lagasmíðar, frábærar textasmíðar, tilfinningaþrunginn hárlokkur og húmor fyrir sjálfum sér gera Pétur Ben að góðum gaur. Gaman að horfa og hlýða á, vissulega.

En hvað það er skrýtið að vera komin aftur í rútínu. En hvað það er gott að eiga aftur dagbók og en hvað það er margt skrifað í hana sem á eftir að komast í framkvæmd. Lífið er að komast í fastar skorður.

Ses og höres.

30.1.07

Aðstoð óskast!

Ég er í óða önn við að skrifa Carmínu-greinina mína. Hún verður uppbyggð sem To do listi (figures).

Plís kommentiði svona, „to do“ punktum. Eitthvað sem ykkur finnst líklegt að ég setji á minn... eða þið skiljið.

Ef þið eruð vinir í raun, þá veit ég að þið kommentið. Sé svo til hvað ég nota :)

E.s. Þið þurfið ekkert að vera vinir í raun til að kommenta. Kunningjar og blogglesendur sem telja sig vita eitthvað hvernig ég er mega gera það líka.

E.e.s. Málfarið í þessari færslu er hræðilegt. Afsakið.

21.1.07

Satans satans satans lögfræði.

Þetta er svo leiðinlegt að mig verkjar. Ef að ég á að fara í Pollýönnuleikinn (ég hata samt Pollýönnu) þá var gott að ég valdi lögfræði vegna þess að:

a) Ég er búin að læra allskyns sem að ég hafði ekki hugmynd um áður og mun eflaust koma mér vel í daglegu lífi. Reyndar finnst mér að sumt af þessu námsefni ætti að vera kennt öllum, til dæmis í lífsleikni. Það væri tilbreyting frá þessari stanslausu ansvítans naflaskoðun sem fer fram í þeim tímum.

b) Ástæðan fyrir því að ég valdi lögfræði var sú að ég var að hugsa um að læra hana í háskóla. Jafnvel fara í Bifröst og vera í dragt með sleikt hár í pulsu. Þessi önn hefur þessvegna verið ágætis naflaskoðun, (áhrifaríkari en lífsleikniáfangar seinustu ára?) ég á aldrei aldrei eftir að leggja eitthvað þessu líkt fyrir mig. Frekar verð ég hreppsómagi og aumingi, hrehre. Nei ætli það samt...

Í gærkvöldið eyddi ég næstum tveimur tímum í að horfa á kynningu hjá Steve Jobs. Já, og ég varð alveg jafn glöð inni í mér og nördin sem voru á kynningunni þegar ég fylgdist með honum sýna allt Apple dótið. Ég er hrikaleg. Svo ekki sé minnst á iPhone, það var náttúrulega toppurinn. Pant!Vá hvað ég er mikil efnishyggjumanneskja. Kannski ég ætti að fara í Bifröst? Eða... Æ ég er farin að spinna tóma þvælu, bara til að vinna mér inn gálgafrest... En bækurnar bíða víst.